12.04.1932
Neðri deild: 49. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

7. mál, lax- og silungsveiði

Pétur Ottesen:

Það er nú orðið nokkuð um liðið síðan þetta mál var síðast til umr., og þá var umr. frestað. Þegar það var síðast til umr., var deilt mjög freklega af tveim hv. dm. sérstaklega á mig fyrir mjög hógværa gagnrýni, sem ég hafði gert á frv., og fyrir brtt., sem ég hafði borið fram við frv. Það var sérstaklega sá maður, sem að nokkru leyti er höfundur þessa frv., hv. 1. þm. Árn., sem þurfti að láta ljós sitt skína hér í þessu máli og hóf hér í klukkutíma ræðu eða meir árás á mig og mína afstöðu til þessa máls. Af því að nú er svo langt um liðið, býst ég við, að ég kvitti ekki fyrir eins og ef ég hefði fengið tækifæri til að tala strax á eftir honum. En ég mun samt gera skil á þessu eftir því, sem ég man að ummælin fellu. Hæstv. forsrh. var fullur vandlætingar við mig út af því, að ég hafði látið falla nokkur orð um það, að frv þetta væri ekki svo rækilega undirbúið eða svo vel stillt í hóf um ýms atriði eins og gera hefði mátt ráð fyrir, svo langan tíma sem undirbúningurinn hafði tekið og í engu sparað með mannafla og annað, er til þessa undirbúnings heyrði. Það hafði upphaflega verið kosin þriggja manna n. til að undirbúa málið, og hún sat yfir því meira og minna í 2–3 ár. Ég verð í sambandi við undirbúning þessa máls að benda á það, að frv. var fyrst borið fram á þingi 1930. Þá gerði ég nokkrar aths. við frv., og það varð ekki útrætt á því þingi. Og eftir því, sem síðar kom fram hjá hv. 1. þm. Arn., þá virðast þessar aths. mínar hafa gefið mþn. tilefni til að setjast nú enn á rökstóla og taka frv. til nýrrar athugunar þetta leiddi til þess, að n. bar fram á síðasta þingi hvorki meira né minna en 25 brtt. við frv., og skiptust sumar þeirra niður í marga stafliði. Það kom mjög skýrt fram í ræðu hv. 1. þm. Árn., þegar hann svo bar frv þetta næst fram hér á þingi, að einmitt hinar áminnstu aths. mínar við frv. ýttu undir mþn. til að athuga frv. að nýju, því að þar segir svo: „Þessar brtt. eru að mestu í samræmi við till. hv. þm. Borgf. í fyrra“. Ég bar reyndar ekki fram neinar till. við frv., en ég gerði ýmsar aths. við það, og af þeim eru þessar brtt. svo sprottnar, eins og sjá má. Það hefir nú komið á daginn, að þessi nýja endurskoðun mþn. á laxveiðalöggjöfinni hefir kostað meira en hin upphaflega endurskoðun og samning frv. Hin upphaflega endurskoðun kostaði, eftir því sem séð verður, 2700 kr., en fjáraukalögin fyrir árið 1931 sýna, að hin síðari endurskoðun hefir kostað 3600 kr. Auk þessara 25 brtt., sem mþn. bar fram við sitt eigið frv., eru nú komnar fram í d. 30 brtt. að nýju, bæði frá n. og einstökum þm. Af þessum tæpum 100 gr. í frv. eru komnar brtt. við 55. það, sem þá er eftir, eru þeir lagakaflar, sem n. hefir tekið óbreytta upp úr lögum þeim, sem áður var búið að samþ., bæði úr vatnalögunum og úr lögunum um fiskiræktarfélög, sem voru afgr. á þingi 1929. Ég ætla, að þessar lýsingar, sem ég hefi gefið á frv., sýni, að undirbúningur þess sé ekki þannig, að það sitji vel á flm. þess að rjúka upp til handa og fóta með ádeilum á þá menn, sem leyfa sér að viðhafa nokkra gagnrýni og bera fram brtt., sem miða að því að færa frv. í betra horf, og gera það frambærilegra á þingi og líklegra til að verða nothæf löggjöf fyrir þjóðina. Þá var það annað atriði í ræðu hæstv. forsrh., annað en vandlætingar til mín út af ummælum mínum um frv., sem ég vildi benda á. Hann sagði, að það skipti í sjálfu sér ekki neinu, hvort sagt væri heldur, að ráðh. væri ætlað að gera hitt og þetta eftir tillögum veiðimálastjóra og veiðimálanefndar eða að fengnum till. þessara aðila. Hann sagði, að þetta yrði í framkvæmdinni nákvæmlega það sama. Ég skaut því fram í, að ekki væri langt síðan framsóknarstj. hefði litið öðruvísi á þetta mál. Ég flutti á þingi 1930 frv. um lögreglustjóra á Akranesi, þar sem svo var ákveðið, að lögreglustjórastöðuna ætti að veita eftir till. hreppsnefndar. En þegar málið kom til Ed., lét stj. bera fram brtt. um það, að þetta skyldi gert að fengnum till. hreppsnefndar, því að þá þótti henni einsætt, að hún ein gæti ráðið, hver maðurinn yrði, en hreppsnefndin hefði aðeins tillögurétt um það þetta sýnir, að þá leit stj. öðruvísi á þetta, eða að gerður var munur á því um vald stjórnarinnar, hvort af þessu orðalagi væri notað.

