29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í C-deild Alþingistíðinda. (4333)

154. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Ólafur Thors:

Það er vitanlega alveg tilgangslaust að deila við hv. flm. um það, hvort bankaeftirlitsmaðurinn er gagnkunnugur starfsemi sparisjóðanna eða ekki. Ég hefi það frá góðum heimildum, að hann sé þeim gagnkunnugur, og hv. flm. kom ekki með nein þau rök, er afsanni það. Ég get því með eins miklum rétti sagt, að allt það, sem hv. flm. sagði um það efni, sé gaspur. (StgrS: Þá étur hver sitt! ). Ég vil ráðleggja hv. flm. að fara til bankaeftirlitsmannsins og spyrja hann að því, hvort hann þekki ekki sparisjóð Sauðarkróks og sé kunnugur starfsemi hans. Ég er ekki í vafa um, að hann þekkir vel til hans.

Það er rétt að leiða athygli að einu því, er hv. flm. sagði. Hann mælti, að svo væri um alla stjórnarflokka, að þeir vildu ná í aðstöðu til að hafa yfirráð yfir bönkunum og skipuðu yfir þá í þeim tilgangi menn, sem hefðu svipaðar skoðanir og stj. og flokkur hennar. En í þessu kemur einmitt fram skaðlegur misskilningur um tilgang bankanna. Það er einmitt nauðsynlegt, að um þá sé sem mestur friður og að þeir séu sem óháðastir ríkisvaldinu. Hættan í landsbankalögunum frá 1928 liggur einmitt í því, að með þeim var verið að seilast til meirihl.valds yfir bankanum og lagabreytingar gerðar í því skyni. Þetta er hættulegt fordæmi, ef því verður fylgt fram síðar af þeim stjórnum, sem þá verða. Fyrirkomulag stjórna bankanna á eigi að vera það, að þær séu hnöttur, sem hinar pólitísku flokksstjórnir geti velt eftir vild sinni. Bankinn á að sinna sérstöku starfi fyrir alþjóð, og það starf verður bezt unnið með því, að hann sé ekki í höndum flokksstjórnar. En þar sem þessi tilhneiging, að gera bankana háða flokksstjórnum, er mjög rík hjá núv. stjórnarflokki, þá er nauðsynlegt að berja hana niður við hvert tækifæri.

Hv. flm. sagði, að það væri skoðun almennings, að leggja bæri starf bankaeftirlitsmannsins niður, en sjálfur væri hann ekki svo bankafróður, að hann gæti um það dæmt. Ég veit nú varla, hvort fært er að byggja á skoðun almennings í þessu. Hann er næsta ofróður um gagnsemi þessa starfs. Er það og von, þar sem hv. flm. segist ekkert vit hafa á því — og um það er ég honum alveg sammála. En þótt hann hefði ekkert vit á þessu, og einmitt vegna þess, þá átti hann ekki að flytja þetta frv.