07.04.1932
Neðri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

7. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Fornar sögur segja frá því, er þetta land var numið, að öll vötn væru full af fiski. Þess er getið, þá er Hrafna-Flóki dvaldi hér hinn fyrsta vetur á Barðaströnd, að þá gætti hann þess eigi að afla fóðurs búpeningi sínum, en lagði alla stund á fiskveiðar, svo að fénaður hans fell um veturinn. Það bendir margt til þess, að þessar fornu sagnir um fiskisæld muni vera réttar, m. a. nafnið Laxá, sem er enn í dag mjög svo algengt heiti á ám, einnig þeim, sem enginn lax gengur í nú, en þar hefir áður án efa verið fiskigengd mikil.

Þetta ásamt mörgu fleiru af slíku tægi bendir til þess, hvernig náttúra landsins hefir verið rænd með því að eyða gæðum landsins, unz það varð æ fátækara og fátækara.

Á síðustu áratugum hafa verið gerðar róttækar hindranir gegn rányrkjunni, með aukinni jarðyrkju og verndun skóga. Það hefir verið reynt að græða þau sár, sem fyrir skilningsleysi þjóðarinnar hafa verið greidd náttúru landsins þetta ætti ekki sízt að gilda um veiði í vötnum landsins.

Þetta er mál, sem menningarþjóðirnar hafa tekið rækilega til meðferðar hjá sér. Víða erlendis er fiskurinn ræktaður á líkan hátt og búféð hér hjá okkur. Þar þurfa bændurnir svo að segja ekki annað en að skreppa út fyrir bæjarvegginn til þess að fá sér í soðið. Það er ekkert efamál, að hér er ekki síður hægt að rækta þessa tegund nytjadýra en aðrar.

Um einn af okkar búnaðarfrömuðum, einn með þeim allra fremstu, síra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, er sagt, að hann hafi geymt silung í læk skammt frá Sauðlauksdal, til þess að geta gripið til hans, þegar þörf var fyrir á heimili hans. Það sýnist svo, sem hann hafi haft opin augu fyrir hugmyndinni um ræktun fiskjar til hagsældar fyrir búendurna.

Við vitum glögg dæmi til þess, þó ekki séu þau mörg, að það hefir verið komið veiði í vötn, þar sem engin var áður. Ég veit t. d., að úr Mývatni hefir verið fluttur silungur í nálæg vötn, er sýndust lítilfjörleg, jafnvel smátjarnir, en reynslan hefir sýnt, að þar var hægt að rækta silunginn til mikilla hagsbóta fyrir þá, er hlut eiga að máli.

Það er enginn vafi á því, að hér á landi eru því nær óakmörkuð skilyrði fyrir ræktun fiskjar í stórum stíl, bæði í ám og vötnum.

Ég hygg, að ég geti fyrir hönd landbn. mælt með þessu frv., þó að skoðanir væru dálítið skiptar um einstök atriði í frv. Laxveiðalögin frá 1886 voru mikið til bóta frá því, sem áður var, og hafa þau án efa hindrað það, að lax hafi gereyðzt í ýmsum vötnum, sem komin voru að því að fara í auðn, ef ekkert hefði verið að gert. En hinu er ekki að leyna, að löggjöf þessi hefir ekki verið næg vörn gegn rányrkju á þessu sviði. Hefir lax gengið víða mjög til þurrðar. Telja fræðimenn, að ef ekki verði að gert í tæka tíð, geti svo farið, eins og farið hefir sumstaðar annarsstaðar, að laxinn eyðist svo, að erfitt sé að fá nægan stofnfisk til klakræktar. Verður því að teljast, að bráð nauðsyn kalli að, að löggjöfin sé endurbætt og það sem fyrst.

Þess verður að geta, að mjög tíðkast deilur milli þeirra, er veiði eiga í straumvötnum, um skiptingu veiðinnar milli þeirra, sem búa neðar og ofar með ánni; það er atriði, sem verður að viðurkenna, að mjög erfitt er að leysa, en til þess er reynt í frv. Það hefir og víða tíðkazt, að veiðiréttar hefir verið seldur undan jörðum, er átt hafa, og er það af mörgum álitið mjög óheppilegt; er ég og þeirrar skoðunar og tel þau ákvæði þessa frumv., er banna slíkt, mikla réttarbót.