Hv. þm. Dal. talaði um brtt. mína við 2. gr. Ég vil benda honum á, að það er misskilningur hjá honum, að nokkur hætta stafi af niðurfellingu þeirrar gr. í sambandi við það, að á þann hátt gætu einstakir menn fengið leigða stangarveiði, sem þeir nota sér til skemmtunar, því að í gr. eins og hrin er nú er heimild fyrir ráðh. að leyfa mönnum að leigja stangarveiði um tiltekinn tíma. Þess vegna er hvað þetta snertir enginn munur á, hvort mín brtt. er samþ. eða frvgr. stendur óbreytt. Ég vil aðeins geta þess um stangarveiðina, að hún er af ýmsum talin sú bezta veiðiaðferð, sem viðhöfð er, a. m. k. í hinum smærri ám, því að með stangarveiðinni er veiðin friðuð miklu betur en ella. Sömuleiðis, að þá er útilokuð sú veiðiaðferð, sem öllum kemur saman um, að hættulegust sé, sem sé ádráttarveiðin, því að með þeirri veiði er ekki einungis nytjafiskurinn dreginn upp, heldur líka að ýmsu leyti eyðilögð skilyrði fyrir tímgun hrognanna og viðhaldi fiskstofnsins. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Dal., að með ákvæðum 30. gr., þar sem bannað er að leggja net lengra en 1/3 af breidd árinnar, er í ýmsum tilfellum tekinn möguleikinn til veiða af ýmsum jörðum, eins og hann tók greinilega fram, og það sérstaklega, þegar um smærri ar er að ræða. Brtt. hans er því í samræmi við þetta og einnig í samræmi við gildandi lög um þessi efni, að það megi leggja net út í miðja straumlínu. Þá er það vitanlegt, að það er byggt á fullkomlega réttmætum grundvelli hjá hv. þm. Dal., þegar hann flytur brtt. um það, að sjálfsagt sé að meta upp þær jarðir, sem e. t. v. missa stór hlunnindi og verðmæti með ákvæðum þessa frv. En menn geta gengið að því með opnum augum, að svo geti farið um ýmsar jarðir. Ég get bent á jarðir í mínu kjördæmi, þar sem veiðimöguleikarnir eru mikið skertir og að sumu leyti alveg teknir í burt, og þar af leiðandi er verðgildi jarðanna mikið rýrt. Undir slíkum kringumstæðum er sjálfsagt og eðlilegt, að heimilt sé að meta slíkar jarðir upp, svo að mönnum sé ekki skylt að borga skatta af þeim verðmætum, sem búið er að taka af þeim. Ég verð að segja það, að ég tel það einkennilegt hjá þeim, sem samið hafa frv., að þeir skuli alveg hafa gengið fram hjá því atriði, að þeim verði greiddar einhverjar skaðabætur, sem verða fyrir miklum hlunnindamissi út af ákvæðum þessa frv., eða missa þau með öllu, úr því að þeir hafa komið auga á, að í sumum tilfellum sé réttmætt að greiða skaðabætur, þar sem um er að ræða missi af selveiðaafnotum. eins og frv. gerir ráð fyrir. Ennfremur ætla ég, að ákvæðin um laxveiði í sjó séu byggð á því, að það þyki varasamt að taka þau hlunnindi af mönnum, ef tekið hefir verið tillit til þessara verðmæta í fasteignamati jarðanna.

