31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í C-deild Alþingistíðinda. (4504)

225. mál, mjólk og mjókurafurðir

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Eins og hv. þm. sjá, er hér um að ræða frv. til heimildarlaga. Og það, sem farið er fram á að veita heimild til, er það, að setja reglugerð um það mál, sem hér liggur nú fyrir. Í frv. er aðeins bent á í aðaldráttunum, hvernig sú reglugerð skuli vera, og get ég því búizt við, að sumir hv. þm. átti sig ekki strax fyllilega á því, hvað hér liggur til grundvallar. Mönnum finnst e. t. v. nokkuð rúm sú umgerð, sem mörkuð er með frv., og ekki nógu ljóst, hvað innan í hana yrði sett. Ég skal því reyna að gera grein fyrir, hvernig fyrirkomulag þessa máls er hugsað.

Eins og frv. ber með sér, er tilgangur þess að gera tilraun til að bæta úr því skipulagsleysi á mjólkursölu, sem verið hefir, er og fer jafnvel vaxandi hér í Rvík og annarsstaðar þar, sem mjólkursala er nokkur að ráði. Þetta skipulagsleysi á mjólkursölunni hár í Rvík er ekkert einsdæmi, því að alstaðar þar, sem ég þekki nokkuð til, hefir verið svipað ástatt. En á síðustu árum hefir sumstaðar verið gerð tilraun til að bæta úr þessu á líkan hatt og hér er lagt til.

Ég skal aðeins drepa á tvo atriði viðvíkjandi mjólkursölunni eins og hún er hér nú. Í gildandi reglugerð um þetta efni er gert ráð fyrir 12 mjólkurbúðum í bænum. En frá þessu ákvæði hefir verið veitt takmarkalaus undanþága, svo að nú eru mjólkurbúðirnar orðnar 70–80. Menn, sem hafa kynnt sér þetta mál og reynt að gera sér grein fyrir, hvað margar mjólkurbúðir þyrftu að vera hér í bænum, ef gott skipulag væri á mjólkursölunni og búðirnar væru hafðar á hentugum stoðum, hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að vel mætti komast af með 18 mjólkurbúðir.

Nú eru útsölulaun á mjólk í búðunum 8 til 12 aur. En ef hægt væri að koma búðafjöldanum niður í hæfilega tölu, hefir mönnum reiknazt svo til, að sölukostnaðurinn gæti minnkað um 50%.

Annað atriði skal ég nefna, sem orðið hefir áberandi á síðustu árum. Fyrir nokkrum árum voru sveitirnar í kringum Rvík einar um mjólkursöluna í bænum. Skipulagsleysið gerði þeim samt erfitt fyrir og mjólkin varð neytendunum dýrari en þurft hefði að vera. Á seinni árum, þegar bærinn stækkaði, samgöngur austur yfir fjall botnuðu og þar risu upp fullkomin mjólkurbú, fóru sveitirnar þar austurfrá að flytja mjólk á markaðinn hér jöfnum höndum við mjólkurframleiðendurna í nágrenni bæjarins. Vitanlega varð útkoman sú, að allir kepptu um markaðinn skipulagslaust, kepptu um að koma upp sem flestum búðum og buðu hærri og hærri sölulaun, til þess að reyna að koma sem mestu út af mjólkinni. Dreifingarkostnaðurinn óx þannig, svo bændur fá minna fyrir mjólk sína án þess að það komi, neytendunum að nokkru liði. Mjólkurbúin hér í nágrenninu verða að vinna meira og meira úr mjólk sinni skyr og smjör og aðrar mjólkurafurðir, á sama tíma og verið er með ærnum kostnaði að brjótast áfram austan yfir fjall með sölumjólk, sem nægilegt er hægt að fá af nær.

