04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í C-deild Alþingistíðinda. (4508)

225. mál, mjólk og mjókurafurðir

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Það er bæði leitt og tilgangslítið að tala hér fyrir tómum stólum, en ég skal þó ekki láta undir höfuð leggjast að flytja þessum tómu stólum svör mín við ræðu hv. 3. þm. Reykv.

N. hefir ekki getað fallizt á brtt. hv. þm., því að þær miða allar í þá átt að hafa hausavíxl á þessum hlutum frá því, sem er í frv. — Frv. er í grundvelli sínum byggt á samtökum framleiðendanna á landinu og miðar í þá átt að bæta hag beggja þeirra aðilja, sem hér koma til greina, neytenda jafnt sem framleiðendanna sjálfra. Hefir þetta hið sama verið lagt til grundvallar í öðrum löndum og gefizt ágætlega. Hv. 3. þm. Reykv. vill hafa hausavíxl á þessu öllu og fá bæjarstjórnunum í hendur allt vald í þessum efnum, því að eins og ég áður sagði, byggist frv. á því, að framleiðendurnir hafi með sér frjáls samtök um mjólkursöluna, enda eru þeim jafnframt lagðar ýmsar skyldur á herðar um þetta. Finnst mér einkennilegt, ef ætti að fara að taka stj. mjólkursölunnar úr þeirra höndum og fá öðrum aðiljum þetta vald í hendur, sem auk þess eru ekki færir um það. Er nauðsynlegt og enda sjálfsagt, að þeir fari með völdin í þessum efnum, sem að þessu standa og koma til með að bera hitann og þungann af þessari framleiðslu.

Ég skal taka það fram enn, að það tilboð liggur á bak við þetta, að ef svona fyrirkomulag kemst á, þá skuli neytendur njóta þess hagnaðar, sem fengist, í lækkuðu mjólkurverði, er stafaði af þessu fyrirkomulagi.

Þá er ákveðið í 2. brtt., að allir þeir, sem framleiða mjólk í lögsagnarumdæmi hvers kaupstaðar, gangi fyrir um mjólkursölu. Þetta er varhugavert og yrði til þess, að frv. næði ekki tilgangi sínum. Ef þetta væri lögleitt, þá mundu kaupstaðalóðirnar fyllast af fjósum eins og á þær væri hægt að raða. Menn mundu flytja kýr sínar og hey til kaupstaðanna, til þess að þeir gætu notið þessara forgangsréttinda. Sjá allir, hversu öfugt væri að lögleiða slík ákvæði, sem verða til þess að draga menn úr sínum byggðarlögum og hrúga þeim á kaupstaðalóðirnar, í stað þess að stuðla að því, að kýrnar séu hafðar heima, því að þá hjálpa þær til að rækta landið með þeim áburði, sem frá þeim kemur.

Þá er brtt. við e-lið 2. gr., þar sem farið er fram á, að settar séu ákveðnar reglur um, hvernig mjólkurverð skuli ákveðið, þannig að lagt sé til grundvallar verð það, sem nauðsynlegt er að hafa til þess að hægt sé að framleiða á hagnýtasta hátt og á heppilegustu stöðum næga og góða mjólk fyrir neytendurna í kaupstöðunum.

Það er svo til ætlazt, að aðalatriðin í þessu efni komi í reglugerð, svo að þetta er alveg nægilega ljóst í frv. Það er líka óheppilega ákveðið eftir þessari grein, hvert verðið skuli vera. Ég treysti þeim atvmrh. vel, sem á hverjum tíma fer með stjórn, til að líta með fullri sanngirni og skilningi á hagsmuni beggja aðilja og veit, að hann mundi taka fullt tillit til þess, hvað neytendum er fyrir beztu, um leið og hann gætti hagsmuna hinna aðilanna. En ég vil segja hv. 3. þm. Reykv. það, að það er ætlazt til, þegar atvmrh. samþ. reglugerðina, að fullt tillit sé tekið til hagsmuna beggja aðila. Það býst ég við að verði gert, hvaða menn sem það verða, sem að því standa. Hitt er miklu óheppilegra, eins og hér er farið fram á, að setja þessi tryggingarakvæði í lögin nú, því að það er ómögulegt að orða lögin svo skýrt, að ekki þurfi að eiga meira eða minna undir þeim mönnum, sem reglugerðina staðfesta.