Ég gat um það í upphafi ræðu minnar, að hv. 1. þm. Árn. hefði tekið nokkuð óstinnt upp hjá mér hógværa gagnrýni mína við frv. Það var eins og hv. þm. vildi láta líta svo út, að hann væri sá eini af þeim, sem hér fjalla um þetta mál, sem ekki einasta sæti inni með vit og þekkingu á þessu efni, heldur mættu aðrir helzt ekki hreyfa neinni skoðun eða láta í ljós neitt álit á þessu máli, sem færi í bága við það, sem hann heldur fram. Og þá mætti auðvitað ekki virða að neinu þekkingu þeirra manna, sem byggð er á langri reynslu við veiðarnar og athugun á heim. Það eina, sem taka á tillit til, er sú þekking, sem þessi hv. þm. situr inni með. En auðvitað ættum við hinir að taka allri umvöndun hans með þakklæti og undirgefni og sitja hljóðir og fullir aðdáunar við fótskör þessa mikla sérfræðings og vitrings í laxveiðamálum. En ég segi nú fyrir mig, að mér virtist ýmislegt það koma fram í ræðu hv. þm., sem benti til þess, að meira beri á montinu en þekkingunni, og allt bendi til, að hann sé mjög flatbotna og grunnskreiður í þessum efnum.

Frsm. landbn. hefir svarað hv. 1. þm. Árn. fyrir hönd n., gagnrýni hans og ummælum hvað við kemur till. n. En ég vil aðeins bæta við það, sem hann sagði í þessu efni, — ég man ekki hvort það kom nægilega skýrt fram hjá hv. frsm., þar sem hv. 1. þm. Árn. var að tala um, að skaðabætur þær, sem ríkissjóður yrði að greiða Arnarbælisprestinum fyrir missi selveiðanna, bitnuðu ekki á ríkissjóði nema í tíð núv. prests þetta er því blekking hjá hv. þm., því að það er svo, að prestum er metið afgjald jarðanna upp í tekjur sínar, og þessi afgjöld eru vitanlega byggð á þeim hlunnindum og jarðargæðum, sem fyrir hendi eru á hverjum stað. En nú á að taka þessi hlunnindi af jörðinni, og við það lækkar eftirgjaldið. — ég vildi aðeins bæta þessu við, því að mér fannst það ekki koma nógu skýrt fram hjá hv. frsm.

Hv. 1. þm. Árn. varð tíðrætt um það, að ef til vill væru ekki nógu örugg ákvæðin í till. n. að friða fyrir laxnetaveiði 48 st. á viku. Hann heldur, að réttara sé að hafa friðunartímann miklu lengri, vill færa hann upp í 72 st. á viku. Með þessu finnst landbn. of langt gengið. Meiri hl. n. áleit, að með því að akveða vikufriðunina 48 stundir sé farinn heppilegur meðalvegur. Á þennan hátt væri séð fyrir hagsmunum beggja aðilja, bæði þeirra, sem búa ofar með ánum, og réttur þeirra, sem stunda veiðar neðar við árnar, væri heldur ekki skertur frekar en brýn nauðsyn er og réttmætt gagnvart öðrum, sem þarna eiga hagsmuna að gæta.

Bæði ég og hv. þm. Mýr., sem erum fulltrúar Borgarfj.héraðsins, sem hér hefir mikilla hagsmuna að gæta, lítum svo á, að með þessu sé farin sú meðalleið, sem við viljum vel við una og sem veiti það öryggi, sem við og aðrir þm., sem þessu máli eru kunnugir, viðurkennum, að sjálfsagt sé, þegar um er að ræða löggjöf til verndar lax- og silungsveiði. Ég skal geta þess í þessu sambandi, að það gæti verið álitamál, hvort ekki væri rétt að gera mun á því, hve lengi laxinn á að vera alfriðaður vikulega, eftir því hve langar árnar eru, eða þá hve margar þverár renna í þær. Mér skilst, að það væri vert að athuga það, hvort ekki væri réttara að hafa friðunartímann lengri þar, sem langar ar eru, en styttri aftur þar, sem ár eru stuttar, og gæti það þá heyrt undir umráð og ákvörðunarrétt héraðsstjórna, sem ég í mínum till. legg til, að haldi því valdi, er þær nú hafa um ýms framkvæmdaratriði, þ. a. m. um það, hvenær laxveiði skuli byrja á hverjum stað og hvenær henni skuli hætt.

