15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í C-deild Alþingistíðinda. (4532)

230. mál, efni í tunnur

Flm. (Guðbrandur Ísberg):

Þessar aths. hv. þm. G.-K. eru fyllilega réttmætar. Það er sjálfsagt að taka þetta allt til athugunar.

Ég vil fyrst að því er snertir þá spurningu hans, hversu þýðingarmikið það væri fyrir þennan iðnað, sem hann réttilega gat um, að væri á byrjunarstigi, að fá þessa tollaívilnun, taka það fram, að þessi iðnaður hefir illa getað borið sig vegna þess, að hann hefir ekki getað greitt það kaup, sem verkamenn hafa þótzt þurfa að fá. En ca. 20 au. tolllækkun af hverri tunnu þýðir jafnmikla hækkun á kaupgjaldi á klst. fyrir hvern verkamann. Þessi ca. 20 aura lækkun á tunnuefninu, sem tollurinn nemur, ef frv. verður samþ., getur beinlínis ráðið úrslitum um það, hvort unnt verður fyrir hinar innlendu tunnuverksmiðjur að keppa við erlenda framleiðendur á þessu sviði eða ekki.

Að því er snertir gæði tunnanna vil ég benda á það, að hér er ekki um nein innflutningshöft að ræða, heldur um frjálsa samkeppni á frjálsum markaði. Ennfremur vil ég taka það fram, að ég hefi séð ýmis vottorð um það frá saltendum, sem notað hafa tunnur frá verksmiðjunni á Akureyri, að gæði þeirra tunna, a. m. k. þeirra, sem bunar voru til 1931, séu sambærileg við venjulegar erlendar tunnur. Þó vil ég geta þess, að þær, tunnur, sem smíðaðar voru 1931 og geymdar voru langt fram á sumar, en settar saman strax og par á ofan fluttar á milli veiðistöðva, þóttu nokkuð gisnar. En þegar þarf að flytja tunnur á milli veiðistöðva, þá er rétt að flytja stafina og gjarðirnar sundurlaust og láta beyki slá þær saman á veiðistöð, þar sem þær á að nota. Hitt er lakara, að slá tunnurnar saman strax og flytja þær síðan til veiðistöðvarinnar á skipum, því að í þeim flutningum sæta þær oft ærið misjafnri meðferð. Annars geng ég út frá því sem gefnu, að þessir iðnrekendur leggi kapp á að fá gott og vandað efni í tunnurnar, því að með því einu móti geta þeir orðið samkeppnisfærir við erlenda framleiðendur. En þeir menn, sem bezt þekkja til og hafa áhuga á þessu máli og starfa að því, bæði á Akureyri og Siglufirði, telja það engum vandkvæðum bundið að fá svo gott efni, að tunnurnar geti fyllilega orðið samkeppnisfærar. Þá er einungis um verðið að ræða, og í því sambandi er geysiþýðingarmikið að fá tollinn afnuminn.