Frumv þetta er samið af nefnd, er atvmrh. skipaði í nóv. 1929 til þess að endurskoða eldri lagafyrirmæli um veiði í vötnum og ám og semja frv. þar um. Tilgangur þess kemur fram í fjórum höfuðatriðum. Í fyrsta lagi það, að auka friðun á laxi og silungi umfram það, er verið hefir, því að reynslan hefir sýnt, að lögin eru ekki nægileg í þessu efni til þess að halda við stofninum, hvað þá að auka hann. Í öðru lagi er það tilgangurinn að jafna veiði milli aðila í sama fiskihverfi. Í þriðja lagi að hindra það, að veiðihlunnindi verði skilin frá þeim jörðum, sem hafa þau, og reyna til að sameina þau aftur jörðunum, þar sem þau hafa verið frá skilin. Fjórða höfuðatriðið er að stuðla að því, að tekizt geti skipulagsbundinn félagsskapur meðal veiðieigenda við sama fiskihverfi, sem sameiginlegra hagsmuna hafa að gæta, um verndun veiðihlunninda og ræktun þeirra, sem hið opinbera styðji með styrkveitingum, með tilliti til klaks o. fl. Allar þessar fjórar uppistöður frv. eru merkilegar fyrir málið og byggjast á nauðsyn.

Landbn. hefir ekki að öllu leyti orðið sammála um frv. Tveir nm. hafa skrifað undir nál. með fyrirvara, enda hafa frá öðrum þeirra, hv. hm. Borgf., komið fram brtt. á þskj. 338, sem ég ætla þó ekki að ræða fyrr en hv. flm. hefir mælt fyrir þeim sjálfur.

Landbn. hefir varið miklum tíma til þess að athuga þetta frv. Margir hafa talað við n. um málið, og það hefir komið í ljós, að menn líta allmisjafnt á það, hvernig leysa skuli málið. Það gefur að skilja, að ekki er hægt að gera öllum til hæfis um það, hvernig lögum þessum er fyrir komið. Álit manna, margra hverra, mótast allmikið af stundarhagsmunum þeirra og breytilegu viðhorfi. En til slíks má ekki of mikið tillit taka, þegar um það er að ræða að vernda og auka þau verðmæti, sem framtíðin á að njóta.

Ég skal svo ekki hafa orð þessi fleiri um málið almennt, en snúa mér að því að skýra brtt. landbn. á þskj. 304 nokkru nánar.

Við 1. gr. frv. hefir n. gert eina litla brtt. Gr. er eingöngu orðaskýringar, en upp í þær hefir ekki verið tekið, hvað orðið sjór þýddi í frumv. N. leggur til, að til samræmis við brtt: sé tekin upp í gr. þannig skilgreining á orðinu sjór eins og það er notað í frv.: „Sjór: salt vatn utan árósa“.

Aðra brtt. flytur n. við 2. gr. 5. tölul., að í staðinn fyrir „rétti“ komi „afnotarétti“. Það er talað þarna um, að landeigandi geti afsalað sér öllum veiðirétti í vatni þann tíma, sem réttur til stangarveiði er skilinn frá landareigninni og leigður öðrum. Okkur finnst réttara, að í þessu sambandi sé notað orðið „afnotaréttur“, því að þar er aðeins átt við afnotarétt.

Við 3. gr. gerir n. þrjár brtt. Ég skal geta þess, að við þetta frv. er komið fram mikið af brtt. frá hv. þm. Borgf., og þar á meðal um að fella 3. gr. alveg niður. En um hans brtt. ætla ég ekki að ræða að svo stöddu. Hv. minni hl. n. (PO og MG) mun vera okkur hinum nm. samþykkur um brtt. okkar við 3. gr., ef hann fær ekki sína brtt. á þskj. 338 samþ. þessari frvgr. er fyrst og fremst ákvæði um það, að ef veiðiréttur hefir verið skilinn frá jörðum áður en þessi lög öðlast gildi, þá geti eigendur jarðanna krafizt hans aftur. Er gert ráð fyrir, að nægilegt sé, að helmingur þeirra jarðeigenda, sem hlut eiga að máli, krefjist innlausnar á veiðiréttindunum. Okkur í n. þykir fulllangt gengið, að aðeins helmingur hlutaðeigenda geti krafizt innlausnar, og leggjum því til, að 3/4 hlutar þeirra verði að krefjast innlausnar, ef hún á fram að fara.