Hv. 1. þm. Árn. var enn að tala um það, að laxveiði hefði minnkað mikið í seinni tíð, og gat um ráð í því sambandi sem dæmi, að nú væri veiði stunduð frá færri bæjum í Borgarfirði heldur en verið hefði um 1700 eftir jarðamati Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. En þetta er ekkert óeðlilegt, þegar á það er litið, að margar veiðisælustu laxárnar í héraðinu eru nú og hafa verið um langan tíma leigðar Englendingum og öðrum til stangarveiði. Þar með hefir vitanlega á sama tíma lagzt niður veiði hinna einstöku jarða. Það er vitanlegt, að margar ár eru þannig leigðar til stangarveiði í Borgarfirði, og má í því sambandi nefna Þverá, Grímsá, Langá og að nokkru leyti Norðurá þetta gerir vitanlega allan samanburð við það, sem var um aldamótin 1700 rangan og villandi.

Hv. frsm. hélt því fram, að ef brtt. mín við 2. gr. yrði samþ., þá gæti það leitt til þess, að útlendingar gætu náð kaupum á veiðirétti hér á landi. en þetta er rangt hjá hv. frsm. Ég skal benda honum á, að útlendingar geta lögum samkv. ekki eignazt veiðiréttindi hér nema með því, að ráðh. leyfi það í hvert skipti. Hér er þess vegna ekkert að óttast. Út af því, sem hv. frsm. var að tala um það, að hægt væri að fara í kringum lögin, þá skal ég aðeins taka það fram, að það er mjög vel hægt eins og 7. gr. er orðuð í frv., ef menn bara vilja. Hann benti á í því sambandi, hvernig farið væri í kringum bannlögin. Við fáum nú bráðlega tækifæri til þess að ræða um það mál, og ég vona, að hann hafi biðlund þangað til og að honum sé ekki nauðsyn á því að blanda þeim lögum inn í þessar umr. Ég veit ekki, hvort hv. frsm. er andvigur þeim lögum eða ekki, en hann virðist annars vera hlynntur bannhugsjóninni, sem víða kemur fram í þessu frv. og það í mjög víðtækum skilningi, eins og t. d. með ákvæðinu í 2. gr., þar sem algerlega er tekinn af mönnum ráðstöfunarréttur á eignum þeirra. Hér er svo langt gengið, að ég tel, að það stappi nokkuð nærri því að í bága fari við stjórnarskrána, en við þetta bann virðist hv. frsm. ekkert hafa að athuga; þvert á móti leggur hann blessun sína yfir það.

Út af því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði um brtt. mína við 3. gr., sem ég taldi einnig stappa nærri að vera stórnarskrárbrot, var hann að bera fyrir sig álit Ólafs Lárussonar prófessors. Honum hefir ekki fundizt hann sjálfur nógu sterkur í þessu atriði, þó honum finnist sig ekkert skorta á öðrum sviðum. En ég fæ nú ekki betur séð en að hér sé um stjórnarskrarbrot að ræða, þegar á að fara að þvinga menn til þess að innleysa veiðirétt, hvort sem þeir hafa nokkuð með hann að gera eða ekki. Ef aðeins meiri hl. veiðieigenda býður svo við að horfa, þá á að setja lögþvingun á hina, sem ekki vilja innleysa veiðiréttinn, til þess að borga fé fyrir það, sem er heim kannske einskis virði. þegar athuguð eru ákvæði stjskr., sem eiga að tryggja eignarrétt einstaklinganna, er ekki gott að verjast þeirri hugsun, að með 3. gr. sé talsvert gengið á svig við eignarréttar verndunarákvæði stjskr. Hv. landbn. hefir nú, sem betur fer, seð, hversu hér var allt of langt gengið, og vill hún nú laga þetta með viðbót við 3. gr., á þá leið, að þeir, er krefjast innlausnar á veiðirétti, skuli einnig innleysa fyrir hina, sem ekki kæra sig um að innleysa sinn veiðirétt. Með þessu er þó sneitt hjá því skeri, sem hv. flm. frv. höfðu siglt upp á.

