25.05.1932
Sameinað þing: 11. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (4372)

714. mál, atkvæðagreiðsla alþingiskjósenda um áfengislöggjöfina

Flm. (Bergur Jónsson):

Eins og sagt er í grg. þessarar till., þá er tilefni hennar að nokkru leyti það, að 5 þm. í Nd. báru fram frv. um afnám núv. áfengislöggjafar, sem vísað var til allshn. En n. varð sammála um, þar sem langt var liðið á þing, er frv. kom til hennar, og hér var um stórvægilegt mál að ræða, að það hefði enga þýðingu að afgr. málið til hv. d. aftur, því það væru mjög litlar líkur til, að það fengi fulla afgreiðslu á þessu þingi.

Sömuleiðis var það skoðun ýmsra nm., sérstaklega hv. meðflm. minna, að ekki væri rétt fyrir þingið að skera úr þessu máli, og sérstaklega væri rétt að afnema ekki bannlögin nema með þjóðaratkvgr., með tilliti til þess, að áfengislögin hefðu í upphafi verið lögfest að undangenginni þjóðaratkvgr.

Ég er nú persónulega þeirrar skoðunar, að ef það er fullkomin sannfæring meiri hl. hv. þm., að það sé rétt að afnema áfengislögin, þá eigi þeir að gera það, þá eigi þeir að fylgja þeirri sannfæringu sinni. En hinsvegar get ég vel unað við þá lausn málsins, að leita þjóðaratkvæðis um það.

Till. er í 2 liðum, eins og sést á henni. Fyrri spurningin, sem lýtur að því, hvort fólk vill afnema áfengisbannlög þau, sem nú gilda, eða ekki, er mjög einföld í raun og veru. Það er með ásetningi gert hjá okkur flm. að setja ekki spurninguna fram þannig, hvort fólk vilji hafa bannlög eða ekki, vegna þess að Spánarvínaundanþágan var samþ. af þinginu án þjóðaratkvæðis, svo að Alþ. hefir þá talið sig vera þann eina aðila, sem ætti að skera úr í því máli. Þar að auki liggur að baki hennar milliríkjasamningur, sem ekki kemur til mála að leggja undir þjóðaratkvæði. Þess vegna getum við flm. þessarar till. alls ekki fallizt á brtt. þá, sem tveir hv. þm. hafa flutt á þskj. 748, um að leggja Spánarsamninginn eða afnám hans undir þjóðaratkvæði. Við álítum, að það muni hafa vondar afleiðingar fyrir landsmenn, að svo miklu leyti sem Spánarsamningurinn hefir fjárhagslega þýðingu fyrir þjóðina. Þar að auki eru slíkir samningar svo vandasöm og margliðuð mál, að þeim má ekki kasta undir þjóðaratkvæði. Það er ekki hægt að skýra þannig lagað mál svo vel fyrir almenningi, að það sé hægt að búast við því að fá um það viturlegan úrskurð kjósendanna.

2. liður till. hljóðar um það, hvort menn vilji setja reglur um meðferð áfengis, innflutning, sölu og veitingar o. fl., til tryggingar gegn misbrúkun áfengis. Þar er, a. m. k. frá mínu sjónarmiði, átt við reglur þær, sem ætlazt var til, að gerðar væru samkv. frv. því, sem flutt var í hv. Nd., m. ö. o., að innflutningur áfengis væri ekki leyfður nema ríkiseinkasölu, og veitingar og útsölur áfengis bundnar ströngum takmörkunum, þannig að almennir kjósendur bæjar- og sveitarfélaga ráði því, hvort útsölu skuli hafa innan hvers umdæmis.

