10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í D-deild Alþingistíðinda. (4338)

540. mál, áfengisbruggun og önnur áfengislagabrot

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það hafa nú þrír hv. þdm. mælt hér fyrir sínum till. eða tillöguhlutum. Aðalatriðið í því máli, sem hér er til umr. í kvöld, er vitanlega aðaltill. hv. þm. Seyðf.; hinar till. tvær eru um minni atriði, og mun ég því eyða litlum tíma í að ræða um þær.

Hv. þm. Seyðf. viðurkennir það réttilega, að í því ástandi, sem við nú búum við, sem er ekki algert bann, heldur takmörkuð sala víns, hafi þær tilraunir, sem gerðar hafa verið á síðustu árum til þess að stöðva vissa liði af óleyfilegri eða ósiðlegri notkun áfengis, sem áður bar nokkuð mikið á, borið nokkurn árangur. Og af því að hv. þm. Seyðf. er nokkuð kunnugt um þessi mál, þá held ég, að hann geti ekki gert ráð fyrir, að þeir menn, sem gert hafa þær einu tilraunir, sem gerðar hafa verið á síðustu árum til þess að reyna að halda ósiðlegri nautn áfengis í skefjum, hafi gert það af léttúð að slá undan, að því ei honum finnst, eins og þegar veitingatímanum á hótel Borg var breytt, heldur má honum vera ljóst, að til þess hafi verið full ástæða. Það er rétt hjá hv. þm., að með aukinni tollgæzlu og eftirliti hefir unnizt tvennt. Það hefir tekizt að hreinsa þann blett nokkurnveginn af þjóðinni, að það séu sífellt dauðadrukknir menn að flækjast um þilfar og farþegarúm skipa, er sigla með ströndum fram. Ég hefi einhverntíma áður sagt frá því hér á þingi, að ég man sérstaklega eftir einu dæmi um ástandið, sem áður var í þessu efni. Það var verzlunarmaður einn frá London sem kom hingað af og til í nokkur ár. Hann kvaðst sjá fleiri fulla menn á leiðinni frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur heldur en hann sæi í London á heilu ári. Nú hefir auðvitað ekki verið meiri ofdrykkja á þessari leið heldur en annarsstaðar með ströndum landsins, það vildi bara svo til, að þessi maður var kunnugastur þeirri leið og siglingum þar. Ég skal geta þess, að ástæðan til þess, að ég fór að taka upp baráttuna við drykkjuslarkið á skipum, er sigla með ströndum fram, var sú, að þáverandi forstjóri Eimskipafélagsins kom til mín stuttu eftir að ég tók sæti í landsstj. og sagðist vera í mestu vandræðum með Eimskipafélagsskipin, því það væri alltaf verið að flytja með þeim áfengi og smygla í land, hvernig sem hann og yfirmennirnir á skipunum reyndu að hafa, hemil á því. Kvað hann þetta vera stórhættulegt fyrir félagið, sérstaklega í Englandi, því þar er tekið mjög hart á því, ef upp kemst, að skip hafi áfengi meðferðis á óleyfilegan hátt. Þetta varð til þess, að ég fór að reyna að láta hafa eftirlit með þessu, með þeim árangri, sem hv. þm. Seyðf. lýsti réttilega. Hið sama er að segja um læknabrennivínið. Læknastéttin — eða allmikill hluti hennar — taldi lífsnauðsyn að hafa það. En nú er það smátt og smátt að verða niðurstaðan, að læknar þurfa mjög lítið áfengi til lækninga, og sumir jafnvel nota það alls ekki. Það varð mjög óvinsælt, sérstaklega hjá ýmsum flokksbræðrum hv. 1. þm. Reykv., þegar gerð var skýrsla um, hvað læknar og lyfja- búðir fengu af áfengi. Og stj. hefir yfirleitt engan stuðning fengið frá þeim flokki, sem hv. þm. telst nú til, hvorki til þess að bæta tollgæzluna eða skapa læknunum aðhald. Þvert á móti hefir aðalblað hans gengið alllangt í því að áfellast þessa viðleitni. Og þegar Alþingi gerði ráðstafanir til þess 1928, að einnig væri haft eftirlit með ölvun manna á opinberum samkomum hér á landi og reynt að halda uppi almennu velsæmi, þá olli það og klofningi og flokkadrætti á meðal templara og meiri hl. þeirra snerist á móti þessari tilraun. Og aðalblað íhaldsins, Morgunblaðið, uppnefndi löggæzlumennina og reyndi á allan hátt að óvirða þá og gera starf þeirra árangurslaust. Ég vil skjóta þessu til hv. 1. þm. Reykv., af því ég veit, að hann er talinn allvel viti borinn og að till. hans og hans nánustu í þessu máli verða að metast í hlutfalli við þá alvöru, sem fram hefir komið hjá þeim sömu mönnum í því að halda uppi heiðri landsins og þjóðarinnar í sambandi við áfengisnautn.

