15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í C-deild Alþingistíðinda. (4488)

221. mál, útflutningsgjald

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég verð að segja það einkennilega skoðun hjá hv. 1. þm. S.-M., að álíta þetta ekki sjávarútvegsmál. Útflutningsgjald af saltsíld hefir á seinustu árum verið um 1,50 kr. af hverri tunnu, því að breytingin, sem samþ. var í fyrra, kom ekki í gildi fyrr en 1. des. Til viðbótar er tekinn 50 aura tollur af hverri tunnu. Gjöldin, sem á þessu hvíla, eru því 2 kr. á hverri tunnu, en það, sem síldareinkasalan hefir greitt út á saltsíld, mun vera um 2 kr., þannig að tollur og útflutningsgjald af saltsíld samtals er 100% af því, sem einkasalan greiddi út á síldina á seinasta sumri. Þessar afskaplegu skattaálögur þótt útflutningsgjaldið hafi verið lækkað um 50 aura seinasta ár — eru geysilega áhrifaríkar fyrir útveginn hér við land, og fyrst og fremst snertir þetta frv. því sjávarútveginn og á heima hjá sjútvn. Hitt er rétt, að fjhn. getur gert sínar athugasemdir í sambandi við þetta, en það á fyrst og fremst að fara til sjútvn.