Þá skellti hv. 1. þm. Árn. heldur en ekki á skeið út af því, sem ég sagði um 6. gr. frv. Hann sagði, að ákvæði þessarar gr. væru nú ekki frumsmíð mþn., heldur væru þau tekin beint upp úr vatnalögunum. Þóttist hann þar heldur en ekki ná sér niðri á mér. Það er rétt, að hv. 1. þm. Árn. og þeir, sem voru með honum við undirbúning þessa máls, hafa tekið ríkuleg laun úr ríkissjóði fyrir að skrifa orðrétt upp úr bæði vatnalögunum og öðrum lögum, eins og reikningar n. sýna glöggt, en ef til vill hefir hún fengið aðra til þess að skrifa þetta upp fyrir sig, því að ýmsir liðir í reikningunum benda til þess, að n. hefir þurft allmjög á að halda við undirbúning þessa máls aðstoð annara, við skriftir o. fl. En ég vil benda hv. þdm. á það, að það er allt annað, hvort ákvæði 6. gr. frv. standa í hinum almennu vatnalögum eða í laxveiðalögunum, því að þegar á að fara að „praktisera“ þessi ákvæði samkv. laxalögunum, þá er ekki einasta hætt við, heldur víst, að þetta ákvæði veldur árekstri. Samkv. þessari gr. er landeigandi talinn að eiga skilyrðislausan veiðirétt út frá sínu landi — en samkv. öðrum jafnréttháum ákvæðum eiga í ýmsum tilfellum allt aðrir menn allan veiðirétt í ákveðnum hyljum eða fljótum í ám og rétt til þess að draga þar net og afla á land.

Það er þess vegna meiri en lítil gláamskyggni hjá flm. þessa frv. og mþn. að taka þetta ákvæði óbreytt upp í laxveiðafrv. — Ákvæði slíkra laga eiga vitanlega að vera skýr og ljós, þar á að vera skýrt ákveðið um réttindi og skyldur, en ekki þannig frá því gengið, að það sé hægt að teygja hvað eina eins og hrátt skinn. Ég skaut ekki hjá marki í þessu efni og ég hygg, að hv. flm., 1. þm. Árn., muni ekki greiða atkv. móti lagfæringu hv. landbn. á 6. gr., þó að hann haldi fast fram frv., því að breyt. sú, er n. hefir gert, kemur auðsjáanlega í veg fyrir þras og þrætu í þessu efni. Frágangur mþn. á 6. gr. frv. ber vott um ófyrirgefanlegan trassaskap, skeytingarleysi og hreint og beint skilningsleysi á því, hve nauðsynlegt það er að hafa lagaákvæði, hver sem þau eru, sem skýrust og gleggst. Landbn. hefir nú með sinni brtt. komið í veg fyrir, að ágreiningur geti risið út af þessu ákvæði, en það er ekki mþn. að þakka.

Hv. þm. Árn. andmælti brtt. minni við 1G. gr., um að þau ákvæði skuli haldast, að héraðsstjórnir skuli ákveða, hvenær veiði skuli byrja og hvenær henni skuli hætt. Ég hygg þó, að aðalhátturinn í því, hve sjaldan hefir þurft að breyta laxveiðalögunum, sé nú einmitt sá, að héraðsstjórnirnar hafa haft þetta vald. Og ég er viss um það, að ef ákvæði frv. verða samþ., þá þarf oftar, jafnvel árlega, að breyta laxveiðalögunum með því að gera undantekningarákvæði um ýms einstök héruð í þessu efni. Ég vil ekki vitandi vits þegja við því, að slíkri breyt. verði skellt á, því að ég er viss um, að gömlu ákvæðin um þetta eru margfalt betri og hagkvæmari.

Brtt. mínar við 16. og 17. gr. fyrir utan þá, sem ég hefi nú minnzt á, eru ekki til þess að skerða öryggi um laxagöngurnar, heldur aðeins til þess að nota það úr gömlu lögunum, sem vel hefir reynzt, nefnilega, að það sé á valdi héraðsstjórna að ákveða lengd veiðitímans. Hv. þm. var að tala um, að það væri nauðsynlegt, að nokkuð af laxi væri gengið í árnar áður en veiði byrjaði, en ég skal benda honum á, að með þeim ákvæðum, sem héraðsstjórnir hafa sett um þetta, hefir verið vel fyrir þessu séð. Það hefir vitanlega verið mjög mismunandi snemma, sem veiðin hefir verið leyfð á ýmsum stöðum; ráð hefir verið þetta frá 20. maí til 15. júní, allt eftir því, hve snemma laxinn gengur í árnar, og með ákvæðum héraðsstjórnanna hefir verið vel fyrir því séð, að ekki væri byrjuð veiðin of snemma, því að oft og tíðum er laxinn farinn að ganga í árnar áður en byrja má að veiða.

