29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í C-deild Alþingistíðinda. (4329)

154. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég hefi leyft mér ásamt hv. 2. þm. Rang. að bera fram frv. Þetta á þskj. 154. Ég ætla ekki að fara að hafa langa framsögu að því en vil aðeins geta þess, að það er borið fram sem einn lítill liður í þeirri viðleitni að draga úr starfsmannahaldi hins opinbera, eins og t. d. frv. um breyt. á áfengislögunum og frv. um breyt. á 1. um fræðslumalastjórn o. fl. Þá vil ég einnig benda á í þessu sambandi, að viða að hafa komið óskir um að afnema þetta embætti. Benda þær til þess, að það muni almennt álit úti um land, að embætti þetta hafi ekki komið að þeim notum, sem til var ætlazt í fyrstu.

Ég get vel búizt við, að sú mótbára komi fram gegn frv. þessu, að það sé ekki til sparnaðar fyrir ríkissjóðinn, þar sem bankar og sparisjóðir landsins greiði launin. En þá er því til að svara, að reynslan hefir orðið sú, að sá hluti launanna, sem greiðast hefir átt af sparisjóðunum, hefir ekki nást allur inn, og því lent beint á ríkissjóði.

Hvað snertir þann hluta launanna, sem greiðist af bönkunum, þá má segja, að þar sé náið nef augum. Það skiptir í raun og veru ekki svo miklu máli, hvort þeir greiða hann eða ríkissjóður, þar sem svo er komið, að tveir af bönkum landsins eru reknir algerlega á ábyrgð ríkissjóðs, og sá þriðji í raun og veru að mestu leyti einnig.

Sé ég svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en óska frv. vísað til fjhn.umr. lokinni.