Þá er gert ráð fyrir í 2. málsl. 3. gr., að ef innlausnar er krafizt, en eigi af öllum landeigendum, sem veiðiréttindi hafa misst, þá geti eigandi veiðiréttarins heimtað að þeir, sem ekki kröfðust innlausnar, leysi þó einnig til sín veiðirétt í vatninu, hver fyrir sínu landi. Þeir, sem ekki vilja innleysa veiðiréttinn, eiga þannig að beygja sig fyrir meiri hl. þetta mun gert til verndar þeim, sem veiðiréttinn eiga ná, til þess að þeir þurfi ekki að sitja eftir með gagnslausan veiðirétt, þegar búið er að innleysa hann beggja vegna við. N. finnst þetta nokkuð hart, að skylda menn til að innleysa veiðirétt, sem þeir ekki óska eftir að fá og þeir e. t. v. eiga mjög erfitt með að innleysa. Við leggjum því til, að þessi innlausnarskylda hvíli á þeim, sem innlausnar krefjast, að þeir verði einnig að innleysa veiðiréttinn fyrir landi þeirra, sem ekki vilja gera það, ef samkomulag næst ekki á annan hátt.

Í þriðja lagi leggjum við til, að 4. töluliður 3. gr. falli niður. Við sjáum ekki ástæðu til annars en að þeim veiðirétti, sem er í eigu ríkis, kirkju og sveitarfélaga, sé einnig skilað til eigenda þeirra jarða, sem hann hefir verið skilinn frá, ef þess er krafizt; okkur finnst, að það sama eigi að ganga yfir þessa aðila og aðra, sem veiðiréttindi hafa eignazt frá öðrum jörðum.

Þá er ein smá brtt. við 6. gr., 4. brtt. á þskj. 304, sem raunar þarf ekki frekari skýringu við. Í gr. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Nú skilur vatn landareignir, og er þá landeiganda hvorum veiði jafnheimil“. Þarna mun gert ráð fyrir, að báðir aðilar eigi veiðiréttinn í vatni því, sem löndin skilur, enda er reglan, að svo sé, en eins og nú er, er hitt líka hugsanlega, að veiðiréttindin fylgi aðeins annari landareigninni. Þess vegna leggjum við til, að bætt sé inn í málsgr. orðunum „enda fylgi veiðiréttur báðum landareignum“. Er þá skorið úr um þetta atriði, svo að ekki orkar tvímælis.

Þá er 5. brtt. n., við 12. gr., þar sem ákveðið er, hvernig veiðiskýrslur skuli gefnar. Samkv. frv. er ætlazt til, að tvöfaldar skýrslur séu gefnar, af þeim, sem stunda veiði, og heim, sem veiðina kaupa, ef um meira en 25 kg. á mánuði er að ræða. N. álitur óþarft, að aðrir gefi skýrslu en þeir, sem veiðina stunda, og leggur því til, að þau ákvæði gr., sem ræða um, að kaupendur veiðinnar gefi einnig skýrslu, séu numin burt.

Þá er 6. brtt. n., við 13. gr. þar er getið um, að þar, sem laxveiði hefir verið stunduð í sjó og hún sérstaklega verið metin til dýrleika í fasteignamati, skuli hún leyfileg afram, og er tekið fram, að miðað skuli við fasteignamatið frá 1922. okkur þykir réttara að miða þetta við fasteignamatið, sem gengur í gildi á þessu ári, og leggjum því til, að í staðinn fyrir ártalið 1922 komi 1932. B-liður 6. brtt. er aftur aðeins leiðrétting á tilvitnun í niðurlagi 4. tölul., sem er röng í frv.

7. brtt. n. er við 14. gr. frv., 2. tölul., þar sem talað er um, að ekki megi leggja silunganet né hafa ádrátt í sjó nær árósum en í 500 metra fjarlægð, þar sem um á er að ræða, sem fiskur gengur í úr sjó. N. þótti rétta nokkuð strangt ákvæði og áleit, að ekki stafaði nein hætta af því, þó leyft væri að leggja silunganet á þessum stöðum og hafa ádrátt þar, sem um er að ræða ár, sem enginn lax gengur í úr sjó. Samkv. því leggjum við til, að einungis sé hannað að hafa ádrátt í nánd við ósa þeirra vatnsfalla, sem lax gengur í.

