08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

1. mál, fjárlög 1933

Pétur Ottesen:

Mér skildist á ræðu hæstv. fjmrh., að það hefði mátt skilja hv. frsm. svo, að með 10. lið í brtt. n., um borðfé konungs, hafi það verið meining meiri hl. fjvn., að breytingin yrði aðeins sú, að jafnhá upphæð og lækkuninni nemur eigi að færast á gengisreikning og greiðsla til konungsins þannig að vera hin sama og áður. En þetta er algerður misskilningur hjá hv. frsm., ef hann hefir haldið þessu fram, því að sá var ekki tilgangur n., heldur hitt að lækka upphæðina raunverulega. Borðfé konungs er ákveðið með lögum frá 1919 60 þús. kr. á ári. Hinsvegar hefir verið venja að greiða gengismun á þessa upphæð, svo að í okkar peningum hefir upphæðin orðið nokkuð hærri en lögin ákveða. Það hafa oft áður komið fram till. um það, að haga greiðslu þessari lögum samkvæmt og láta niður falla gengismuninn, en þær tillögur hafa ekki náð fram að ganga. Þessi lækkunartill. n. er borin fram í sparnaðartilgangi, og á þessum tímum, þegar öll gjöld þarf að skera niður að meira eða minna leyti, virðist ekki ástæða til að sýna hér svo mikið oflæti í útlátum, þar sem þá ekki er meiri nauðsyn fyrir hendi en hér er um að ræða.

Mér skildist á ræðu hæstv. fjmrh., að hann áliti, að þótt till. n. yrði samþ., þá bæri ekki að skilja það svo sem ætlazt væri til, að greiðsla þessi yrði lækkuð frá því, sem er í frv. Þetta er, eins og ég hefi áður tekið fram, ályktað af misskilningi, og byggir hæstv. ráðh. sennilega þessa skoðun sína á ummælum hv. frsm. En ég ætla þá að taka af skarið með það og lýsa því hér yfir, að það er ákveðin meining þessarar till. að lækka þennan lið niður í 60 þús. íslenzkar krónur, eins og mælt er fyrir í lögum, að hann eigi að vera. Og nái þessi till. samþykki, þá verður að gera kröfu til þess, að hæstv. stj. virði þingmeirihlutann það mikið, að hún greiði ekki hærra en fyrir er mælt, þó að það sé kóngurinn sem á í hlut.