Frv., sem hér liggur fyrir, er sniðið eftir norskum lögum um sama efni, sem sett voru í fyrra. Áður en þau lög voru sett, voru komin á frjáls samtök milli bænda um endilangan Noreg til að koma föstu skipulagi á mjólkursölu. Inn í þau samtök höfðu um 90% af norskum mjólkurframleiðendum gengið, en samt stöðu nægilega margir utan þeirra til þess, að þau voru að springa af völdum þeirra, sem ekki skildu þýðingu þessa félagsskapar. Þá var það, að stórþingið norska greip í taumana og samþykkti heimildarlög, sem ákváðu, að allir mjólkurframleiðendur skyldu ganga inn í samtökin, þegar tiltekinn meiri hl. bænda í landinu hefði lagt grundvöllinn að þeim, sem þeir höfðu þá þegar gert. Allir flokkar þingsins voru sammála um þessa ákvörðun, allt frá ákveðnustu hægri mönnum til róttækra jafnaðarmanna.

Nú skyldu menn ætla, að þessi mjólkurhringur, sem sumir munu vilja kalla, hefði orðið til þess að hækka mjólkurverðið og gera neytendunum erfiðara fyrir. En það er alls ekki svo að sjá, að þeir flokkar, sem sérstaklega telja sig bera hag neytendanna fyrir brjósti, hafi búizt við, að svo færi, því að þá hefðu þeir ekki léð frv. fylgi sitt. Enda er reynslan sú, að allir virðast ánægðir með skipulagið. Útsöluverð á mjólk í Noregi er svipað og í öðrum löndum. Það er jafnhátt útsöluverði mjólkur í Danmörku og Svíþjóð, hærra en í Finnlandi, en lægra en í Englandi, föðurlandi hinnar frjálsu samkeppni. En sá mikli munur er á, að norsku bændurnir hafa töluvert hærra verð fyrir mjólkina heldur en bændurnir í hinum löndunum, sem ég nefndi. Þetta liggur í því, að með skipulagningunni hefir tekizt að lækka sölukostnaðinn. Þess vegna fá nú norsku bændurnir 5 aur. meira fyrir lítrann heldur en stéttarbræður þeirra í nágrannalöndunum, þar sem útsöluverð mjólkurinnar er jafnhátt. Svo mikill er munurinn, að kostnaðurinn við gerilsneyðingu og dreifingu mjólkurinnar er í Oslo 9 aur., en í Kaupmannahöfn 17 aur. Það liggur því í augum uppi, að það er stórfé, sem sparast. Það væri að öllu leyti miklu heppilegra fyrir báða aðila, mjólkurframleiðendur fjær og nær Rvík, ef þeir gætu gert með sér einskonar verkaskiptingu, þannig að mjólkin, sem framleidd er í nágrenninu, væri seld bæjarbúum sem nýmjólk, en sveitirnar, sem fjær eru, tækju að sér að framleiða mj6lkurafurðir handa þeim. Bæði er minni kostnaður við flutning mjólkurafurðanna að austan heldur en við að flytja nýmjólk, og svo er flutningur þeirra ekki eins tímabundinn. En vitanlega getur slíkt fyrirkomulag ekki komizt á nema með samkomulagi milli hlutaðeigenda um það, hvernig þeir skipta markaðinum á milli sín. Og þeir yrðu að koma sér saman um að jafna á milli sín eftir föstum reglum þeim mismun, sem er á verði nýmjólkur og mjólkurafurða. Það liggur í augum uppi, að slíkt skipulag yrði framleiðendunum mjög hentugt og hagkvæmt, og það yrði neytendum einnig notalegra en það fyrirkomulag, sem nú er.

Til þess að hægt sé að koma skipulagi á þetta hvorttveggja, dreifingu mjólkurinnar og hagkvæma skiptingu markaðarins, þarf öflugan félagsskap og fasta samvinnu milli mjólkurframleiðenda hér og mjólkurbúanna eystra. Og þó að sterkur félagsskapur sé fyrir hendi, er óhætt að slá því föstu, að nægilega sterka „organisation“ er ekki hægt að fá nema með aðstoð hins opinbera valds. Þegar félög framleiðenda eru búin að skapa nógu víðtækan grundvöll með frjálsum samtökum, verða þau að fá heimild til að draga alla undir skipulagið, því að annars springur það allt í höndum þeirra. Mjólkurfélag Reykjavíkur, sem nú er 15 ára gamalt, hefir sífellt leitazt við að koma á bættu sölufyrirkomulagi. Einnig hefir það gert ítrekaðar tilraunir til að komast að föstum samningum við Rvíkurbæ. Þótt það hafi sýnt fram á það með rökum, að slíkt samstarf yrði báðum aðiljum að liði, hefir það ekki tekizt ennþá. Þess vegna er nú leitað þess ráðs að fá samþ. lagafrv. um þetta efni.

