22.03.1932
Neðri deild: 35. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í C-deild Alþingistíðinda. (4478)

199. mál, varðskip landsins

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Eins og sjá má af grg. frv., þá er það flutt að tilmælum ýmsra starfsmanna varðskipa landsins. Þeir una því illa, að aðrar reglur gildi um kaup þeirra og ráðningarkjör en almennt gilda samkv. sjómannalögunum fyrir skipverja á verzlunarskipum.

Einstakar greinar tel ég ekki horf á að skýra frekar en gert er í grg. frv., en vil þó drepa á efni 6. gr. laganna, sem lagt er til, að falli niður. Ákvæði þessarar greinar mælir svo fyrir, að skipverjum sé harðbannað, eins og embættismönnum, að gera verkfall, að viðlögðum stórum refsingum. Við Alþflm. höfum jafnan barizt gegn slíkum verkfallsbönnum, hvort sem embættismenn ríkisins eða aðrir eiga hlut að máli. Og enn fráleitara er þó að setja slík ákvæði í varðskipalögin.

Ég skal geta þess, að eftir að þetta frv. var lagt fram, er annað frv. fram komið um svipað efni. Eru þar ákvæði, sem ég tel rétt, að tekin séu í lög. Það er um skiptingu björgunarlauna, en ég tel þó, að skiptingin ætti önnur að vera en frv. gerir ráð fyrir. — Ég skal svo ekki hafa þessa framsögu lengri, en legg til, að málinu verði vísað til sjútvn.