29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í C-deild Alþingistíðinda. (4344)

154. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Það er lítið, sem ég þarf að svara síðari ræðu hv. þm. G.-K., enda voru það ekki rétt ummæli, sem hann lagði út af. Hann sagði, að ég hefði sagzt ekki vita, hvort þörf væri á því bankaeftirliti, sem verið hefir. En það er ekki rétt eftir mér haft. ég sagðist ekki vera svo bankafróður, að ég gæti um það dæmt, hvort eftirlit væri nauðsynlegt. En um hitt þykist ég vera dómbær, er ég segi, að það bankaeftirlit, sem verið hefir hér á landi síðan 1923, hefir ekki komið að neinum notum. Ég er sjálfur viðriðinn lítinn sparisjóð úti á landi og er því dómbær um, hvers virði eftirlitið hefir verið fyrir hann, þótt ég hinsvegar viðurkenni, að ég sé ekki bær að dæma um, hvort bönkum sé þörf á einhverskonar eftirliti. En eftirlitsstarfið, eins og það hefir verið rækt, hefir reynzt gagnslaust með öllu að dómi mikils hluta þjóðarinnar.

Þá var hv. þm. G.-K. að bregða mér um vitleysi, en kunni þó betur við að víkja við orðum mínum og snúa út úr þeim. Ég ætla nú ekki að fara að deila við hann um, hvor okkar hafi sýnt meira vitleysi, en ræður hans hafa sannfært mig um, að ég hafi vit á við hann í þessu máli.

Sami hv. þm. var að fræða okkur um, að eftirlitsmaðurinn hefði samið' skýrslur um ýmislegt, sem honum hefði pott athugavert í starfsemi bankanna, og að ríkisstj. hefði aðgang að þeim skýrslum. Það væri óneitanlega gaman að sjá þessar skýrslur, og vona ég því, að hv. þm. G.-K. bendi mér á, hvar þær sé að finna.

Hvernig var þær þegar reginhneykslið í útibúi Íslandsbanka á Seyðisfirði komst upp árið 1929? Sú fjármálaóreiða hafði verið að myndast langan tíma og alltaf að fara í vöxt, þar sem það reginhneyksli átti sér stað, að bróður útibússtjórans var lánað nær því allt fé útibúsins, og bankinn tapaði á þessum eina manni meira en 11/2 millj. króna. Hvaða skýrslur lágu fyrir um allt það sukk frá eftirlitsmanninum? ég hefi ekki heyrt, að hann hafi látið það minnsta á sér bæra né nokkur aðvörun komið frá honum. Og það var annar maður, er sendur var þangað austur, sem uppgotvaði, hvernig komið var. Hvaða gagn var þá af starfi bankaeftirlitsmannsins, sem hafði þó gegnt embættinu um sex ára skeið? Og hvernig var það 1930, þegar íslandsbanki komst í þrot? Hvaða skýrslur lágu þá fyrir um það frá þessum eftirlitsmanni? Var ekki svo komið, að bankanum varð að loka með sólarhrings fyrirvara, nema þingið gerði alveg sérstakar ráðstafanir í því máli? Ef eitthvert gagn hefði verið í þessu eftirliti, þá hefði skýrsla átt að vera fyrir hendi frá eftirlitsmanninum um þetta mál. Og hvernig var það nú í vetur, þegar Alþingi með örstuttum fyrirvara veitti ríkisábyrgð á öllu sparisjóðsfé Útvegsbankans og varð að flýta málinu svo mikið, að afbrigða þurfti frá þingsköpum hvað. eftir annað? Hvaða skýrsla kom um þetta fyrirfram frá eftirlitsmanninum?

Ég hefi hér bent á nokkur atriði, er sýna það öll, að eftirlitið hefir að engu gagni komið, og aldrei hafa neinar upplýsingar komið um þessi mál fyrirfram, þegar þess hefir þurft. Ég skammast mín ekkert fyrir að játa það, að ég er ekki svo gagnkunnugur þessu eftirliti, að ég geti dæmt um, hvort þetta er af því, að starfið sé svo slælega stundað, að það kemur ekki að gagni, eða hvort það sé í rauninni ómögulegt að framkvæma eftirlitið, en hvort sem um er að ræða, þá er þetta fyrirkomulag ófullnægjandi, og verður að breyta til, og það verður fyrst og fremst hlutverk n., sem væntanlega fær þetta frv., að íhuga, hvort rétt sé að ganga inn á stefnu frv.

Hv. þm. G.-K. vildi gera gys að mér fyrir að ég skyldi benda á það, að rétt væri að leita álits bankaráðanna. Hann sagði, að það væri svipað og að þjófur ætti að fara að óska eftir lögreglu. Hv. 2. þm. Reykv. svaraði raunar þessu atriði. Hann sagði, að það væri sjálfsagt, að bæði bankastjórarnir og aðrir, sem kunnugleika hafa á þessum málum, fengju að segja álit sitt, því að þeir geta bezt dæmt um, hvort eftirlitið kemur að nokkru gagni. Tel ég hv. 2. þm. Reykv. ólíkt dómbærari um þessa hluti en hv. þm. G.-K. og fellst á röksemd hans fyrir því, að rétt sé að leita umsagnar bankastjórna um mál þetta.

Ég tel mig ekki þurfa að bera neinn kinnroða fyrir að flytja þetta mál, þar sem víðsvegar frá þjóðinni koma háværar raddir um það, að embættið sé gagnslaust. Það er því alveg sjálfsagt að hreyfa þessu máli og annaðhvort afnema embættið eða breyta því svo, að það geti komið að gagni. Það má ekki lengur sitja við það sama, og get ég þar tekið undir orð hv. meðflm. míns, að ónýtt eftirlit er verra en ekkert.