Ég skal geta þess, að síðasta tilboð, sem Mjólkurfélagið gerði Reykjavík, var þannig, að ef bæjarstj. vildi samþ. sölukerfi svipað því, sem frv. gerir ráð fyrir, þá skyldu neytendurnir njóta alls hagnaðarins af því, þannig að útsöluverð mjólkurinnar lækkaði sem svarar því, sem sparast mundi af sölukostnaðinum. Þessu boði hefir ennþá ekki verið tekið.

Mjólkursölulöggjöfin norska hefir vakið svo mikla athygli, að Þjóðverjar komu þegar á eftir og samþ. samskonar lög. Englendingar hafa nú einnig samþ. lög eftir þessari fyrirmynd, og hjá Svíum er þetta mál á dagskrá nú, og eru þeir að vinna að því að koma á samskonar skipulagi hjá sér. Að lögin eru ekki komin til framkvæmda í þessum löndum, stafar af því, að þar vantaði hin frjálsu samtök bændanna, sem norsku lögin eru byggð á. Til þess að slík heimildarlög komi að gagni, verður að vera víðtækur félagsskapur meðal bændanna sjálfra og samkomulag um, hvernig skipta á markaðinum og mjólkurverðinu í hverju landi fyrir sig. Nú hugsa e. t. v. einhverjir sem svo, hvort ekki mundi stranda á því sama hér og hjá Englendingum og Þjóðverjum, þó þetta frv. væri samþ., að samtök og samkomulag mundi skorta. Því svara ég með því að gefa upplýsingar um það, að félög þau, sem standa að mjólkursölu hér í Rvík, hafa á undanförnum tveim árum mjög lagt sig í bleyti til að finna skipulegt fyrirkomulag á þessu sviði. Og svo langt er nú komið, að ef frv. þetta verður samþ., mun ekki standa á þessum aðilum að koma sér niður á frjálst samkomulag um skiptingu markaðsins.

Ég býst við, að aðalmótbárurnar gegn þessu frv. verði þær, að með því verði skapaður mjólkurhringur, sem haldi uppi verðinu á mjólkinni og okri á henni. Ég skal þá fyrst fullyrða það, að fráa hendi þeirra manna, sem að frv. standa, er þetta alls ekki meiningin. Og það er hægt að búa svo um, að slíkt geti ekki orðið. En eins og ég benti á áðan, er ekki allt unnið við það fyrir neytendur, að bændur fái sem minnst fyrir mjólkina, ef það stafar af óhagkvæmu sölufyrirkomulagi. Eins og nú er ástatt, er milliliðakostnaðurinn stórkostleg byrði bæði á framleiðendur og neytendur. En þó að þetta frv. verði samþ., geri ég ráð fyrir, að það tilboð gildi jafnt eftir sem áður, að láta það, sem sparast við sölukostnaðinn, koma fram sem lækkun á mjólkurverðinu.