Þá kemur 9. brtt., við 16. gr. Þar er svo fyrir mælt, að eigi megi veiða lax nema á tímabilinu frá 1. júní til 13. sept. ár hvert. N. þykir þetta fullþröngt. Laxveiði hefir í ýmsum héruðum verið byrjuð fyrr en þetta, og n. þykir ekki ástæða til að meina það. Meiri hl. n. álítur þó ekki þörf á að ganga lengra en það, að leyfa, að veiðin megi byrja 20. maí, því að óvíða mun veiði vera byrjuð fyrr nú, og líklega hvergi. Samkv. því leggjum við til, að í stað 1. júní komi 20. maí í 1. lið gr. þetta breytir þó ekki því ákvæði gr., að hvergi má veiða lengur en 3 mánuði, það gerir tímann aðeins ofurlítið hreyfanlegri.

Tveir af nm. vilja gera víðtækari breyt. á þessari gr., og flytur hv. þm. Borgf. brtt. um það, en eins og ég hefi tekið fram, ætla ég ekki að víkja að hans till. fyrr en hann hefir sjálfur gert grein fyrir þeim.

Tvær brtt. höfum við gert við 3. málsgr. þessarar sömu gr. Þar er svo tiltekið, að ekki megi veiða göngusilung nema á tímabilinu frá 1. apríl til 13. sept. ár hvert þetta þótti n. of strangt, að banna algerlega veiði eftir 15. sept. Hún álítur, að ef þessu væri framfylgt, mundi það stórmikið rýra nytjar ýmsra jarða af göngusilungsveiði. Við leggjum því til í b-lið brtt. við 16. gr., að hætt sé aftan við 3. lið gr.: Þó getur ráðherra, eftir tillögum veiðimálastjóra, heimilað, að göngusilungur sé veiddur lengur í lagnet“. Lagnetaveiðin mun vera sú veiðiaðferð, sem minna tjóni veldur heldur en ádráttur og aðrar þvílíkar aðferðir. Sjáum við ekki ástæðu til að setja fast takmark um, hvað langt fram eftir haustinu megi veita leyfi til hennar.

Þá er brtt. við 17. gr., þess efnis, að í stað þess, að í frv. er gert ráð fyrir, að lax skuli friðaður fyrir allri annari veiði en stangarveiði 60 klst. á viku hverri, þá leggur meiri hl. n. til, að þessi friðunartími sé færður niður í 48 stundir. Um þetta atriði er n. ekki sammála, og fer ég ekki frekar út í það að sinni, hvað milli ber.

Önnur dálítil efnisbreyt. er við þessa sömu gr. Í frv. er gert ráð fyrir, að ádrátt megi aldrei hafa á milli kl. 12 á miðnætti og kl. 12 á hádegi. N. vill breyta þessu þannig, að aldrei megi hafa ádrátt frá kl. 9 ardegis til kl. 9 að kvöldi. Það er álit margra, að ádráttur sé skaðlegri að nóttu til heldur en að deginum. Það hefir og verið forn venja að hafa ekki ádrátt að næturlagi, og sér n. ekki ástæðu til, að það sé verið að breyta til í því efni.

Þá er 11. brtt., við 21. gr. frv. Er hún aðeins til samræmis við þá breyt., sem n. leggur til, að gerð sé á 16. gr., og þarf ég ekki að ræða frekar um það.

Þá hefir n. gert brtt. við 25. gr., þar sem lagt er til, að 3. tölul. gr. falli niður. Þar er svo ákveðið, að lagnir, sem ekki hafa verið notaðar síðasta veiðitíma áður en lögin öðlast gildi, megi ekki taka til notkunar aftur nema veiðimálastjóri leyfi. N. sér ekki ástæðu til að leggja þetta bann á, að menn þurfi að sækja um leyfi til veiðimálastjóra til að nota veiði, þó að hún hafi ekki verið hagnýtt undanfarið ár.

