10.05.1932
Efri deild: 71. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

7. mál, lax- og silungsveiði

Magnús Torfason:

Ég hefði kunnað betur við það, að hv. 4. landsk. hefði komið með dagskrártill. sína við 3. umr., eftir að hafa borið þær brtt. fram, sem hann boðaði nú, og svo hefði farið, að d. hefði haft þær að engu. Að öðru leyti get ég verið honum sammála um það, að frv. er ekki fullkomið, og ber margt til þess.

Ég hefi litið svo á, að þetta frv. væri svo undir komið, að farið væri bil beggja, til þess bæði að fullnægja þeim, sem búa ofar við árnar, sem þá vanalega eru smáar, og eins hinum, sem búa neðar við árnar, sérstaklega stórárnar, og býst ég við, að þeir annmarkar, sem hv. 4. landsk. benti á, stafi af þessu. Hinsvegar get ég þó ekki gert lítið úr því, að með þessu frv. ef að lögum verður, er komin hreyfing á þetta mál. Hafa verið gerðar margar og ítrekaðar tilraunir áður til þess að breyta laxalögunum, sem nú eru í gildi, en þó að þjóðkunnir þingskörungar hafi lagt sig í framkróka í þessu efni, hefir engin leiðrétting þar á fengizt. Það er ekki vafi á því, að gildandi löggjöf verður til þess, að veiðin þverrar í ánum, eins og reynsla síðustu ára hefir sýnt, og enda er játað hér í d. En ég verð að líta svo á, að yrði þetta frv. að lögum, sé það fyrst og fremst til þess að fá reynslu, en hún fæst engin af l. eins og þau eru, en það er hinsvegar hægt að gera sér vonir um ýmiskonar reynslu af nýjum lögum, sakir þess, að ætlazt er til mikils félagsskapar meðal manna, sem hafa laxveiðinot, en það er held ég áreiðanlegt, að allt mundi standa í stað og hver höndin verða uppi á móti annari, ef ekki kemur ný löggjöf með reynslu í þessum efnum. Það er ekki vafi á því, að það, sem einkum veldur erfiðleikum um að setja löggjöf um þetta efni, er sú staðreynd, að árnar og veiðivötnin eru ein óslitin heild, því að öll áin er nauðsynleg fyrir veiðina, eins langt og fiskur gengur. Það væri því eðlilegast, að arðurinn af veiðinni kæmi mönnum að gagni í félagi, en eins og stendur er ekki vafi á því, að ekki er hægt að koma á slíkum félagsskap. En þegar þessi löggjöf er komin á og mönnum þannig er þrýst til félagsskapar um það, sem að veiðinni lýtur, klak o. fl., t. d. ófriðun selsins, efast ég ekki um, að menn muni laðast til að líta á ána sem eina óslitna heild og lærast að taka laxinn þar, sem það er arðvænlegast og kostnaðarminnst og hann verður bezt vara, og að smáarnar verða aðeins notaðar til stangarveiða. Ég skoða því frv., þó að ófullkomið sé, sem nauðsynlegan undirbúning til að fá betri og fullkomnari löggjöf um þetta efni. Játa ég, að ýmsir agnúar eru á frv., sem ég hefði kosið lagfærða, en þar sem ég get ekki búizt við því, að frv. nái samþykki þingsins nú, ef farið verður að breyta því, hefi ég snúizt að því að vera með frv. eins og það liggur fyrir. Hvað snertir veiðarnar í þeirri ánni, sem mér er næst, er mér það nægilegt, að selurinn er ófriðaður í ánni með þessu móti. Er það ákvæði, sem hefir verið borið upp á mörgum þingum, en fyrir öfugstreymi tímanna og örlaganna hefir það aldrei náð fram að ganga, eins sjálfsagt mál og það er. Er það sérstaklega 72. gr. frv., sem um þetta hljóðar, og vil ég leyfa mér að lesa hér upp tvær línur úr þessari grein:

„Nú eru friðlýst selalátur eða selalagnir í veiðivatni eða nær árósi, er lax og göngusilungur gengur í, en 7 km., og skulu þau þá ófriðuð“.

Þegar maður les þessa setningu, virðist hún lítt skiljanleg, en laxafræðingurinn okkar hefir skýrt frá því, að orðin „nær árósi“ eigi við strandlengjuna beggja megin árinnar, og að ekki megi friða selalátur á því svæði. Skilst ákvæðið með þessu móti, og er þá vei farið.

Ég skal ekki fara mikið út í þetta mál á þessu stigi þess, en ég vil þó leiða athygli að 33. gr. frv. Hún hljóðar svo:

„Nú rennur á í kvíslum, og skal þá svo haga veiði í kvísl hverri, sem væri hún sjálfstæð á“.

Í 1. gr. frv., sem kveður á um merkingu ýmsra orða, finnst ekki orðið kvísl þetta gæti því átt við allar kvíslar, hve litlar sem eru, og eins smásandkvíslar, sem breytast frá degi til dags. Slíkar sandkvíslar eru jafnan nær árósum, og ef ákvæðið væri skilið eftir orðanna hljóðan, mundi það gera það að verkum, að enginn lax yrði veiddur a. m. k. upp undir Arnarbæli í Ölfusi. Nú vill svo til, að í orðaskýringunum er talað um leirur, og eru leirur kallaðar þau svæði við sjó, sem þurr eru eða með grunnum vöðlum um stórstraumsfjöru, en sjór fellur yfir um stórstraumsflóð. Skilst mér, að sandkvíslar falli undir þessa skýrgreiningu á orðinu „leirur“ og ef skilja á orðið kvísl í samræmi við þetta, þannig, að það eigi ekki við um hinar svokölluðu leirur, get ég sætt mig við það fyrir mitt leyti, en ég verð þó að krefjast þess, að þeir menn, sem einkum standa að þessu máli, og á ég þar sérstaklega við hæstv. forsrh. og hv. frsm. meiri hl., lýsi yfir því, hvort rétt sé, að skýra eigi ákvæði 33. gr. í samræmi við skýrgreininguna á orðinu leirur í 1. gr., þannig, að kvísl eigi ekki við þau svæði.

Ég hefi þá von, að sá félagsskapur, sem hlýtur að myndast, ef frv þetta verður að lögum, geri það léttara og hjálpi til þess, að menn hlýddu betur þessum lögum en hingað til hefir orðið, a. m. k. þar, sem um er að ræða sameiginlega hagsmuni manna á allstórum svæðum. Og ég get lýst því yfir fyrir mitt leyti, að ef svo væri ekki, þá er tilgangslaust að setja lög um þetta efni. Þess vegna legg ég áherzlu a, að frv. þetta nái fram að ganga, að ég er þeirrar trúar, að þessi félagsskapur komist á. Fyrr en sú félagshugsun, sem í frv. felst, hefir náð rótum, býst ég við, að slík lög komi ekki að neinu verulegu gagni.