Það hefir mikið verið rætt um það undanfarið, hvað mjólkurverð hér í bæ sé hátt. Ég skil það vel, að þeir, sem kaupa mjólk, vilja fá hana með því bezta verði, sem unnt er. En ég skil það ekki, að þegar bent er á ágæta leið til þess að lækka mjólkurverðið, eins og gert er í þessu frv., skuli því ekki vera tekið fegins hendi. Það er ekki nóg að heimta stöðugt lækkun á mjólkurverði, án þess að gera nokkrar ráðstafanir til þess að draga úr framleiðslukostnaðinum. Það eru takmörk fyrir því, hvað bændur geta selt afurðir sínar lagt. Þeir verða að greiða margvísleg gjöld til þess að geta framleitt mjólkina, og eigi atvinnuvegurinn að geta haldið áfram, verður að vera eitthvert samræmi milli þeirra gjalda og mjólkurverðsins. Mjólkurverð í nágrannalöndum okkar, Noregi og Danmörku, er nú 30 danskir aur. lítrinn. Útsöluverð hér í bæ er 44 aur. Í ísl. peningum væri útsöluverðið í Danmörku um 37 aur. Ef skipulag það, sem frv. fer fram á, kæmist til framkvæmda, mundi mjólkin lækka a. m. k. um 4 aura lítrinn, og væri þá útsöluverðið ekki orðið nema 3 aur. hærra en í Danmörku, en það er mjög eðlilegur mismunur, ef tekið er til greina, að þar er frjósamt land, milt loftslag, landbunaður og samgöngur yfirleitt á miklu hærra stigi en hér, starfsmannakaup lægra o. fl. — Svo framarlega sem þessi atvinnuvegur á ekki að rýja menn inn að skyrtunni, verður að finna nýjar leiðir til þess að losa framleiðendur við hluta af framleiðslukostnaðinum, og það er langhægast með því móti að draga úr heim kostnaði, sem nú fer í milliliðina, og það er ætlun þessa frv. Það hefir verið svo í Danmörku, að helmingur af söluverði mjólkur hefir farið til milliliða. Og það stefnir að því sama hér, ef ekki verður tekið í taumana. Það sjá allir, hvaða gagn neytendum í bæjum er að því, að mjólkurverð lækki, en afleiðing af sífelldri lækkun, ef ekki væru gerðar samhliða aðrar ráðstafanir, yrði sú, að bændur flosnuðu upp af jörðum sínum og bættust við þann stóra hóp atvinnuleysingja, sem ráfar um götur bæjanna og bíður eftir handtaki að vinna.

Ég vil benda á, að í frv. er gert ráð fyrir, að mynduð sé vísitala til þess að reikna mjólkurverðið eftir. Þarna er fengin lögvernd fyrir því, að þessi samtök verði ekki notuð til þess að skrúfa upp mjólkurverðið.

Hér í Rvík er oft talað um mjólkurverðið sem einn aðalþátt dýrtíðarinnar. Ég ætla því að gera dálítinn samanburð á verkakaupi og mjólkurverði nú og fyrir stríð. 1914 var tímakaup hér í Rvík 35 aur., og þá var mjólkurverðið 22 aur. pr. 1. — En árið 1931 er tímakaup 1,36 kr., en mjólkurverðið 44 aur. Þó hefir á þessum tíma komið til kostnaður af gerilsneyðingu, sem mun vera um 6 aur. á 1. Útkoman af þessum litla samanburði er því sú, að á sama tíma og verkakaup í Rvík hækkar um 400%, hækkar mjólkurverðið aðeins um 100%. Ef mjólkurverð hefði hækkað að sama skapi og kaupgjald, hefði mjólkurlítrinn nú kostað 85 aur.

Það er því ekki rétt, að mjólkurverð sé óeðlilega hátt, svo að ástæða sé til þess að beina ásökunum um dýrtíð í höfuðstaðnum sérstaklega til mjólkurframleiðenda. Mjólkurverðið hefir ekki hækkað á móts við aðra hluti síðan fyrir stríð, — öðru nær.

Ég býst við, að allir sjái, hvað hér er þýðingarmikið mál á ferðum. Það verður að fá viðunandi lausn, eigi framleiðendur að geta lifað af framleiðslu sinni, og neytendur samt fengið hana sem ódýrasta. Og þetta er mál, sem varðar alla þjóðina, og því er sjálfsagt, að löggjafarvaldið láti það til sín taka. Ríkið hefir varið nú á síðustu árum hundruðum þúsunda kr. til stofnunar mjólkurbúa, svo að það er ekki þýðingarlaust fyrir ríkið, hvernig þessum stofnunum reiðir af. En afkoma þeirra fer algerlega eftir því, hvort mjólkurframleiðslan, sala hennar og allt, sem þeim atvinnuvegi viðkemur, er byggt á heilbrigðum grundvelli. Og fyrsta skilyrðið til þess að svo sé er að losa framleiðsluna við þá byrði, sem nú hvílir á henni vegna óþarfra milliliða og dregur bæði bændur og neytendur niður um of.

Ég mun þá ekki fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en vænti skilnings og góðgirni hv. dm. því til handa.