31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í C-deild Alþingistíðinda. (4412)

174. mál, hámark launa

Ólafur Thors:

Ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa upp, hvernig grg. þessa frv. byrjar:

„Laun þau, sem embættismenn ríkisins taka samkv. launalögunum frá 1919, og tilsvarandi laun annara opinberra starfsmanna þola engan samanburð við laun þau, sem tíðkast að greiða starfsmönnum ýmsra ríkisstofnana, og enn síður við kaupgreiðslur til fastra starfsmanna einkafyrirtækja. Hæstlaunuðu embættismönnunum, eins og biskupi, landlækni, póstmeistara og prófessorum, eru ákveðin lægri laun en algengt er að greiða undirtyllum í banka, ef til vill lítið eitt hærri en dæmi eru til, að pakkhúsmenn hafi við sumar ríkisstofnanirnar — —“ o. s. frv.

Hv. þm. Ísaf. veit, eins og kemur fram í grg., að þessi lélegu og óbærilegu launakjör hafa haldizt aðeins vegna þess, að embættismennirnir hafa leitað sér aukastarfa og notið greiðslu fyrir þau, bæði í þágu ríkisins og einstakra manna eða fyrirtækja. Þessi hv. þm. veit, sem sjálur hefir haft 20 þús. kr. í laun og brúkað það allt, að það er ómögulegt fyrir þá menn, sem hafa þær skyldur, sem embættismenn hafa, að komast af með sömu laun og menn, sem ekki hafa viðskipti við almenning eða þurfa að koma fram út á við. En nú leggur þessi hv. þm. til, þvert ofan í þá vitneskju og reynslu, að hann sjálfur hefir eytt sér til framfæris á síðastl. ári ekki lægri upphæð en 20 þús. kr., að lög séu um það sett, að hámarkslaunin eigi að vera aðeins 4500 kr. auk dýrtíðaruppbótar, um leið og hann vill banna það, að þessir sömu menn megi taka að sér nokkur önnur störf fyrir borgun. Þetta er ekkert annað en hreinn og beinn skrípaleikur. Hitt er annað mál, sem ég sneri mér til hv. þm. með, að banna það með lögum, að embættismenn ríkisins þægju bitlinga. Slíkt er nefnilega hægt, ef þeim jafnframt eru tryggð lífvænleg laun. En hitt er ókleift, að gera það tvennt í senn, að lögákveða þeim ólífvænleg laun af ríkisins hálfu og banna þeim jafnframt að afla sér tekna á annan hatt. Ég er nefnilega samþ. þessum orðum í grg. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Aukastörfin og greiðslur fyrir þau hljóta að koma misjafnlega og óréttlátlega niður og stjórnarvöldunum er með þessu gefinn óþarfur möguleiki til að beita hlutdrægni og þar með hættulegt vald yfir þeim embættismönnum og starfsmönnum, sem kunna að hafa hjartað þar, sem peningarnir eru“. Ég er alveg sammala hv. þm. um áhrif bitlinganna, en einmitt af því ég er honum sammála um þau, vildi ég með öllu afnema bitlingana, svo að þeir yrðu ekki til þess, að embættismönnunum fyrir það skrikaði hættulega fótur, t. d. svo að þeir renni milli pólitískra flokka, eins og maður hefir séð dæmi til. (VJ: Hver er það, sem hv. þm. á við?). Ég á við hv. þm. Ísaf. (VJ: Hvað er til merkis um það?). Öll saga þessa þings sannar það og það vita allir hv. þdm. Þessa hættu vildi ég fyrirbyggja með því að tryggja þessum mönnum sómasamleg laun, svo að ekki þurfi að fara eins fyrir heim og þessum hv. þm.

Ég hefi nú svarað fullum fetum þeirri fyrirspurn, sem hv. þm. gerði til mín, og vil þá aftur beina þeirri ósk til hans, að hann svari tvímælalaust þeirri fyrirspurn minni, er hann gekk framhjá áðan, hvernig hann, sem hefir á síðastl. ári eytt sér til framfæris 20 þús. kr., getur hugsað sér að komast nú af með þau laun, sem hann vill láta ákveða með þessu frv.