Þá var hv. þm. fjölorður um brtt. mínar og n. um það, að aftaka ekki möguleikana fyrir því, að hægt sé að veiða göngusilung á haustin, eins og t. d. til hagar um göngusilungsveiði í Grímsá og Norðurá í Borgarfirði, en sá silungur gengur ekki í þessar ár fyrr en eftir 15. september. Hv. þm. hneykslaðist mikið á því, að ég bar fyrir mig umsögn ensks manns, sem leigt hefir Grímsá nú um skeið til stangarveiði, og hefir verið að stefna að því að útiloka alla ádráttarveiði í ánni með því að taka veiðina á leigu af bændum þeim, er eiga land að ánni; hefir hann á þennan hátt útilokað alla ádráttarveiði í ánni nema frá einum bæ þetta hefir vitanlega kostað þennan mann tölutvert fé. Það hneykslaði hv. þm., að ég hafði það eftir þessum manni, að hann legði áherzlu á, að vel væri gengið fram í því að veiða göngusilung, því það væri augljóst að hann æti laxasílin, og hv. hm. talaði um það með miklum þekkingarhroka og vitnaði í erlenda reynslu og sagði, að engin hætta væri á því, að silungurinn æti laxasílin, en ég álít það nú, að þeir viti þetta betur, sem veiða silunginn og slægja; þeir vita það, að hann er fullur af þessari átu, og ég er viss um, að göngusilungur er eins gráðugur í laxasílin og hv. þm. Árn. er gráðugur í það að nota milliþinganefndarstörf sín til þess að ná í peninga úr ríkissjóði, og er þá langt til jafnað. Ég býst nú raunar ekki við, að hv. þm. láti sér nokkuð segjast við þessi rök, því að hann virðist löngu búinn að loka augunum fyrir öllum þeim rökum í þessu máli, sem byggð eru á þekkingu þrautreyndra veiðimanna. Með ákvæðum frv. í þessu efni er öll silungsveiði bönnuð í þeim ám, sem ég nefndi. Menn á þessu svæði eru gersamlega sviptir þessum hlunnindum, og það að ástæðulausu.

Hv. frsm. tók í sama streng og hv. 1. þm. Árn. með það, að hætta gæti á því verið, að laxinn lenti í þessu neti. En því er nú ekki til að dreifa, því að silunganetin eru svo smáriðin, að það er hreinasta undantekning, ef lax ánetjast í þeim. (StgrS: Ég átti við ádráttarveiðina). Það er ekki hún, sem hér er um að ræða, heldur lagnetaveiðin. Og þó nú svo færi, að einstöku horaður lax, sem búinn er að hrygna og er á leið til sjávar, lenti í þessu neti, þegar komið er langt fram á haust, þá er mér ekki ljóst, hvað það gerir til. Ef það er rétt, að laxinn gangi ekki í árnar nema einu sinni á æfinni, þá fæ ég ekki séð, hvaða skaði það er, þó að einn og einn lax láti líf sitt á þennan hátt, í stað þess að hann kæmist til sjávar og dæi þar. En þessu er ekki til að dreifa, því að kunnugir menn segja mér, að það komi ekki fyrir að lax ánetji sig í þessum silunganetum. En þessi kenning um, að laxinn gangi ekki nema einu sinni í árnar, fer nú alveg í bága við það, sem kunnugir menn álíta að sé. Þeir segjast hafa séð sama laxinn koma ár eftir ár í sömu árnar og sömu hyljina. Þeir segjast geta þekkt laxinn á einum og öðrum einkennum. En hv. þm. er starblindur á báðum augum fyrir öllu því, sem byggt er á innlendri reynslu í þessu efni, og má hann ekki heyra neitt slíkt nefnt á nafn.

