29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í C-deild Alþingistíðinda. (4445)

164. mál, framfærslulög

Flm. (Halldór Stefánsson):

Bæði á þessu þingi og áður hafa komið fram allháværar raddir um breyt. á framfærslulögunum, sökum ýmsra óheppilegra ákvæða, sem í þeim eru. Fyrir þessu þingi liggja ekki færri en fjögur frv. eða till. um breyt. á þeim.

Það, sem núgildandi framfærslulögum er fundið til foráttu, er einkum þrennt. Í fyrsta lagi fátækraflutningarnir, í öðru lagi, að framfærslan komi allt of misjafnt niður á hinum einstöku framfærsluhéruðum, og í þriðja lagi, að þau valdi erjum og umsvifum um sveitfestina, með tilheyrandi skriffinnsku og málaferlum í viðskiptum héraða á milli.

Má segja, að allir þessir agnúar stafi að mestu leyti af einu ákvæði í framfærslulogunum, sem sé því, að ákveðinn dvalartími á einhverjum stað eða þá fæðingarstaður hefir verið gerður að skilyrði fyrir sveitfesti. Með því að afnema þetta ákvæði og setja í staðinn, að lögheimili skuli ráða sveitfesti er afnumin ástæðan fyrir fátækraflutningunum og erjum um sveitfesti og miklar líkur til þess, að það geti orðið til að jafna álöguþungann, þótt ekki verði fullyrt um það, en þá eru sérstök ákvæði í frv. þessu, sem áreiðanlega koma í veg fyrir, að álögurnar verði tilfinnanlega mjög misjafnlega þungar.

Óánægjan með núverandi skipun fátækramálanna er orðin almenn. Tillögur og áskoranir um að binda sveitfestina við heimilisfangið liggja fyrir víðsvegar að. Fyrir þessu þingi liggja ekki færri en þrjár till. um breyt. á fátækral., og ein enn, sem ekki er komin fram á þingskjali, en það eru till., sem ríkisstj. hefir látið undirbúa út af þál., sem samþ. var á þinginu í sumar og undirbúin er af Þorsteini Þorsteinssyni hagstofustjóra og Vigfúsi Einarssyni skrifstofustjóra, og fylgir þeim fróðleg skýrsla um framfærslukostnað. Hygg ég, að stj. hafi afhent þessa till. nefnd þeirri í Ed., sem hefir fátækrafrv., sem þar liggja fyrir, til meðferðar. Í Ed. liggja fyrir tvo frv. til breyt. á fátækral., annað frá tveim þm., en þær breyt. ganga að okkar dómi svo stutt, að við teljum þær ekki viðunandi. Hitt frv. er frá jafnaðarmönnum, og eru till. þeirra kunnar frá fyrri þingum. Má segja að frv. okkar líkist þeim nokkuð að framsetningu, en efnisatriði eru ólík um margt.

Þá skal ég geta um það, sem mest hér á milli till. jafnaðarmanna og frv. okkar um framfærslurétt og framfærsluskyldu. Jafnaðarmenn vilja gera allt landið að einu framfærsluhéraði, en við leggjum aftur á móti til, að núverandi skipting landsins í framfærsluhéruð haldist að vísu, en að hver maður skuli eiga þar framfærslurétt, sem hann er heimilisfastur þegar hann þarf styrks með, og skuli svo jafna eftir á að verulegum mun þann mismun, sem kann að verða á framfærsluþunga einstakra héraða, og greiða þann mismun úr ríkissjóði.

Ég ætla svo að láta máli mínu lokið um þetta að sinni. Þó vil ég geta þess, þeirri n. til athugunar, sem væntanlega fær frv. til meðferðar, að nokkrar villur hafa slæðzt inn í það af vanga. Frv. var samið í nokkrum flyti á síðustu stundu, sem hægt var að leggja það fyrir þingið án afbrigða frá þingsköpum. Stuðzt var við frv. jafnaðarmanna, en þó raskað greinaskipun þess og fellt úr því nokkuð og einstökum atriðum breytt. En það gleymdist sumstaðar að flytja til tilvitnanir til einstakra greina samkv. þeim breytingum eins og þurft hefði. Ég á einn sök á þessum mistökum, en ekki meðflm. mínir. Vil ég biðja hv. n. að taka það til athugunar, því að ég geri ráð fyrir, að svo mikil sannfæring sé orðin fyrir því hér á Alþ., að ákvæðum framfærslulaganna þurfi að breyta, að ekki verði lagzt á móti því, að frv. Þetta fái að ganga til nefndar. Býst ég við, að það eigi heima í allshn., og geri að till. minni, að því verði vísað til hennar.