06.04.1932
Neðri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í C-deild Alþingistíðinda. (4426)

162. mál, sala þjóðjarða og kirkjugarða

Ingólfur Bjarnarson:

Ég vil taka undir það með hæstv. forsrh. og hv. 2. þm. Skagf., að þessi grg. er svo einhliða og slíkar fullyrðingar þar fram settar, að engu tali tekur. Verð ég að mótmæla því, sem þar er sagt, að það orki ekki tvímælis, að þessi lagasetning hafi orðið til hins mesta ógagns. Kemur þetta í bág við það, sem ég og fleiri hafa sannfærzt um við það að athuga, hvernig eignir þær, sem seldar hafa verið, hafa gerbreytzt. Jarðir þær, sem flutzt hafa úr eigu ríkisins í eigu einstakra manna, hafa jafnan verið bættar á marga lund. Sú breyting hefði áreiðanlega ekki átt sér stað, ef þær hefðu haldið áfram að vera í eigu ríkisins. Hv. flm. sagði, að ríkið hefði verið rúið að verðmætum með jarðasölunni. Þetta á við í fæstum tilfellum. Ef ríkið hefði átt þessar jarðir áfram, eru líkindi til, að þær væru nú flestar í mesta ófremdarástandi, miðað við þau dæmi, sem fyrir liggja. Ef hinsvegar er gert ráð fyrir því, að jarðirnar hefðu verið bættar, þá hefði ríkið orðið að leggja fram til þess svo mikið fé, að það hefði orðið tvísýnn gróði. Annars hefir ekki borið mjög á því, að það hafi verið gert. En hitt tel ég gróða fyrir þjóðfélagið, er einstakir menn hafa lagt fram fé til þess að bæta jarðir þær, er af ríkinu hafa verið keyptar og ekki hefði orðið, ef ríkið hefði átt þær áfram.

Hv. 1. þm. Skagf. talaði um, að það væri ekki að marka, þótt þjóðjarðirnar væru niðurníddar, því að það hefði að sjálfsögðu þurft að bæta ábúðarkjörin og tryggja ábúendum sinn rétt. Það er nú gott og blessað, en sá er gallinn á, að þetta hefir ekki verið gert, og engin trygging er fyrir því, að þetta verði gert, og þangað til sú trygging er fengin, efast ég um, að það sé þjóðarhagur, að jarðirnar séu í eign ríkisins. Seni sýnishorn upp á þá réttartryggingu, er ábúendur þjóðjarðanna hafa átt við að búa, vil ég segja litla sögu um ein slík viðskipti.

Í ábúðarlöggjöf þeirri, sem nú gildir, er eða á að vera sett trygging fyrir því, að abúandi njóti verka sinna á þjóðjörð og að honum sé hjálpað til að gera endurbætur á jörðinni. Um aldamótin bjó landseti einn á ríkisjörð, þar sem forfeður hans höfðu búið hver fram af öðrum. Hann tók sér fyrir hendur að bæta jörðina og vildi fá það endurgreitt samkv. þeim rétti, sem ábúðarlöggjöfin átti að tryggja honum. Umráðamaður jarðarinnar fyrir ríkisins hönd vildi ekki ganga inn á þetta, og for svo að lokum, að umboðsmaður byggði bóndanum út.

Það vildi til, að þessi maður var sæmilega efnum búinn og greindur vel; þótti honum þetta harðir kostir og fór í mál. Vann bóndi málið í héraði, en það reyndist ekki nóg. Var málinu vísað til landsyfirréttar og síðan hæstaréttar. Tóku þessi malaferli mörg ár, og var bónda byggt út hvað eftir annað meðan á þeim stoð. Vann hann málið loks að fullu, og fell sá dómur í hæstarétti skömmu áður en hann dó, og hafði þá vitanlega eytt í það bæði tíma, erfiði og miklu fé.

Þetta sýnir, að ekki er nóg að setja reglur til þess að tryggja ábúendum á þjóðjörðum rétt sinn. Reynist það stundum erfitt að framfylgja slíkum reglum.

Ég vil taka það fram, að þessi umgetni umboðsmaður var talinn drengur góður og fremur vel kynntur.

Vil ég taka eindregið í sama streng og þeir hv. þm., sem hér hafa látið það í ljós, að það sé léleg úrlausn, að ríkið eigi allar jarðir hér á landi. Ég held, að það yrði einmitt meiri en lítill baggi fyrir ríkið, ef það ætti að standa straum af þeim endurbótum sem sjálfseignabændur gera nú almennt á sínum jörðum. hér hefir verið talað um, að þeir, sem kaupa þjóðjarðirnar, sökkvi við það í skuldir. Getur það vel verið, að margir, sem keypt hafa þessar jarðir, séu skuldugir, en þær skuldir, sem þeir komast í við endurbætur á jörðum sínum, tel ég ekkert ólán. Munu þjóðjarðalandsetarnir heldur ekki lausir við skuldir, því miður. Tel ég, að betra sé að vera skuldugur fyrir það að hafa bætt eignarjörð sína heldur en að vera í skuldum og eiga enga jarðeign að baki. Finnst mér þetta frv. alveg fráleitt og sé ekki ástæðu til að greiða því atkv. til n. Ég get ekki hugsað mér, að n. geti gert á því nokkra þá breyt., er breytt gæti afstöðu minni.