Hvað snertir læknabrennivínið, þá er það nú komið í ljós, að læknarnir þurfa í raun og veru alls ekki að hafa neitt sem heitir af víni til lækninga. Það er ákaflega lítið, sem þeir fá nú, og ég veit ekki til, að nokkur kvarti undan því. Nokkrir af beztu læknum landsins nota aldrei áfengi til lækninga. Það er því sannað nú, að hin öfgafulla mótstæða íhaldsins í sambandi við læknabrennivínið var skipulagsbundin tilraun vissra stétta í landinu til þess að geta fengið áfengi til drykkjar undir því yfirskini, að það væri lyf.

Ég vil hér til viðbótar minnast á eitt atriði, sem hv. þm. Seyðf. hefði mátt tala um, en hann e. t. v. hefir ekki tekið eftir, af því hann er nú fluttur héðan úr bænum. Það er sú breyting, sem orðin er hér í Rvík fyrir starf núv. lögreglustjóra og fjölgun lögregluþjónanna. Ytra útlit bæjarlífsins hefir mjög breytzt vegna starfsemi hinna ágætu lögregluþjóna og hins unga og röska lögreglustjóra. Það vita allir, að það er nú orðið tiltölulega sjaldgæft að sjá drukkna menn hér á götunum. Það er vegna þess, að ef menn láta á sér bera ölvuðum, eru þeir strax teknir; þeir, sem ekki geta borgað sektir, eru látnir vinna þær af sér. Þannig hefir verið skapað aðhald og sá blettur máður af höfuðstaðnum, sem opinber ofdrykkja veldur. Hitt vil ég jafnframt taka fram, að eins og menn geta skilið, er auðvitað ekki hægt að hindra drykkjuskap í heimahúsum í landi, þar sem ríkið sjálft selur áfeng vín fyrir mörg hundr. þús. króna. Um þá hlið drykkjuskaparins liggur ekki hér fyrir að ræða. Það vita allir, að það er mikið drukkið hér í Rvík. En það er fremur en áður drukkið undir þeim formum, sem ekki verða þjóðinni allri til minnkunar út á við. Sá drykkjuskapur er sjálfsagt skaðlegur líka, þó hann sé ekki eins áberandi, en það er ekki hægt að losna við það böl nema með auknu bindindi í landinu eða algerðu banni.