Þá er ekki um brtt. að ræða fyrr en við 48. gr., sem er 13. brtt. á sama þskj. Þar ræðir um, hvernig jafna skuli niður kostnaði við starfsemi fiskiræktarfélaga. Er gert ráð fyrir í frv., að aðallega verði honum jafnað niður eftir áætluðu veiðimagni þeirra jarða, sem hátt taka í félagsskapnum. Þó er þar heimilað að jafna allt að 1/4 hluta kostnaðarins niður eftir landverði viðkomandi jarða eftir fasteignamati. Það álítur n. alls ekki réttlátt, því að það gæti orðið til þess, að einstökum jörðum yrði íþyngt meira en tilsvarandi er við þau not, sem þær hafa af starfsemi félagsins. N. álitur það einu réttu og sjálfsögðu leiðina að jafna kostnaðinum niður eftir áætluðu verði þeirra hlunninda, sem leiðir af þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru. Samkv. því leggur hún til, að sú málsgr., sem fjallar um heimild til að jafna niður hluta af kostnaðinum eftir landverði viðkomandi jarða, sé felld burt.

14. brtt., sem er við 58. gr., er aðeins leiðrétting á tilvitnun, og er því ekkert um hana að segja.

15. brtt., við 59. gr., er einnig smávægileg. Þar ræðir um, hvernig boðað skuli til félagsstofnunar, þegar veiðifélög á að mynda. Er gert ráð fyrir, að þá séu boðaðir á fund ábúendur allra þeirra jarða á fyrirhuguðu félagssvæði, sem veiði er stunduð á eða hefir verið stunduð um undanfarin 10 ár. N. sér enga ástæðu til að miða við það, að veiði hafi verið stunduð á undanförnum 10 árum, og leggur því til, að orðin „þar sem veiði. . . 10 ár“ falli burt.

16. brtt. er aðeins leiðrétting á prentvillu.

17. brtt. er við 64. gr., og er það aðeins orðabreyting. N. virðist 2. og 3. liður gr. óskýrt orðaðir og leggur til, að þeir séu orðaðir eins og 17. brtt. segir til um. Ég held, að þar sé um engan efnismun að ræða, heldur finnst okkur hugsunin koma skýrar fram heldur en með orðalagi frv.

Þá er 18. brtt., sem er við 73. gr. þar er rætt um bætur til þeirra, sem misst hafa selveiðinytjar vegna þess, að samkv. frv. er leyfilegt að styggja og eyða sel, þar sem hann kemur í veiðivötn eða ósa þeirra.

Samkv. frvgr. á ríkissjóður að greiða þessar bætur til þeirra, sem búa á jörðum, sem eru í eigu ríkis, kirkju eða sveitarfélaga, en annars eiga eigendur lax- og göngusilungsveiði í viðkomandi fiskihverfi að greiða þær, þeir, sem látið hafa styggja selinn til að auka veiði sína. Okkur virðist réttast að lata það sama gilda um greiðslu þessara bóta. Hvort sem jarðirnar eru í eigu einstaklinga, ríkis, kirkju eða sveitarfélaga, að baeturnar séu greiddar af þeim, sem fá aukna laxveiði vegna útrýmingar selsins, og leggjum því til, að 3. tölul. gr. falli burt.

19. brtt. er aðeins orðabreyt., en ekki efnis.

Í 20. brtt. eru bráðabirgðaákvæði, sem snerta 11. og 12. kafla frv. Þar ræðir um þau útgjöld, sem ríkissjóður á að taka á sig vegna framkvæmdar þessara laga, sem eru ekki svo lítil. Það er ætlazt til, að fiskiræktarfélögin og fiskiræktin sé styrkt á svipaðan hátt og jarðræktin samkv. jarðræktarlögunum nú. N. lítur svo á, að ekki sé um það að ræða, eins og nú horfir um hag ríkissjóðs, að leggja megi á hann auknar kvaðir samkv. þessu frv. þegar í byrjun. Við leggjum því til, að bætt verði nýjum kafla aftan við frv. með bráðabirgðaákvæðum um það, að fyrst og fremst komi ákvæði 12. kafla um styrk til fiskiræktarfélaga ekki til framkvæmda fyrr en fé er veitt til þess í fjárl., og í öðru jagi, að framkvæmd 11. kafla frv., sem ræðir um stjórn og eftirlit veiðimála, sé slegið á frest fyrst um sinn, en að sá maður, sem haft hefir á hendi eftirlit með laxa- og silungaklaki í landinu, taki við störfum þeim, sem veiðimálastjóra og veiðimálanefnd er ætlað að gegna í framtíðinni eftir frv.

Á þann hátt eiga lögin ekki að baka ríkissjóði aukin útgjöld fyrst um sinn. Ég hefi þá í stuttu máli gert grein fyrir brtt. n. á þskj. 304, og skal ég svo ekki hafa mál mitt lengra að svo komnu.