11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í C-deild Alþingistíðinda. (4521)

225. mál, mjólk og mjókurafurðir

Jón Baldvinsson:

Hv. 1. landsk. sagði, að mjólkurframleiðendur í nágrenni Rvíkur væru neyddir til að ganga í þennan félagsskap, ef þetta ákvæði 1. gr. frv. kæmi til framkvæmda, um skipulag mjólkurframleiðenda á sölusvæðinu. En mér skilst, að eftir frv. sé aðeins átt við fulltrúa þeirra framleiðenda, er að mjólkurbúunum standa. (JónÞ: Það er ekki rétt lesið). Mér skilst, að þessi ákvæði, að mjólkurframleiðendur þurfi ekki að eins að vera í mjólkurfélögum, heldur þurfi þeir að starfrækja mjólkurbú, eitt eða fleiri, og að aðrir séu útilokaðir nema þeir gangi í mjólkurfélag, en það geta þeir gert. (JónÞ: Þetta er alger misskilningur). Hér í Rvík og nágrenni eru komin tvo stór mjólkurbú, annað er bú Mjólkurfel. Rvíkur hér í bænum, en hitt er Korpúlfsstaðabúið. Á þessum stöðum má fá mjólkina gerilsneydda eftir þörfum.

Hv. 1. landsk. talaði nokkuð um það, hvað stj. mjólkurframleiðenda væri heimilað að gera samkv. væntanlegri reglugerð, að koma skipulagi á mjólkursöluna og setja ákvæði um aðstöðu mjólkurframleiðenda til markaðsins, að jafna verðið á milli framleiðenda mjólkurinnar á hverju framleiðslutímabili fyrir sig, og mér skilst, að hún geti ákveðið, hversu margir útsölustaðir skuli vera fyrir mjólkina í Rvík og Hafnarfirði, og hvar þeir séu. (JónÞ: Og hvað mjólkin á að kosta). Já, líka það. Mér finnst þetta svo mikil skerðing á sjálfsákvörðunarrétti hlutaðeigandi kaupstaða, að eigi sé við það unandi, sérstaklega að því er snertir heilbrigðisráðstafanir hér í Rvík o. fl., sem á að heyra undir bæjarstjórnina. Ég sagði í minni fyrri ræðu, að margt mætti laga, er snerti mjólkursöluna hér í Rvík; en svona mikið vald vildi ég ekki fá mjólkurfélögunum í hendur á því sviði.

Hv. 2. þm. Árn. sagði, að sér kæmi það mjög á óvart, að ég skyldi vera á móti því, að ríkisvaldið ætti að hlutast til um sölu mjólkurinnar, eða annað almenningsvald. Ég veit nú að vísu ekki, hvaða skilning hv. þm. vill leggja í það orð. En ég vil alls ekki, að hringur mjólkurframleiðenda hafi öll völd um ákvörðun mjólkurverðs o. fl., og hv. 2. þm. Árn. hefir sjálfsagt aldrei heyrt mig láta það í ljós. Hitt gæti ég fallizt á, að bæjarstj. Rvíkur hefði yfirráð um mjólkursöluna í bænum sem fulltrúi bæjarbúa eða neytenda mjólkurinnar. Þá mundi hún semja við fulltrúa framleiðenda um mjólkursöluna, þannig að með þessu fyrirkomulagi yrði tekið tillit til beggja aðilja. Eftir þessu frv. gætu bæjarstj. alls engu ráðið um verðið, þegar ekki berst nóg mjólk á markaðinn. Þess vegna er það eðlilegt og samkvæmt því, sem ég hefi talað, að ég sé því mótfallinn, að hringur framleiðenda ákveði, hvar, hvernig og með hvaða verði mjólkin verði seld í bæjunum, en það geta þeir fengið samkv. þessu frv.