Það verður að játa, að samhliða því, sem sú landsstj., sem hv. þm. Seyðf. áfellir fyrir slælega framgöngu í þessu máli, herti á eftirliti þar sem hún gat náð til, hefir aukizt heimabruggun áfengis. Landsstj. hefir verið líkt sett gagnvart heimabrugguninni eins og framkvæmdarstjóri Eimskipafélagsins og skipstjórar hans voru, þegar hann kvartaði yfir því, að það væri alltaf verið að lauma áfengi í skipin. Það geta fleiri en Nelson brugðið sjónpípunni fyrir blinda augað. Það er ómögulegt fyrir landsstj. að fá sýslumennina til þess að gera nægilega mikið til að uppræta þessa óvenju. Og skyldu sína eftir bókstafsins lögmáli gera þeir, ef þeir taka fyrir þau mál, sem kærð eru. Það er ekki hægt að gerbreyta mönnum, sízt í einu vetfangi. Og það er vitanlegt, að margir af sýslumönnum landsins hafa ekki sömu lífsskoðanir og hv. flm. þessarar till., þó þeir séu annars dugandi menn. Þeir eru ekki bannmenn og álíta það ekki skyldu sína að ganga fram fyrir skjöldu í þessu máli. Bókstafsins skyldu uppfylla þeir allir, en þeir hafa yfirleitt fæstir nokkurn eiginlegan trúaráhuga fyrir því að kreppa að bruggurum og smyglurum. Andbanningar segja, að eftir því sem hert hefir verið á eftirlitinu með smyglurunum og læknabrennivíninu og komið meiri festu á hina löglegu áfengissölu, hafi aukizt heimabruggun. Ég býst við, að það sé rétt hjá hv. þm. Seyðf., að landverkamenn, sem yfirleitt eru fátækir menn, noti ekki teljandi Spánarvín. Og um mestan hluta sveitamanna er það vitað, að þeir nota Spánarvín alls ekki. Þeir hafa yfirleitt ekki efni á að kaupa þau og vilja þau heldur ekki. Það munu heilar sýslur vera jafnþurrar enn í dag eins og á meðan bannið stóð. En þetta er ekki nema önnur hlið áfengismálsins, og þess vegna er ég þakklátur þeim þremur hv. þm., sem flutt hafa þessa þáltill. Með því gefa þeir Alþingi tækifæri til að ræða eina hlið málsins, sem er virkilega hættuleg fyrir þjóðina og henni til minnkunar. En þar er að ræða um meinsemd, sem því miður er erfið viðfangs og e. t. v. miklu erfiðari heldur en hv. þm. Seyðf. gerir sér grein fyrir. Í sumum sveitum og kaupstöðum mun áreiðanlega talsvert mikið um menn, sem leggja það fyrir sig að brugga áfengi til drykkjar. Í sumum sýslum segja menn, að það séu jafnvel 10 til 15 menn, sem brugga. Ég verð nú að játa, að ég er mjög ófróður í öllu, sem að bruggun lýtur, og get ég því ekki mótmælt þeim kafla í ræðu hv. þm. Seyðf., þegar hann fjölyrti um eitt sérstakt efni, sem hættulegt væri fyrir það, hvað það væri mikið notað til bruggunar. Ég þykist vita, að það sé rétt, að það efni sé notað, en ég býst við, að þó komið gæti til mála að setja sölu þess undir eftirlit, þá yrði það ekki nægileg lausn á málinu, því vitanlega er hægt að brugga úr öðrum efnum, sem hver maður hlýtur að hafa aðgang að, t. d. korni og kartöflum.

Það er augljóst, að þar sem eru einn eða tveir bruggarar í hverjum hreppi, sem gefa og selja áfengi, þá veldur það miklum drykkjuskap: Og t. d. hefir mér verið sagt það úr einni sýslu nokkuð fjarlægri, að orðið hafi að fresta réttum í haust, a. m. k. hluta úr degi, vegna drykkjuskapar. Um hvern þessara bruggara skapast hringur eða vinagarður þeim til verndar, og það er yfirleitt mál manna, að eins og sýslumenn okkar standa að vígi sé nálega óvinnandi fyrir þá að hafa hendur í hári bruggaranna, svo framarlega sem nábúar þeirra og meiri hl. borgaranna vilja hylma yfir með þeim.

Nú vil ég taka það fram, að ég held eins og hv. þm. Seyðf., að ýmsir af sýslumönnunum geti gert meira en þeir hafa gert í þessu efni. En ég vil þó ekki vera ósanngjarn í þeirra garð, og til þess að skilja aðstöðu þeirra verður maður að athuga það, að flestir sýslumenn eru á vissan hátt einskonar landsfeður í sinni sýslu. Til þeirra leita menn ráða í hverskonar vandamálum, og margir þeirra hafa þann sið við minni háttar mál að reyna að koma á sættum á friðsamlegan hátt, heldur en að styðjast við lagasverðið. Hv. þm. verða að gæta þess, að þessu er ekki hægt að breyta gersamlega, og því hafa sýslumennirnir ekki góða aðstöðu til þess að beita sér gegn brugguninni, ef hún er orðin almenn og ef fólkið vill ekki styðja þá til þess. Við getum hugsað okkur, að hv. þm. Seyðf. væri sýslumaður í héraði, þar sem störfuðu 15 bruggarar. Við skulum svo gera ráð fyrir, að hann sýndi rögg af sér og tækist að koma upp um tvo þriðju hluta af þessum hóp, tæki af þeim áhöldin og dæmdi þá í sektir eftir lögum landsins. Nú er þannig ástatt, að flestir, sem gefa sig í bruggun, eru fátækir menn, en hinsvegar eru sektirnar, sem við því liggja, mjög háar. Þetta mundi því hafa þær afleiðingar, að mennirnir færu næstum allir á vonarvöl. Það er nú í sjálfu sér engin afsökun, þó þessir menn séu fátækir, a. m. k. ekki lagaleg afsökun, en það er mannleg afsökun að geta litið á neyð þeirra, sem eiga bágt. Þetta er eitt af því, sem gerir það að verkum, að ýmsir sýslumenn ganga ekki hart fram í þessu máli. Þeirra landsföðurlega aðstaða gagnvart sýslubúum gerir þeim erfitt að beita þeirri hörku, sem sett getur marga menn á vonarvöl. Nú mega hv. flm. þáltill. ekki skilja þetta svo, að ég telji þessa ástæðu nægilega til þess, að ekkert eigi að gera í þessu efni, að bruggunin eigi að halda áfram með allri þeirri spillingu og hættu, sem af henni leiðir. Ég vildi aðeins benda á, að þetta mál er ekki svo einfalt, að sigurinn sé þegar vís, þó þingið skipi stj. að vera duglegri, hún skrifi sýslumönnunum og biðji þá að vera duglega og þeir svo e. t. v. aftur hreppstjórunum. Ég vil samt endurtaka þakklæti mitt til flm. þessarar till., því ég álít, að hún sé alveg réttmæt. Svo framarlega sem Alþingi vill, að unnið sé á móti því böli, sem hér er um að ræða, er rétt, að það ýti við þeim mönnum, sem það eiga að gera, og veiti þeim það aðhald, sem felst í því að samþ. slíka till. Ég játa, að frá mínu sjónarmiði er það undarlegt, að menn skuli sækjast eftir bruggi, þegar hægt er að fá nóg vín á löglegan hátt, Spánarvínin. Mér finnst það vera að seilast um öxl til lokunnar. En það vita allir, að norrænar þjóðir sækjast eftir sterkum vínum frekar en léttum. Hér er því um að ræða djúpa meinsemd í lundarfari þjóðarinnar, sem ekki verður fljótt lagfærð.

