15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

7. mál, lax- og silungsveiði

Jónas Þorbergsson:

Ég veit ekki betur en að það sé almenn regla hér í deild, að ef þm., hvað þá n., óskar þess um eitthvert mál, að það sé tekið af dagskrá, þá sé orðið við slíkum tilmælum. Sé ég ekki, að þetta mál sé nokkur undantekning. Er óskað eftir því, að það sé tekið af dagskrá, til þess að till.manni og n. gefist kostur á að athuga það nánar. Er nú búið að afgreiða hér 10 eða 11 mál í dag, og hefir enginn tími gefizt frá umr. til þess að athuga þetta. Í þessari till., sem um er að ræða, er leitast við að bæta úr misræmi, sem er í lagabálkinum. Er ekki rétt að fyrirmuna mönnum að bera sig saman um þetta. Ef hæstv. forseti kýs að beita þeirri aðferð að synja um þetta, þá munu umr. haldast út þennan fundartíma og þann næsta; svo mikill spámaður er ég og kunnugur vinnubrögðum þingsins.