04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í C-deild Alþingistíðinda. (4510)

225. mál, mjólk og mjókurafurðir

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Hv. 3. þm. Reykv. segir, að það sé ekkert ægilegt, þó að kaupstaðalóðirnar fyllist af fjósum. Það getur verið, að það sé ekki, en það er annað mál, að það er öfugt, ef lögleidd væru ákvæði, sem yrðu til þess, að í stað þess að bændur flyttu mjólkina heiman frá sér, eftir því sem þeir hefðu aðstöðu til, þá flyttu þeir kýrnar og heyið til kaupstaðanna. (HV: Það bannar þeim enginn að framleiða mjólkina heima hjá sér). Nei, en ef brtt. yrði samþ., þá er lokað að meira eða minna leyti fyrir markaðinn hjá þeim, er ekki búa í lögsagnarumdæmum kaupstaðanna.

Þá sagði hann, að það væri ósanngjarnt, að allur hagnaðurinn felli í hlut neytenda. Það er vitanlega ósköp elskulega sagt hjá honum, en hann dropar meira út úr orðum mínum en ég sagði. Ég sagði, að það, sem sölukostnaður lækkaði, ætti að falla í skaut neytenda í lækkuðu verði á mjólk. En þar fyrir utan er margskonar hagnaður, sem af þessu fyrirkomulagi mundi leiða, bæði beinn og þó sérstaklega óbeinn, sem auðvitað mundi hlotnast framleiðendum, t. d. aukin sala, sem yrði samfara lækkuðu verði. Annað er það, að meðan þetta skipulagsleysi er, þá er hætta á því, að mjólk lækki í verði ár frá ári án þess að neitt breytist til bóta á nokkurn hátt, og eins og ég gerði grein fyrir í minni frumræðu, þá á sá hagnaður, sem fengist á þennan hátt, að fara til framleiðendanna.

Ég geri ekki kröfur til hærra verðs fyrir mjólkina en nú er. En ég geri kröfur til, að komið verði í veg fyrir, að hún lækki í verði til muna, og það án þess að það komi neytendum að notum.

Þá talaði hv. þm. um verðgrundvöllinn. Eftir sinni till. sagði hann, að ætti að leggja til grundvallar ódýrustu framleiðsluna, en eftir okkar till. þá dýrustu. Þetta er ekki rétt hjá hv. þm. Ég býst við, að það verð, sem við mundum skapa, væri meðalverð milli þess dýrasta og ódýrasta. Það á ekki að byggja verðið eingöngu á framleiðslukostnaði þeirra, sem bezt hafa skilyrðin, það verður líka að taka tillit til erfiðari skilyrðanna. Ef verðið ætti að byggjast eingöngu á beztu skilyrðunum, þá yrði það til þess, að hinir gætu ekki selt mjólk. Þeir, sem bezt eru settir, yrðu einir um mjólkursöluna, en gætu hvergi nærri fullnægt þörfinni. Afleiðingin yrði því mjólkurskortur með öllum þeim vandræðum, sem af honum stafa.

Hv. þm. var hræddur um, að hér mundi verða um einokun að ræða, sem mundi svo komast allt upp í hinar óvinsælu kartöflur og það, sem liggur þar á milli. En þegar það er nú tryggt í þessu frv., að þetta lögskipaða félag sé undir því eftirliti frá stjórnarvöldunum, að þar skuli hagsmunir beggja verða teknir til greina, þá er ekkert við þessu að segja nema gott eitt.

Þessi einkasala, ef á að nefna það svo, sem nú er verið að tala um að stofna hér, er undir svo ströngu opinberu eftirliti með yfirstjórn atvmrh., að þeir, sem hlut eiga að máli, hafa enga aðstöðu til að beita neinu okri. Það er vel séð fyrir því í ákvæðum frv., eins og rétt og sjálfsagt er.