12.04.1932
Neðri deild: 49. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

7. mál, lax- og silungsveiði

Jónas Þorbergsson:

Hv. þm. Borgf. hefir nú í löngu máli gert grein fyrir afstöðu sinni, og eins og oft hefir komið fyrir áður, Þá hefir hann nú reynzt hraustari ræðumaður heldur en aðrir hv. dm. hafa haft þol til að hlýða á. þessi langa ræða hans virðist því hafa orðið þess valdandi, að nokkur upplausn er komin á fundinn. Óttast ég því, er ég tek nú til máls, að færri heyri mái mitt en ég hefði óskað.

Ég get þó verið þakklátur hv. þm. Borgf. fyrir undirtektir hans við brtt. mínar. Skal ég nú í stuttu máli leitast við að gera grein fyrir innihaldi þeirra. Í öðrum tölul. 30. gr. frv. segir svo: „Girðingar mega aldrei ná yfir meira en 1/3 hluta af breidd árinnar og aldrei má girða yfir aðalstraumlínu ár“. Við þetta hefi ég leyft mér að gera brtt., er hljóðar svo: „Girðingar mega aldrei ná lengra en í miðja aðalstraumlínu árinnar“. Mér skilst, að það hafi verið tilgangur þeirra, er sömdu frv., svo og hv. landbn., að koma því til leiðar, að fyrir því sé séð, að laxinn hafi ávallt frjálsa leið til göngu upp árnar. Ég vil benda á, að varhugavert getur verið að setja undantekningarlaus ákvæði um þetta efni. Staðhættir geta verið svo ólíkir, að sitt eigi við á hverjum stað. Þannig getur straumlínan verið í miðri ánni, en veiðivélarnar mega ekki samkv. frv. ná yfir meira en 1/3 af breidd árinnar. Getur það orðið sama og að banna veiðina, en það mun þó ekki vera tilgangurinn með þessu ákvæði. En liggi hinsvegar straumlínan við bakka árinnar, þá er orðalagið í frv. of óákveðið til þess, að ekki geti orðið of nærri því gengið að hefta gönguna. Mér þykir því rétt, að þessu sé svo breytt, að ákveðið sé, að aldrei megi girða eða setja veiðivélar lengra en í miðja straumlínu. Er þá tryggt, að hinn hlutinn veitir veiðigöngunni jafnan óhindraða leið til þess að komast upp eftir ánni. Tel ég því, að með brtt. minni sé betur tryggður réttur veiðieigenda og ekki heldur gengið of nærri veiðinni.

Hin till. fjallar um það, að þar sem hlunnindi rýrna og þar með verðmæti jarðar við framkvæmd þessa frv., ef það verður að logum, þá geti jarðareigandi krafizt endurmats á jörðinni. Það verður ekki hægt að álíta, að skylda beri þá menn, sem með þessum lögum yrðu sviptir veiðirétti eða veiðiréttur þeirra rýrður, til að svara sköttum og öðrum opinberum gjöldum af þeirri eign, sem þannig hefir verið rýrð. Ég held því, að ekki geti orðið ágreiningur um það, að þessi krafa sé réttmæt.

Hv. frsm. sagði, að hagsmunir einstaklinga yrðu að víkja fyrir hagsmunum heildarinnar, þegar þetta rækist á þetta er rétt. En þó er í 13. gr. frv., 3. málsl., gerð undantekning á þessu. Þar er gert ráð fyrir því, að ef laxveiði í sjó hefir verið sérstaklega metin til dýrleika í því fasteignamati, sem ætlazt er til, að öðlist gildi á þessu ári, eða tillit hefir verið tekið til hennar við ákvörðun fasteignaverðs, að hún skuli þá leyfð framvegis. Mér þykir þetta furðulegt ákvæði. Það mun vera ætlun frv. að banna alla laxveiði í sjó. En þarna á að veita undanþágu, ef tekið hefir verið tillit til veiðinnar við síðasta fasteignamat. Mér er kunnugt um það, að á ýmsum jörðum hefir verið beitt veiðiaðferðum, sem nú á að banna, en hingað til hafa verið leyfðar. En þessi nýju ákvæði verða sýnilega til að rýra verðgildi jarðanna. Það hlýtur að minnka við þessa nýju skipun. Ég vil því biðja hv. n. að taka til athugunar þá hlunnindaskerðingu, sem þetta hefir í för með sér fyrir þær laxveiðijarðir, sem gengið hafa kaupum og sölum fyrir miklu hærra verð vegna þessara hlunninda en ella mundi. Og ef hin umgetnu ákvæði 13. gr. þykja réttmæt, vil ég einnig biðja n. að athuga, hvort hún sér það ekki fært að gera ráð fyrir bótum fyrir þessa umræddu hlunnindaskerðingu. í 73. gr. frv. er ráð fyrir því gert, að fyrir missi selveiðinytja vegna þessara laga komi fullar bætur. Að vísu leggur landbn. það til, að 3. málsgr. 73. gr. falli niður, en hún fjallar um skaðabætur til handa þeim jörðum, sem eru eign ríkis, kirkju eða bæjarfélags. En fyrir allar aðrar jarðir, þar sem selveiði er aftekin, eiga að koma fullar bætur.

Nú er það skoðun mín, að þegar almenn löggjöf rýrir eignir, t. d. með því að banna laxveiði í sjó, með því að ófriða sel eða rýra notagildi jarða og verðmæti með skertum veiðirétti, þá sé þó réttmætt, að ekki sé tekið neitt tillit til þess, og að einstaklingar verði að þola það tjón, sem þeir bíða vegna almennra ráðstafana, sem eru til nytja fyrir landsmenn yfirleitt. En ég vil þá líka, að allir sitji við sama borð hvað þetta snertir, og að ekki sé einum bætt upp samskonar tjón og það, sem annar verður að þola bótalaust. Þótt jarðir verði virtar upp, svo menn þurfi ekki að borga skatt af skerðingu eignar sinnar vegna þessara laga, þá er það vitanlega miklu minna en þær bætur, sem öðrum mönnum eru ætlaðar samkv. 73. og 13. gr. En ef vissum flokki manna verður bætt upp, þá á líka að bæta öllum upp, sem skaða bíða, þar til sannað er, að ráðstöfunin skerði ekki lengur verðmæti jarðarinnar. Ég mun því geyma mér rétt til þess að koma fram með brtt. um þetta til 3. umr. En við þessa umr. tel ég það miklu skipta, ef fallizt verður á till. mínar.