29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í C-deild Alþingistíðinda. (4353)

154. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Einn hv. þdm. sagði, að samkv. því, sem orð hefðu fallið í ræðu minni um þetta mál, þá væri frv. staðleysa. Þetta get ég ekki tekið undir. Um frv. er það að segja, að þó að því sé ábótavant, þá getur það stefnt til lagfæringar frá því, sem nú er um þetta embætti. Frv. vekur a. m. k. athygli á þeirri merkilegu staðreynd, að enginn af þeim fjmrh., sem farið hafa með völdin síðan embættið var stofnað, hefir sett bankaeftirlitsmanninum erindisbréf eða krafizt af honum skýrslna um störf hans. f logunum er ætlazt til þess, að erindisbréf verði gefið út honum til handa, og hitt er vitanlega ófullnægjandi, að störf þessa embættismanns byggist aðeins á lauslegum samtölum milli hans og fjmrh. Eftirlitsmaðurinn verður að geta átt frumkvæði að ýmiskonar ráðstöfunum, ekki eingöngu gagnvart ráðuneytinu, heldur miklu fremur við þær stofnanir, sem hann þarf að líta eftir og á að leiðbeina; og þá er aðeins um tvennt að velja, að koma betri skipun á þetta starf en nú er, eða leggja það niður. Annars er mér kunnugt um það, að sá maður, sem hefir gegnt þessu starfi, hefir verið þjáður af heilsuleysi ár eftir ár, og þess vegna hindraður frá störfum svo mörgum mánuðum skiptir. Ég lýsti yfir því í minni fyrri ræðu, að ég hefði leitað til hans um upplýsingar viðvíkjandi Útvegsbankanum, og það hefir ekki verið rangfært af öðrum ræðumönnum, sem ég sagði, að upplýsingar hans hefðu gert mér léttara fyrir að taka ákvörðun um bankann. Ég hafði að vísu borið mig saman við bankastjórana og formann bankaráðsins um málið, en það er öruggara fyrir stj. að geta leitað til fleiri manna. Og þegar eftirlitsmaðurinn hefir aflað sér þekkingar á því, sem fyrir liggur, þá er gott fyrir stj. að geta leitað til þessa manns, sem ber ábyrgð á umsögn sinni. Ég hefi að vísu leitað til hans oftar en í þetta skipti, eigi aðeins viðvíkjandi þeim atriðum, sem fram hafa komið á þessu þingi og snerta Útvegsbankann, heldur út af þeim ákvörðunum, sem gerðar voru á síðasta þingi. Þær ákvarðanir voru teknar að fengnum upplýsingum frá bankastjórum Útvegsbankans, bankaráðsformanninum og bankaeftirlitsmanninum. Upplýsingum þeirra og bendingum hefir yfirleitt borið saman í aðalatriðum, þó að sumir þessara aðila hafi verið nokkuð bjartsýnni en aðrir.

Að lokum vil ég leggja áherzlu á það, að nauðsynlegt er að setja eftirlitsmanninum erindisbréf, vegna hans sjálfs, þeirra stofnana, sem hann á að líta eftir, og fjármálaráðuneytisins.