Ég hefi gengið út frá því, að það mjólkurverð, sem nú er, verði lagt til grundvallar, þegar reglugerðin er gefin út, með þeirri breyt., að það, sem ódýrara yrði að selja mjólkina eftir þessu nýja skipulagi, felli allt í hlut neytenda í lækkuðu verði mjólkurinnar. Ég geri ráð fyrir, að fundinn verði grundvöllur, sem skapar nokkurskonar verðvísitölu, hvernig verð eigi að hækka eða lækka eftir því almenna verðlagi í landinu. Ég býst við, að það verði mjög auðvelt að finna réttlátan grundvöll fyrir þá verðvísitölu.

Það er alveg sama máli að gegna um 3. brtt. og þær fyrri. Þar er sama stefnan, að taka valdið úr höndum þeirra manna, sem bera hitann og þungann af þessu öllu, og fá í hendur óskyldra aðila. Ef þessi brtt. er samþ., þá er bæjarstjórnum gefið fullt vald yfir þessari framleiðslu og fullt vald til að ráða yfir verði og sölufyrirkomulagi mjólkurinnar, en því geta framleiðendur ekki afsalað sér algerlega í hendur neytendanna.

Hv. þm. var að tala um, að alla eigi að þvinga í sameiginlegan félagsskap framleiðenda, ef frv. væri samþ. og reglugerð gefin út, en það þarf ekki að vera svo. Ég veit, að í Noregi, þar sem þetta skipulag hefir verið lögfest, er það svo, að þeir, sem vilja, geta staðið fyrir utan mjólkursölusamlagið, en með reglugerðarakvæði eru þeir skyldaðir til að standa undir sameiginlegum kostnaði, sem af þessu skipulagi leiðir.

Það liggur í hlutarins eðli, að þeir framleiðendur, sem búa á bæjarlandinu, hafa forgangsrétt til mjólkursölunnar, því að þeir hafa miklu hægari aðstöðu. En að eigi að fara að lögfesta þennan forgangsrétt, því er ég mótfallinn.

Eitt atriði, sem hv. þm. tók fram, mætti taka til greina, og það var það, sem hann sagði um mjólkurframleiðslu bæjarfélaganna, sem e. t. v. yrði komið upp. Það hefir ekki verið rætt í n., og get ég því ekki skýrt frá skoðun n. um það atriði. Mér finnst ekki óeðlilegt, að í þeim tilfellum fengju bæjarstjórnirnar einhverja íhlutun um mjólkursöluna í þeim bæ, en þó vil ég engu slá föstu um það, en vitanlega mætti ræða um þetta við okkur nm. sameiginlega.

Ég viðurkenni það, að það er nauðsynleg undirstaða þessa máls, að hagur beggja aðila sé tryggður sem bezt. Það er mín sannfæring, að þetta fyrirkomulag, ef það er réttilega framkvæmt, sem engin ástæða er til að efast um, tryggi hag beggja aðilanna. Málið er borið fram með það fyrir augum, og ef til framkvæmda kemur, þá mun það koma í ljós, að tilgangur frv. næst.

Hv. 3. þm. Reykv. hefir borið fram rökstudda dagskrá um að vísa málinu frá. Það á að líta svo út, að eigi að bera málið undir bæjarstjórnirnar, en tilgangurinn er aðeins sá, að tefja fyrir málinu. Ég býst líka við, að þeir fulltrúar bæjarfélaganna, sem eru hér á þingi, séu eins færir um að dæma þessi mál eins og þeir, sem þetta yrði lagt fyrir í bæjarstj., ef til þess kæmi. Það er því engin ástæða til að tefja málið þeirra hluta vegna.

N. leggur á móti brtt. Hvort ekki mætti gera eitthvað, sem skýrir þetta, skal ég ekki segja, en það verður þá að vera öðruvísi en hér er farið fram á, og geri ég ráð fyrir, að tími vinnist til þess til 3. umr., og er þá hægt að bera fram brtt., sem er sjálfsagt að athuga og mæla með, ef þær álítast vera til bóta.

Ég sé, að deildin er orðin fáliðuð, og mun það koma til af því, að hv. þm. eru nú annarsstaðar að hlusta á umr. um mál, sem þeir veita meiri athygli (stjórnarskrárbreyting). Vil ég því beina því til hæstv. forseta, að hann afgr. málið ekki nú, þegar svo marga þm. vantar í deildina. (Forseti: Er þess óskað, að málið sé nú tekið af dagskrá?). Ég óska þess, að hæstv. forseti láti ekki fram fara atkvgr. um málið, meðan deildin er svo fámenn, að það verður hending ein, hvernig atkvæði falla.