07.04.1932
Neðri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

7. mál, lax- og silungsveiði

Jónas Þorbergsson:

Það er aðallega tvennt, sem mig langar til að vekja athygli hv. þdm. á í sambandi við þetta mál.

fyrsta lagi eru það brtt. hv. þm. Borgf., sem hann hefir borið fram á þskj. 338, sem ég vil gera aths. við, og þá sérstaklega þá till., þar sem hann leggur til, að felld séu niður þau ákvæði 2. gr., að veiðirétt megi eigi skilja frá jörðum. Ég álít mjög varhugavert að samþ. þessa brtt. Það er alkunnugt, að sá háttur er farinn að tíðkast, að einstakir menn, sem eiga ráð á miklum fjármunum og hafa tíma til að skemmta sér, hafa tekið veiðirétt í ýmsum ám á leigu um lengri eða skemmri tíma, og jafnvel svo tugum ára skiptir. Þeir hafa svo byggt sér lystihús við þessi veiðivötn og stundað þar stangarveiði sér til skemmtunar.

Afleiðingarnar af þessu hafa svo orðið þær, að veiðivötn þessi eru algerlega vanrækt. Þarna geta ekki myndast veiðifélög, meðan svona er háttað, þar verður ekkert klak og ekkert gert fyrir ána. Þar með er loku skotið fyrir það, að veiðin geti orðið til nytja þeim jörðum, sem að ánum liggja. Það hefir vitaskuld verið freistandi fyrir menn, áður en skilningur á nytsemi þessarar veiði var vaknaður, að ganga að þeim boðum, sem þessir menn buðu til að fá umráð yfir veiðinni sér til skemmtunar þetta fór mjög í bága við þá almennu þjóðarhagsmuni, sem eiga að geta leitt af skynsamlegri meðferð þessa veiðiskapar, og það fer einnig mjög í bága við þann aðaltilgang, sem er á bak við þessa merkilegu löggjöf, sem hér á að setja, því að meginstefna þessa frv. er sú, að því er mér skilst, að gera veiðivötnin sem allrahagnýtust fyrir alla þá, sem jarðir eiga þar að. Ég vil því mjög alvarlega vara menn við þessari till. hv. þm. Borgf. Ef hún yrði samþ., þá yrði það til þess að viðhalda þessum skaðlega ósið, sem kominn er á í meðferð veiðivatna.

Þá er annað atriði, sem ég vil aðeins minnast á. Í 30. gr. 2. málsl. segir, að girðingar megi aldrei ná yfir meira en 1/3 hluta af breidd árinnar og aldrei megi girða yfir aðalstraumlínu ár. Með þessari málsgr. á að slá því alveg föstu í lögum, að aldrei megi girða yfir aðalstraumlínu ár og aldrei yfir meira en 1/3 hluta af breidd ar, hvernig sem á stendur. En nú er það svo, að von um veiði er mest um aðalstraumlínu ár, og venjulega hagar svo til, að aðalstraumlína er í miðri á. Nú skilst mér, að eftir þessu frv. sé mönnum fyrirmunað undir svona kringumstæðum að leggja lengra en út í 1/3 árinnar frá hvoru landi, en miðja árinnar og þá aðalstraumlínan skuli vera fyrir utan takmörk veiðivélanna. Að vísu er gert ráð fyrir í 68. gr., að frá þessu megi veita undanþágu þar, sem veiðifélag er starfandi við ár, en samt sem áður álít ég varhugavert að láta þetta ákvæði vera í frv., vegna þess að svo getur hagað til, að ekki sé hægt að mynda veiðifélag við ána, eða getur á. m. k. orðið langur dráttur á stofnun slíks veiðifélags þetta ákvæði yrði óeðlilegar hömlur á afnotarétti manna af veiðivötnunum, því að með því að samþ. það er mönnum bannað að hafa veiðivélar sínar þar, sem helzt eru líkur til, að eitthvað veiðist.

Ég vil því skjóta því til hv. landbn., hvort hún vilji ekki taka þetta atriði til vinsamlegrar athugunar. Ég er fús til samvinnu við hana um þetta og vona, að hún vilji styðja eða þá bera fram brtt., þar sem svo sé ákveðið, að girðingar megi aldrei ná lengra en í miðja aðalstraumlínu ár.