07.04.1932
Neðri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

7. mál, lax- og silungsveiði

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég ætla, að af einstökum lagabálkum sé þetta mjög svo myndarlega frv. um lax- og silungsveiði ýtarlegasta lagafrv., sem liggur fyrir þessu þingi. Það er mjög ánægjulegt að fá nú myndarlega nútímalöggjöf um þessi mál, og það er ekki vafamál, að það er mjög aðkallandi nauðsyn, og er líklegt til að verða til meiri nytja fyrir þetta fólk, sem lönd á að veiðivötnum, en ýmislegt annað, sem gert hefir verið. Þess vegna hefi ég horfið að því ráði, að endurskoða löggjöfina um þetta efni, og í samráði við Búnaðarfélag Íslands að láta undirbúa nútímalöggjöf um lax- og silungsveiðar. Og ég vil leyfa mér að halda því fram, að þessi undirbúningur hafi tekizt mjög vel og að það hafi verið vandað mjög mikið til hans, og að þeir menn, sem þennan undirbúning höfðu á hendi, hafi innt af hendi mikið og gott starf, en það voru þeir Ólafur prófessor Lárusson, Pálmi rektor og fiskifræðingur Hannesson og svo einn þm., sem nú er hæstv. forseti þessarar d., og var hann formaður nefndarinnar.

Ég hefi allmjög kynnt mér þetta frv., og það er mitt álit, og ég er viss um, að fleiri líta svo á, að það sé mjög myndarlegur grundvöllur til að byggja á löggjöf um þetta mál. Hinsvegar er ég í engum vafa um það, að frv. er ekki gallalaust, fremur en önnur mannanna verk, og það er rétt, sem hv. þm. Borgf. sagði, að þegar á að fara að framkvæma svo stóran lagabálk sem þennan í einstökum atriðum, þá kemur reynslan og bendir á ýmislegt, sem fyrst framkvæmdarvaldið og þar næst löggjafarvaldið verður að gera umbætur a. En út af ummælum hv. þm. Borgf., sem hann hafði um frv. í sambandi við ákvæðið í 6. gr., að það væri mjög flausturslegt verk, vil ég segja það, að ég tel það mjög ofmælt, þótt svo kynni að vera, að það færi betur á að orða þetta eitthvað öðruvísi, t. d. á þann hátt, sem hv. landbn. hefir orðið ásátt um að leggja til, þá nær það ekki neinni átt að kveða upp slíkan almennan dóm út frá einu atriði. Við hliðina á því, hvað þessi lagabálkur er myndarlegur í heild sinni, verður þetta algert aukaatriði.

Nú hefir n. skilað þessu frv. frá sér, og að baki till. hennar liggur mikil vinna, þó nokkuð hafi hún sjálfsagt getað stuðzt við það, sem gert var í fyrra, þegar þetta frv. þá lá fyrir n. Ég fagna því, að n. hefir orðið sammála um að leggja það til, að lögin fái nú afgreiðslu frá þinginu. Hinsvegar hefir orðið nokkur ágreiningur um einstök atriði innan n., en ég vona, að við meðferð hv. d. á frv. verði þessi ágreiningur ekki svo ríkur, að n. geti ekki haldið afram að sameinast um málið í heild sinni, svo að frv. geti nú fengið afgreiðslu. Annars skal ég ekki gera að umtalsefni einstakar brtt., því þó þær séu margar, er ekki í raun og veru um svo stóran ágreining að ræða. En ég vil þó sérstaklega geta þess viðvíkjandi bráðabirgðaákvæðinu, að vegna þeirra erfiðu kringumstæðna, sem nú eru, mun stj. ekki sjá sér fært að leigja nú þegar í þann kostnað, sem frv. gerir ráð fyrir, heldur leggur áherzlu a, að því sé frestað, þangað til eitthvað hefir batnað í ári. En þangað til mun stj. reyna að komast af með ódýrari rekstur á þessum málum, með því að fá aðstoð manns frá Búnaðarfélaginu og Fiskifélaginu til að annast þau störf, sem veiðimálastjóra eru ætluð, að svo miklu leyti sem þau verða að koma til framkvæmda strax.

Það er annars gott, að einn maður úr mþn., sem sé hæstv. forseti, er hér til að taka þátt í umr. um þetta mál, því hann er, vegna starfs síns í n. og þátttöku í undirbúningi málsins, því miklu kunnugri en ég eða nokkur annar hv. þm. Þess vegna mun ég bíða með, þar til ég hefi heyrt, hvað hann segir, að taka afstöðu til einstakra till.

Ég vil þó víkja að 2 atriðum, sem hv. þm. Borgf. minntist á. Hann er nú reyndar ekki staddur í d., en það gerir ekkert til, því það eru ekki ádeiluatriði.

Hv. þm. Borgf. var að draga í efa, að það væri nokkuð, sem ræki á eftir að fá löggjöf um þetta efni, og sagði, að það væri ekki sjáanlegt, að lax eða silungur gengi neitt til þurrðar. Ég skal ekki fara út í það. En ég ætla, að á síðustu áratugum, og þó sérstaklega — ef ég mætti skjóta því hér inn — ef lengra er farið aftur í tímann, til þess rits, sem merkilegastar upplýsingar hefir að geyma um þetta mál og sem mjög gaman er að lesa — og á ég þar við jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Hún segir glögglega frá ýmsu um þetta efni. Ég hefi kynnt mér það allt mjög rækilega, einmitt um þetta hérað, hérað hv. þm. Borgf., Borgarfjörðinn, og það er mjög merkilegt að lesa það, sem þeir þar segja, Árni Magnússon og Páll Vídalín, um það, hvernig hagaði til um þessi mál fyrir 200 árum síðan. Þá var ekki byrjuð laxveiði á þeim slóðum, þar sem aðalveiðin er nú. En þá var laxveiði til stórmikils gagns á mörgum efri jörðunum, svo sem Lundi og Reykholti og fleiri jörðum, þar sem nú er ekki laxveiði svo teljandi sé. En með skynsamlegri löggjöf mætti takast að auka mikið laxveiðina, bæði þar, sem hún er mest nú, og líka uppi í héruðunum, þar sem veiðin hefir minnkað.

Að síðustu vil ég segja nokkur orð út af orðum hv. þm. Borgf. Hann vildi álita, að það þýddi alveg sitthvað, „að fengnum tillögum veiðimálastjóra“ og „eftir tillögum veiðimálastjóra“. Ég hygg, að af flestum stj. hafi verið litið svo á, að þetta hvorttveggja þýddi alveg það sama. Ég hefi minnzt á þetta við fyrrv. ráðh., hv. 2. þm. Reykv., og hann sagði, að stj. bæði á undan honum og eftir, hefðu verið þessarar skoðunar. Ég verð því að álíta, að þær ályktanir, sem hv. þm. Borgf. dró af þessu „eftir tillögum“ séu ekki réttar. (PO: Ekki leit hæstv. stj. svo á 1929) þetta mun þó í flestum tilfellum hafa verið framkvæmt eins og ég hefi nú sagt, og það geta menn líka sannfærzt um með því að tala við hv. 2. þm. Reykv.

Ég vil mjög eindregið óska þess, að frv. geti nú fengið endanlega afgreiðslu og að full vandvirkni verði viðhöfð við afgreiðslu þess.