Hv. þm. Árn. talaði um það í sambandi við brtt. mína við 27. gr. frv., að nú þyrftu strangari ákvæði en gilt hefðu hingað til um þessa veiði, vegna þess að nú væri farið að nota fullkomnari veiðivélar en áður hefði tíðkazt; en ég vil benda honum á, að í Borgarfirði t. d. eru notuð sömu veiðitækin nú og notuð hafa verið í áratugi. Það kann að vera, að í Ölfusá og máske einhversstaðar annarsstaðar sé farið að nota einhver fullkomnari tæki, en í Borgarfirði er það ekki.

Í brtt. minni við 17. gr. frv. felst m. a., að því er slegið föstu, að ekki megi draga á nema 5 daga í viku, og að ekki megi veita neina undanþágu frá því. Ég er sammála hv. frsm. landbn. um það, að nauðsynlegt sé að takmarka ádrattarveiðina, en með hliðsjón af öðrum ákvæðum frv., sem ganga mjög í þessa átt, álít ég, að með þessari brtt. minni sé hér mjög stillt í hóf.

Viðvíkjandi þeim takmörkunum, sem heimilt er að gera um ádráttarveiðina, vil ég benda á ákvæði 18. gr. Samkvæmt henni er ráðh. í fyrsta lagi heimilt að banna alla veiði aðra en stangarveiði í hyljum undir fossum, og í öðru lagi banna með sama hætti alla ádráttarveiði á tilteknu svæði í ám, þar sem fiskur safnast saman til hrygningar. Og í þriðja lagi er ráðh. heimilt samkv. sömu gr. að friða, eftir till. veiðimálastjóra, tiltekna drætti fyrir ádráttarveiði, þar sem á er svo auðdræg, að veiðimálastjóri telur fiskstofni árinnar hættu búna af ádráttarveiði. Á sama hátt getur ráðh. friðað heilar ar fyrir allri veiði, annari en stangarveiði, ef árnar eru litlar. Og jafnvel má á sama hátt banna notkun fastra veiðivéla. Það var vegna þessara ströngu ákvæða 18. gr. frv., að ég taldi það fært, að ádráttur yrði leyfður 5 daga í viku, þar sem lítil hætta stafaði af því, þó sú veiðiaðferð væri stunduð. En ég veit það vel, að í sumum litlum bergvatnsám er hægt að taka hverja skepnu, sem þangað slæðist. En fyrir það er hægt að girða, ef ákvæðum 18. gr. frv. er beitt.

Hv. 1. þm. Árn. drap nokkuð á þá till. mína og n., að ádráttarveiði skuli ekki vera leyfð eftir kl. 9 að kvöldi, í stað þess eins og nú stendur í frv., að veiðin sé leyfð frá kl. 12 á hádegi til kl. 12 á miðnætti, og þótti lítil bót vera í því að færa þetta ákvæði til hins fyrra horfs. Hv. frsm. hefir nú ásamt mér gert grein fyrir því, að þegar skyggir á kvöldin, dregur laxinn sig niður í lygna hylji, og er þá hægt að gersópa honum úr þeim, ef ádráttur er leyfður lengur en bjart er; er það vitanlega hin argasta ránsaðferð. En á daginn, meðan bjart er, heldur hann sig meira í strengjum og hávöðum, þar sem erfitt er að komast að honum. Hin eina röksemd, sem hv. þm. færði fyrir þessu, var sú, að hægra væri að stunda veiðina, ef ádráttur væri leyfður lengur fram eftir kvöldinu. En það kæmi vitanlega alveg í bága við önnur ákvæði frv., sem ganga í friðunaráttina, að leyfa slíkt. Það er því bæði mér og öðrum alger ráðgata, hvers vegna hv. 1. þm. Árn. vill hafa þetta svo. Hin eina líklega ráðning, sem fundizt hefir, er sú, að hann er bóndi í Skálholti og mun því eiga nokkurn veiðirétt í Brúará, og einmitt í þeim hyl, þar sem Jóni heitnum Gerrekssyni var drekkt hérna á árunum. En sá hylur kvað vera svo gerður, að hægt er að gersópa öllum kvikum skelmum úr honum þetta er hin eina ráðning, sem menn hafa komið auga á. Mér skildist hv. þm. mundi geta gengið inn á það, að hafa möskva á lagnetunum stærri en ákveðið er í frv. Það er vitanlegt, að eftir því sem möskvarnir eru minni, eftir því veiðist minni lax í netin. Nú er því að vísu haldið fram af sumum, að til séu tvær tegundir af laxi, önnur lítil en hin stærri þetta er þó alls ekki sannað, og vitanlegt er, að laxinn er í fyrstu lítill og stækkar sem aðrar skepnur. Það er því enginn, sem getur mótmælt því með rökum, að laxinn kunni að ganga í árnar á mismunadi þroskastigi. Ef svo er, þá er rétt að hafa netin ekki mjög smámöskvuð, lofa heldur laxinum að vaxa í friði, þar til hann er orðinn verðmætari. En þótt þetta sé nú ekki svo, heldur séu tvö kyn, eins og sumir álíta að sé, þá er það ekki illa til fallið að lofa smálaxinum að hafa frjálsa göngu upp eftir ánum, og þeim, sem ofar búa, leyft að njóta hans og veiða hann þar á löglegan hátt. Hvernig sem því á þetta er litið, þá er rétt að hafa möskvana stóra, svo sem nú er, og þá kemst líka smálaxinn áfram upp eftir ánum. Hv. þm. sagði, í sambandi við það, sem ég sagði um hver möskvastærð væri leyfð í Noregi, að laxinn væri stærri þar. En ég þykist hafa fregnað það frá þeim, sem það vita, að laxinn í Noregi muni yfirleitt vera af líkri stærð og hér. Að vísu gengur hann þar í árnar af mismunandi stærð, alveg eins og hér. Hv. þm. hefir viljað sækja sínar fyrirmyndir til Noregs. Hann ætti því að vilja taka Norðmenn til fyrirmyndar í þessu eins og fleiru.

