11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í C-deild Alþingistíðinda. (4524)

225. mál, mjólk og mjókurafurðir

Jón Baldvinsson:

Ég hefi nú samkv. ráðleggingum hv. 1. landsk. farið aftur yfir 1. gr. frv., en er þó ekki viss um, að skilningur minn á henni hafi verið rangur. Mér finnst, að það felist í orðum gr., að ekki sé átt við aðra en þá, sem eru í mjólkurbúum, ákvæði gr. eigi aðeins við þá mjólkurframleiðendur, sem eru í mjólkurfélögum. Þeir hafa sína föstu, ákveðnu fulltrúa, sem stýra mjólkurfélögunum. Og auk þeirra á að mega kalla saman fund með fulltrúum allra mjólkurbúa eða mjólkurfélaga á sölusvæðinu, til að staðfesta það, sem hinir hafa gert. Þetta finnst mér felast í 1. gr. frv., og ég held, að sá skilningur sé réttur.

Það er nú í raun og veru ekki svara vert, sem hv. 2. þm. Árn. sagði, að hér væri ekki verið, með þessu frv., að ofurselja hring mjólkurframleiðenda allt vald í mjólkurmálum. Mér finnst það felast greinilega í frv. sjálfu. Og þó að ríkisstj. eigi að samþ. reglugerð samkv. þessu frv., ef að lögum verður, sem sjálfsagt er rétt hjá hv. .m., þá býst ég við, að ef mjólkurfélögin koma sér saman um ákveðið skipulag, þá standi ekki á samþykki formanns Búnaðarfél. Ísl., sem jafnframt er nú atvmrh., þó að í slíkri reglugerð væri að einhverju leyti gengið á hlut kaupstaðabúa. (MT: Hv. þm. er að gera hæstv. atvmrh. getsakir, en hæstv. ráðh. er, eins og allir vita, mjög sanngjarn maður). Já, það er rétt, hann er það, en samt sem áður gæti þetta nú komið fyrir, þegar bændur eiga hlut að máli.