Mér finnst erfitt að trúa því, að báðir aðilar, bæði andbanningar og bannmenn, gætu ekki sætt sig við þá lausn í áfengismálunum, sem hér er farið fram á. Sérstaklega finnst mér það æskilegt fyrir þá menn, sem ennþá hafa trú á banninu, að fá afdráttarlausan og hreinan úrskurð þjóðarinnar um, hvort því skuli halda, því bannið er í eðli sínu þannig vaxið mál, að það er sérstaklega nauðsynlegt, að á bak við það standi hreinn og óþvingaður þjóðarvilji, ef það á að ná tilgangi sínum, og að þjóðin vilji sjálf halda lögunum uppi. Á þessu hefir talsverður brestur verið frá fyrstu tíð. Það er vitanlegt, að bannmenn, jafnvel þó mjög ákveðnir séu, hafa ekki viljað veita þá aðstoð sína til að framfylgja bannlögunum, sem nauðsynleg var til þess, að framkvæmd þeirra yrði góð. Þeir hafa allflestir gengið framhjá því, þó þeir hafi séð bannlögin brotin dags daglega. Jafnvel þeir, sem ég býst við, að vilji láta telja sig ákveðna bannmenn, hafa getað horft á það án þess að hreyfa legg né lið, að fólkið hefir drukkið ólöglega drykki og brotið bannlögin á annan hátt; þeir hafa horft á það án þess að vilja fórna málefninu svo miklu að kæra lögbrotin. Og ástæðan er sú, að þeim hefir ekki þótt það drengilegt að kæra og hafa ekki viljað hafa sig til þess; þeir hafa ekki viljað vinna það til að fá e. t. v. þefaranafnið, sem var talsvert notað hér á árunum, og ekki tekið þetta — ekki einu sinni þeir, sem þó þóttust vera löggjöfinnj fylgjandi, — eins alvarlega og búast hefði mátt við og eins og þörf var á, til þess að lögin gætu fengið fullkomna framkvæmd.

Ég sé nú enga ástæðu til að samþ. þá breyt. á þessari till., sem felst í brtt. á þskj. 747. Þar er farið fram á að telja upp nöfnin á þeim víntegundum, sem ætlazt er til, að leyfður verði innflutningur á umfram það, sem nú er. Ég sé ekki, að að baki þessarar till. geti staðið annað en „agitationsmoment“ hjá hv. flm. Þeir halda sjálfsagt, að þjóðinni kynni fremur að geta óað við að leyfa innflutning á þessum vínum, ef hún sæi nöfnin nefnd, svo á því kynnu bannmenn að græða einhver atkv. (VJ: Það kynni þá að koma vatn í munninn á sumum, svo það mundi jafna sig). Já, það mætti náttúrlega búast við því. En það mætti þá líka alveg eins breyta till. í þá átt, að spyrja menn um, hvort þeir vildu ekki heldur fá brennivín, whisky, koníak og romm en „landa“. (BÁ: Eða frjálst heldur en smyglað). Já, eða það, því það er vitanlegt, að svo framarlega sem bannlögin verða afnumin, eða bannið við innflutningi vissra tegunda vína, þá er það spor í áttina til að hindra þann atvinnuveg, sem skapazt hefir í landinu við áfengisbruggun.

Ég sé ekki ástæðu til að samþ. þessa brtt. þeirra hv. þm. Seyðf. og hv. 1. þm. Reykv. Ef farið er að telja upp tegundirnar, þá má eins nefna „landa“ og „Höskuld“ og spyrja þjóðina, hvort hún vilji stuðla að því að útrýma þeirri iðju í landinu.

Þá er farið fram á í sömu brtt., að atkvgr. fari ekki fram fyrr en 1933. Ég sé enga ástæðu til að fresta þessu máli. Það eru svo háværar raddir í landinu um það, að hér þurfi bráðra aðgerða við. Reynslan hefir ekki verið svo glæsileg af þessum 1., og ég held því, að þjóðin vilji fá sem fyrst að segja álit sitt um þau. — Þeir vilja fella burt 2. lið í till. okkar, um það, hvort menn vilji ekki setja reglur um meðferð áfengis. Mér er ekki í sjálfu sér sárt um þá spurningu. En aðalhugsunin með þessari spurningu var sú, að það væri glöggt, að við vildum láta þjóðina segja um það, hvort hún vilji hafa skynsamlega takmörkun á meðferð áfengis eða ekki.