06.04.1932
Neðri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í C-deild Alþingistíðinda. (4425)

162. mál, sala þjóðjarða og kirkjugarða

Steingrímur Steinþórsson:

Ég ætlaði ekki að taka til máls við þessa umr., en þar sem bæði hæstv. forsrh. og hv. 2. þm. Skagf. vilja, að frv. sé fellt strax, kemst ég ekki hjá því að segja nokkur orð. Það hefir verið skoðun mín frá því ég fyrst fór að veita þessum málum athygli, að rangt spor hafi verið stigið með því að gera svo létt fyrir um sölu þjóðjarða sem þessi lög gera, og þessi skoðun hefir þróazt við þá reynslu, sem fengizt hefir þann aldarfjórðung, sem lög þessi hafa staðið. Segi ég þetta ekki sem ásökun á þá menn, sem fyrir þessu hafa gengizt, því að þeir heldu óefað, að þeir væru að gera rétt og væru að leggja grundvöll að framforum landsins. En ég verð að taka undir það með hv. flm., að þetta hefir ekki orðið. Hv. samþm. minn sagði, að nú væri búið að selja flestar þjóðjarðir, en þetta er ekki rétt. Er eftir mikið enn óselt, og mun ég síðar geta lagt fram skýrslu, byggða á hinu nýja fasteignamati, sem sýnir það, að allmikið er enn óselt af þjóð- og kirkjujörðum, þótt mikið hafi verið að gert hin síðustu ár um sölu þeirra. Þá sagði hv. þm., að þeir, sem farnir væru að eldast, myndu eftir því, hvernig þjóðjarðir hefðu áður verið setnar, og hvað þær hafi verið vanræktar miklu meira en sjálfseignarjarðir. En þetta kom ekki til af öðru en því, að ábúnarl. voru þannig, að leiguliðar gátu ekki lagt fulla rækt við jarðirnar. Ábúðarrétt leiguliða þarf að bæta, fyrst og fremst á leigujörðum, sem eru í eign einstakra manna, því að þeir leiguliðar eru verst settir. En það þarf einnig að gera rétt leiguliða á opinberri eign tryggari en nú er, þótt leiguliðar ríkissjóðs, með þeim réttindum, sem þeir hafa samkv. jarðræktarlögunum, séu langbezt settir allra leiguliða hér á landi. Vil ég benda á eitt atriði í þessu þjóðjarðasölumáli. Það var rétt hjá hæstv. forsrh., að þeir, sem jarðirnar keyptu, fengu þær. fyrir lagt verð. En þessara kaupa njóta ekki þeir kaupendur, sem á eftir koma. Seinna eru þessar jarðir seldar uppsprengdu verði, og nýr ábúandi verður að greiða vexti og afborganir af miklu hærra verði, svo að hin góðu kjör, sem fyrsti kaupandi fékk, koma honum einum að gagni, en jörðin er komin í uppsprengt verð strax við fyrstu eigendaskipti. Þá má benda á það, hvernig oft fer, þegar arfaskipti verða. Tökum dæmi um bónda, sem alla æfi hefir staðið í stríði við að borga af jörð sinni. Segjum, að hann eigi hana að miklu leyti eða öllu við dauða sinn. Hann á mörg börn, og hreppir eitt þeirra jörðina, en hin flytja venjulega í kaupstaðinn. Það barnið, sem á jörðina, er svo alla æfi að reyta í þessi systkini sín, sem í kaupstaðnum búa. Hefir ekki verið tekið tillit til þessa óslitna fjárstraums úr sveitunum í kaupstaðina. Þeir, sem sitja á jörðunum, reyta allt til hinna erfingjanna. Eru flestir kaupstaðir hér á landi byggðir upp að nokkru leyti með því fjármagni, sem á þennan hátt hefir runnið úr sveitum til kaupstaða. Ég tala hér út frá sjónarmiði bænda, en sleppi annars að minnast á önnur atriði, er hér koma til greina, svo sem það, hvernig óhæfileg verðhækkun hefir átt sér stað á mörgum sviðum. Skil ég ekki í þeim mönnum; sem bera hag sveitabænda fyrir brjósti, ef þeir geta lokað augunum fyrir þessum fjárstraumi úr sveitum í kaupstaðina, sem verður til þess að auka misræmið milli þróunar sveita og kaupstaða. Fer ég svo ekki lengra út í þetta mál, en ég drap á það, af því að mér þótti einkennilegt, að hæstv. forsrh. og hv. samþm. minn skyldu snúast svona við því. Veit ég um hæstv. forsrh., að hann mun bera hag sveitanna fyrir brjósti meir en okkur annar maður herlendur, og um hv. samþm. minn veit ég, að honum er vel til sveitanna. Skil ég ekki, að þeir skuli snúast svo öndverðir gegn máli þessu, að þeir vilji banna, að það fái athugun í n. Ég er að vísu samþ. hv. flm. frv., sem sagði, að reynsla sú, sem fengizt hefði þau 25 ár, sem liðin eru síðan 1. voru sett, bendi til þess, að þau hafi ekki komið að notum þeim, sem ætlazt var til. En hitt er víst, að það þarf að gera kjör leiguliða þannig, að þeir geti búið á jörðunum eins og sjálfseignarbændur væru. Eiga þeir að hafa fullan umráðarétt yfir þeim, ef þeir uppfylla viss skilyrði. Hitt er ekkert atriði, hvort hægt er að segja, að eignarrétturinn sé óskoraður í höndum ábúanda, heldur er umráðarétturinn aðalatriðið.

Vona ég, að hv. deild láti málið ganga til n. Hv. 2. þm. Skagf. situr í landbn., og er það því óeðlilegt af honum að leggja á móti málinu. Hefði ég ekki tekið til máls núna, ef ekki hefði komið fram till, um að drepa málið.