Ég get ekki vel skilizt við þessa hlið málsins án þess að minnast á þær till., sem fram hafa komið á þingi um að leggja niður löggæzluna. Ég vil benda á, að það eru svo mikil brögð að áfengismisbrúkun, að það er t. d. ómögulegt að halda opinbera samkomu hér í grennd við höfuðstaðinn án þess að þar verði hneykslanleg ofdrykkja, svo framarlega sem ekki eru sendir löggæzlumenn úr Reykjavík. Ég get t. d. upplýst, að á samkomu, sem haldin var á Brúarlandi fyrir eitthvað 6 vikum, tók eftirlitsmaður veganna, er þangað var sendur, 13 manns og lét sæta sektum. Þetta var á samkomu í sveit, þar sem íbúarnir sjálfir voru reglusamir, en það voru allt utansveitarmenn, sem gerðu þennan usla. Ég skal nefna annað dæmi. Það er ekki langt síðan halda átti samkomu í Grindavík. Kona úr stjórn kvenfélagsins þar hringdi til mín og bað mig að senda löggæzlumann þangað. Ég sendi þangað einn mann, en til allrar hamingju sendi sýslumaðurinn í Hafnarfirði tvo. Það dugði, en það var mér sagt, að samkoman myndi hafa orðið til meiri sorgar en gleði, ef ekki hefðu verið þar nokkrir menn við að stilla til friðar. Og hér var aftur að mestu leyti um aðkomumenn að ræða.

Nú er vitaskuld ekki um neina innri síðabót að ræða, þótt þessir brennivínsberserkir séu sektaðir eða haldið í skefjum með lögregluvaldi. Það er ekki batnandi hjartalag, þótt þeir séu hræddir við lögregluna. Þeir eru í sjálfu sér jafndrykkfelldir eftir sem áður. En það er þessi ytri síðabót, sem fyrir hv. flm. vakir, eins og sú, sem þegar er fengin í Reykjavík og á skipunum og að nokkru leyti á samkomum í nánd við Reykjavík, en hefir þó hvergi nærri tekizt nógu vel, vegna þess, að það er unnið á móti henni af áhrifamiklum öflum úr höfuðstaðnum, þar á meðal frá mörgum íhaldssömum góðtemplurum.

Svo framarlega sem það á að takast að fá þessa ytri síðabót, þá verður fólkið í landinu að vinna að því sjálft. Ég býst ekki við, að það takist verulega að vinna á heimabrugginu fyrr en menn vilja ekki hafa það og vilja vinna á móti því. Ég veit til þess, að í sumum sveitum hafa myndarmenn farið á heimili bruggaranna og sagt: Við viljum ekki hafa brugg í sveitinni; ef þú hættir ekki að brugga, þá kærum við þig. Þar, sem svona er að farið, er hægt að halda bruggurunum í skefjum. En í þeim sveitum, þar sem nágrannarnir vilja hafa bruggarana, þar er eins illt fyrir löggæzlumennina að eiga við þá eins og læknana að eiga við berkla.