Hv. þm. talaði um það, að bæði Norðmenn og Skotar hefðu oft orðið að breyta veiðilöggjöf sinni og gera viðtækar friðunarráðstafanir í henni. Ég vil benda hv. þm. á, hvað því muni valda. Það getur að vísu stafað að nokkru leyti af því, að breytt hafi verið um veiðiaðferðir. En ég hygg, að það stafi þó mest frá því, að sett hafa verið heildarlög fyrir stórt svæði, og vegna þess hve svæðið var stórt, en aðstaðan misjöfn, hafa lögin ekki alstaðar getað átt við þetta hefir komið af stað óánægju ýmsra og orðið orsök hinna tíðu breytinga á löggjöfinni. Að við svo lengi hofum getað búið við okkar löggjöf, stafar vafalaust af því, hversu skynsamlega hún var sett í upphafi. Hitt er vandasamara og máske ómögulegt, að búa til svo góða heildarlöggjöf, að alstaðar geti átt við. Og það mun sannast, að þótt við göngum frá slíkri löggjöf nú, svo vel sem föng eru á, þá munu koma fram óskir og kröfur um breytingar, svo vel rökstuddar, að þingið sjái sér ekki annað fært en að taka tillit til þeirra.

Ég veit það, að í frv. eru margar breytingar frá eldri lögunum, sem eru til mikilla bóta og öryggis, ef rétt er með farið. En þá er líka skaðlegt að setja nú heildarlöggjöf um þetta, en láta ekki héraðsstjórnirnar, eins og áður var gert, ráða nokkru um þetta hverja í sínu héraði, eftir staðháttum, um það t. d., hvenær veiði á að byrja og hvenær hún skuli enda. Ég vona því, að hv. deild samþ. brtt. mínar og n., því að þá er þeim málum bezt skipað, að láta héraðsstjórnirnar hafa þennan rétt, eins og áður hefir verið.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta að sinni. En hvort sem þetta þing samþ. þessi lög eða ekki, þá vona ég, að menn ljái eyru við öllu því, er orðið getur til samningar á því, að réttur einstakra manna og héraða sé sem minnst skertur, en að þó séu sett í lögin nægileg ákvæði til þess að tryggja þessa atvinnugrein. Till. mínar og nefndarinnar hníga í þessa átt. En þó má búast við, að þegar lögin koma til framkvæmda, komi það í ljós, að ýmislegt sé afátt við þessa löggjöf og að fram komi till. til breytinga á henni, og það ef til vill áður en langt um líður. Ég vona svo, að samvinna takist um það, að gera þær umbætur á þessu frv., að það verði sæmileg lagasmíð, er til gagns megi verði fyrir þjóðina.