29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í C-deild Alþingistíðinda. (4342)

154. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Einar Arnórsson:

Það eru aðeins örfáar aths. til viðbótar því, sem ég sagði áðan, og þá aðallega í tilefni af ræðu hv. 2. þm. Rang. Hann vildi halda því fram, að starf eftirlitsmannsins væri illa rækt. (SvbH: ég sagði, að það hefði ekki komið að notum). Jæja, látum það heita svo. En eina ályktunin, sem er dragandi af því, að starfið hafi verið illa rækt og ekki komið að notum, er þá sú, að enginn þeirra fjármálaráðherra, sem verið hafa yfirmenn þessa manns, hafa sagt honum fyrir verkum né hirt um, að hann væri þar á verði, sem honum er ætlað að vera. Þess vegna vil ég beina því til hv. 2. þm. Rang., hvort hann vilji ekki skila til hæstv. fjmrh. að setja bankaeftirlitsmanninum erindisbréf, sem mér skilst, að aldrei hafi verið gert, og leggja honum þær lífsreglur, sem ættu að duga. Þetta er það eina, sem hægt er að gera, því að ég vil ekki gera hv. 2. þm. Rang. þær getsakir, að hann blandi saman manni og málefni. Þó að einhver sé óánægður við mig eða hann í starfi okkar, þá verða stöðurnar ekki lagðar niður, heldur verður okkur sagt að standa betur í þeim, og ef við látum okkur ekki segjast, er ekki annað að gera en láta okkur fara og taka aðra menn í staðinn.

Hv. 2. þm. Rang. hefir ekki neitað því, að eftirlitið geti verið bráðnauðsynlegt og gagnlegt, ef það er vel rækt. Þess vegna er ósamræmi hjá honum að vilja leggja starfið niður, þó að eitthvað megi finna að því, hvernig maðurinn hafi rækt það fram að þessu.