Þá vil ég segja fá orð út af hinni sameiginlegu till. þeirra hv. 1. þm. Reykv. og þm. Dal. Hún lýtur eingöngu að hótel Borg. Af því töluvert hefir verið rætt um það mál allt, ætla ég að nota tækifærið til að skýra, hvernig því er í raun og veru varið.

Eins og öllum er kunnugt, þá er byrjun málsins sú, að þegar við neyddumst til að opna landið fyrir Spánarvínunum, þá ákvað þáv. stjórn (Jón Magnússon) með reglugerð, að útsölustaðir þeirra skyldu vera í hverjum kaupstað og eitt gistihús í höfuðstaðnum skyldi hafa vínveitingaleyfi. Í fyrstu hafði hótel Ísland leyfið, en síðar var það flutt yfir á hótel Borg með einróma samþykki allra þm. Af hálfu fyrrv. stj. var ekkert gert til þess að hafa eftirlit með vínveitingum á hótel Ísland, og allar líkur benda til þess, að settra skilyrða hafi ekki ávallt verið stranglega gætt.

Mér kom til hugar að gera tilraun með að breyta að nokkru vínveitingatímanum á hótel Borg, til þess að vita, hvort nautn vínsins yrði þar ekki með skaplegri hætti en áður hafði verið á vínveitandi gistihúsum. Þetta hefir verið á tilraunastigi í vetur. Það hefir alltaf loðað við, að gestum, eins og þeir nú eru gerðir, hefir þótt veizluspjöll að því, að vínið væri af þeim tekið undir miðri máltíð, eins og þeir hafa kallað það. Ég skal hér nefna dæmi af betri endanum, svo að ég miði við hugsunarhátt kyrrstöðumanna. Það komu eitt sinn til mín konur úr einu kvenfélagi bæjarins. Félagið ætlaði að halda árshátíð sína eftir fáa daga. Ætluðu þær þá að halda veizlu, og vildu hinar góðu frúr bjóða þangað eiginmönnum sínum. Þær vildu, að ég framlengdi vínveitingatímann fyrir sig. Þær sögðu, að það væri ekki hægt að setjast til borðs fyrr en kl. 8 og það væri ómögulegt að halda þessa veizlu, ef taka ætti vínið kl. 9. Ég var nú eins harðbrjósta þá eins og hv. 1. þm. Reykv. vill og hefir viljað, að menn séu gagnvart vínnautn, og neitaði þessu og sló á spaug. Ég sagði, að ef þær endilega vildu gera menn sína kennda, þá skyldu þær prófa, hvað þær kæmust langt á þessari stuttu stundu. En þótt það væri spaug, sem ég sagði við frúna, þá er það rammasta alvara, að þetta hefir verið gert. Það hefir verið hið mesta mein, að gestir hafa hvolft í sig víninu á síðasta hálftímanum og orðið út úr drukknir. Þetta hefir valdið leiðinlegum drykkjuskap á hótelinu. Mér var því ljóst, að þessi takmörkun vínveitingatímans var ekkert annað en „humbug“ eins og háttað var. Drykkjuskapurinn þar var eins leiðinlegur og hann gat orðið.

Hefði stj. nú tekið leyfið af hótelinu, þá hefði óðar verið talað um brot á Spánarsamningunum, og eins og markaðshorfur eru nú í Suðurlöndum, þá voru engin tök á að gefa þeim ástæðu til slíks umtals. Málið lá því þannig fyrir, að það var búið að skylda okkur til að hafa vín. Vínveitingaleyfi á hótel Ísland og hótel Borg var ekki notað á skemmtilegan hátt, af því að margir af gestunum hættu á að drekka meira en góðu hófi gegndi. Það var ekki hægt að taka leyfið af hótelunum, því að það myndi hafa verið kallað brot á samningnum við Spán. En var hægt að gera á því þá skipun, að menn drykkju hóflegar? Á þeirri trú var sú skipun byggð, er tekin var upp í vetur. Ég vil benda á, að minna vín hefir selzt á hótelinu síðan. Það getur að vísu að nokkru stafað af erfiðum hag manna, en mér er líka sagt, að framkoma vínhneigðra gesta sé betri en áður, hvað sem hv. 1. þm. Reykv. segir.

