31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í C-deild Alþingistíðinda. (4411)

174. mál, hámark launa

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Ég verð að segja, að mér leiðist að taka þátt í umr., sem eru jafnóviturlegar og þetta stagl hv. þm. G.-K. Ég vil spyrja hv. þm.: Hvernig hugsaði hann sér að koma því frv. fyrir, er hann var að biðja mig að flytja með sér og banna átti embættismönnum að hafa með höndum launuð aukastörf? Átti það frv. ekki að vera líkt og það, sem ég nú flyt? Mér virðst, úr því hann hefir svikizt um að taka þátt í tilraun til að koma þessari hugsun sinni í framkvæmd, að þá sé hann nærri skyldugur til að skýra frá, hvernig hann hugsaði sér þetta gert frá sínu sjónarmiði. Það má vel vera, að hann geti fundið betra form en ég, og þá skal ég fallast á það og taka mitt frv. aftur. Ég er ekki of stórbrotinn til þess.

Ég þarf ekki að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég hafði auðvitað ekki fyrir því að endurskoða launalögin áður en ég flutti þetta frv. Ég sagði aðeins, að það þyrfti að gera. Og með því að flytja þetta frv. ætla ég, að ég hafi ýtt undir það, að hv. þm. átti sig á því, að endurskoðun launalaganna væri aðkallandi nauðsyn.

Upphæð sú, sem ég hefi sett í frv. sem hámarkslaunaupphæð, er nokkuð af handahófi. Ég miðaði þar aðeins við launalögin, þar sem 4500 krónur eru meðallaun. Og verð ég að segja, að þegar athuguð eru þau kjör, sem ýmsir aðrir eiga nú við að búa, t. d. allur þorri sjómanna og verkamanna, þá liggur við, að erfitt sé að nefna hærri upphæð. En eins og ég hefi áður sagt, þá eru einkafyrirtækin hér til hindrunar, sem yfirbjóða hið opinbera í launagreiðslum. Þess vegna verður ríkið að mismuna embættismönnunum og gjalda meira fyrir þau störfin, sem mikið þarf að vanda til, og mikið er boðið í þá menn, sem, sérstaklega eru til þeirra hæfir, af einkafyrirtækjunum. Þetta hefir löggjafinn þráfaldlega gert, að gjalda þreföld, ferföld, fimmföld og jafnvel sexföld venjuleg embættismannalaun, eins og t. d. launin, sem hafa verið greidd bankastjórum. Það hefir margoft sýnt sig síðan launalögin voru sett, að greidd hafa verið hærri laun fyrir sýslanir og ný embætti en greidd eru almennt samkv. launalögunum. Og við stofnanir ríkisins hefir yfirleitt verið borgað mjög lítið með tilliti til embættislauna, heldur alveg með tilliti til þeirra launa, sem sambærilegir starfsmenn við einkafyrirtæki hafa haft. Stundum hefir þetta eflaust verið gert af fullri þörf, en stundum að óþörfu. Frv. mitt kemur engan veginn í veg fyrir, að þetta verði gert, þegar brýn nauðsyn er fyrir hendi. Alþingi á aðeins að skera úr því, hvenær það er, en ekki stjórnin.

Hv. þm. G.-K. hefði þess vegna mátt flytja þetta frv. með mér, að það er engin fjarstæða eða vitleysa. Hin stærsta mótbára, sem hægt er að bera fram gegn því, er sú, að taka þurfi jafnframt öll launalögin til endurskoðunar. Það er nú allt og sumt. En það er svo sem vel framkvæmanlegt verk að endurskoða launalögin, jafnvel á þessu þingi.

Hv. þm. G.-K. hefir brugðið mér um, að það væri af persónulegum ástæðum, að ég flytti þetta frv. En ég verð að segja, að það er meira persónulegt við hans framkomu. Af því að ég flutti hér um daginn frv., sem átti að koma í veg fyrir svikin síldarmál, frv., sem ég flutti eftir áskorun nokkurra kjósenda minna, sem orðið höfðu fyrir skaða af slíkum málum, frv., sem var svo dæmalaust kurteislega flutt, að ég nefndi ekki einu sinni eða let á nokkurn hátt skiljast, hverjir hefðu svikið síldarmálin, nefndi varla svik á nafn, — þá sprettur hv. þm. upp eins og þjófurinn úr krókbekknum og segir, að þetta sé flutt af persónulegum erjum við sig og aðdróttunum til sín. Og nú vill hann láta mig gjalda þessa síldarfrv. míns og drepa fyrir mér þetta frv.

Hann var svo heppinn um daginn, hafði þá strákalukku, að síldarfrv. fell vegna fjarveru nokkurra þm., en það er nú aftur hér á dagskrá í dag, lítilsháttar laggskorið og færður upp í því botninn. Mun ég nú huga betur að atkvgr., og er þá ekki að kvíða örlögum þess, því að það vita allir, að meiri hl. dm. er með því. Við erum því skiptir, en ekki skildir um síldarmálin. Býð ég enn hv. þm. samvinnu um bæði þessi mál.