Þá vil ég nefna það, sem ekki er mikið haldið á lofti í bannblaði hv. 1. þm. Reykv. Það hefir verið settur á hótelið sérstakur eftirlitsmaður með vínveitingunum. Hann er ráðinn þangað af stj., en kostnaðinn ber hótelið. Hann hefir nákvæmt eftirlit með, að vínveitingatíminn sé haldinn, það sé skrifað, hvað hver pantandi fær o. s. frv. Þessar reglur hafa ekki verið notaðar fyrr en í vetur. Þessi maður reynir og hefir vald til að setja á svartan lista þá menn, er verða ölvaðir og hegða sér ósmekklega við vín. Takmörkin geta ekki verið glögg, en það er víst, að töluvert margir menn fá nú ekki afgreitt vín á Borg, af því að eftirlitið er. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að mönnum eins og hv. 1. þm. Reykv., sem mest hafa skrafað og skrifað um misnotkun víns á hótel Borg, farist ekki að kasta steinum að þeim mönnum, sem eitthvað hafa gert í málinu af alvöru. Þeim ferst það ekki, meðan enginn þeirra hefir gert neitt verulegt til að skapa aðhald að áfengisflóðinu. En eftir að eigandi Borgar var orðinn uppvís að því að hafa selt áfengi óleyfilega, þá birtir hv. 1. þm. Reykv. harðorðar árásir á mig í blaði sínu, rétt eins og ég væri potturinn og pannan í drykkjuskapnum á hótelinu og í því að auka drykkjuskap í landinu. Skömmu síðar komu upp tvö stórfelld áfengismál. Annar brotamaðurinn hafði flutt inn vín undir nafni erlends ræðismanns. Hinn hafði smyglað inn um 500 flöskum af whisky með öðrum hætti. Eftir því, sem ég veit bezt, eru þetta hin alstærstu smyglunarmál, sem komið hafa upp hér á landi, og bæði þess eðlis, að þau hlutu að vekja eftirtekt manns, sem þykist jafnhárviðkvæmur fyrir áfengisbrotum eins og hv. 1. þm. Reykv. En hvað gerist? Blað hv. þm. minnist ekki á þessi mál, þegar þau koma upp. Nú eru dómar fallnir í þeim báðum. Blaðið þegir líka um þá. Höfuðblað Íhaldsflokksins hér í bæ hefir heldur ekki minnzt á þá. Nú vil ég spyrja: hvers vegna er hv. þm. að áfellast stj., sem þó hefir gert nokkuð mikið til að halda áfenginu í skefjum, þar sem stj. sú, er hans flokkur studdi, gerði ekki neitt? Sjálfur hefir hann ekki birt eina línu í blaði sínu til að skýra frá þessum merkilegu dómum. Þessi staðreynd ber vott um, að ekki sé mikil alvara á bak við þetta hjal hv. þm., því smyglun á 500 whiskyflöskum sýnir þó töluverða viðleitni hjá einum borgara til að smakka whisky, og sjálfsagt að einhverju leyti eftir kl. 9 að kvöldi.

Að síðustu vil ég segja það, að ég tel frumtill. orð í tíma talað. Ég hefi lýst nokkuð erfiðleikunum við að framfylgja lögunum, en drykkjuskapurinn er svo mikið böl, að það er eðlilegt, að Alþingi geri sitt ýtrasta til að minnka það.

Um viðbótartill. þeirra hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Dal. vil ég hvorugt gera, að ráða til þess, að þær verði samþ. eða frá því. Þær eru um lítilfjörlegt atriði í stóru máli. Ég býst við, að eins og enginn lögreglustjóri getur látið fyrirskipa sér það, hvaða aðferð hann skuli viðhafa til þess að koma upp smyglunarmálum, eins verði þetta að vera á valdi stj., hvað hún getur gert í þessu efni. Það er algert framkvæmdaratriði. Ég hefi fært rök fyrir því, að líkur eru til, að víndrykkja fari nokkru skaplegar fram undir hinni nýju tilhögun en áður gerðist. Hinsvegar er þetta á tilraunastigi, og ég vil fúslega beygja mig fyrir því, sem reynslan sýnir, að betur reynist. Ég vil taka vel bendingum þeirra, er af heilum hug mæla, en mun hinsvegar ekki leggja mikið upp úr þeim till., sem ég hygg vera sprottnar af loddaraskap og vandlætingasemi fariseans.