11.05.1932
Efri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

7. mál, lax- og silungsveiði

Pétur Magnússon:

Það hefir ekki verið mikill ágreiningur um það hér í d., að þetta frv. er allmjög gallað. Hefi ég áður drepið á skoðun samnm. minna á ljós, að frv. væri á margan hátt gallað, og í gær kom þetta sama fram bæði hjá hæstv. forsrh., og hv. 2. þm. Árn. Ágreiningurinn stendur því ekki um það, heldur greinir okkur á um, hverja afgreiðslu málið eigi að fá að þessu sinni. Samnefndarmenn mínir, og eins þeir hæstv. forsrh. og hv. 2. þm. Árn., telja heppilegast að samþykkja frv. nú, með það fyrir augum að endurbæta þessa löggjöf á næstu árum, en ég er á annari skoðun um þetta. Ég óttast það, að ef slíkur lagabálkur sem þessi verður samþ. nú, um efni, sem eins miklum vandkvæðum er bundið að setja lög um, muni svo fara, að langur tími líði áður en hafizt verður handa öðru sinni um endurskoðun þessarar löggjafar.

Það er öllum ljóst, mér ekki síður en öðrum, að hin mesta þörf er á að endurskoða þá löggjöf, sem við nú eigum við að búa í þessum efnum. Gildandi laxveiðalöggjöf er mjög ófullkomin, og enda hætta á, að lagveiðin rýrni mikið og upprætist jafnvel með öllu í sumum ám, ef haldið er áfram eins og nú er gert. Hinsvegar er enginn vafi á því, að unnið verður hvíldarlaust að því að fá hætta löggjöf í þessum efnum, ef afgreiðslu málsins verður frestað nú, og hefi ég því gert það að till. minni, að málinu verði vísað til stj. til frekari undirbúnings. Ég hefi að vísu ekki gert neinar til. um það, á hvern hátt stj. héldi áfram þessum undirbúningi, en ég geri ráð fyrir því, að stj. mundi skipa mann eða menn til að endurskoða frv. og breyta því í það horf, sem nauðsynlegt er, til þess að ná því takmarki, sem liggur á bak við þessa löggjöf.

Í mínum augum er skynsamlegra að fresta málinu í þetta sinn, svo að hægt sé að vinna áfram að undirbúningi þess, en að fara að samþykkja þetta frv., sem allir eru sammála um, að sé mjög ófullkomið, enda hefir reynslan sýnt það, að þegar slíkir lagabálkar sem þessi hafa náð gildi, hefir ætíð liðið langur tími þangað til hafizt hefir verið handa um endurskoðun þeirra.

Hæstv. forsrh. byrjaði ræðu sína í gær með því að fara nokkrum orðum um þá menn, sem unnið hafa að undirbúningi frv., og notaði hann sterk orð til þess að lofa þá. Var þó óþarfi af hæstv. ráðh. að fara að taka málstað þessara manna sérstaklega, því að ég hafði ekki á þá ráðizt, en er þvert á móti viðurkenningarorðum um þá, og játaði um einn þeirra, að hann hefði meiri þekkingu á lífsháttum laxins og göngum en nokkur maður annar hérlendur. En þó að hér eigi þannig góðir menn í hlut, hefir það ekki áhrif á mig í þá átt, að ekki megi gagnrýna verk þeirra, og ef frv. er gallað, eins og hæstv. forsrh. játar að sé, er það ekki betra fyrir það, þó að góðir menn standi að því, þótt ég véfengi því ekki, að hér eigi góðir menn hlut að máli, er mér hinsvegar engu síður ljóst, að þeir hafa ekki skilning á því, hver þáttur laxveiðin gæti verið í atvinnuvegum landsmanna og hvílíka auðsuppsprettu hér er um að ræða, ef hún væri hagnýtt svo sem vera ætti. Það er sýnilegt, að höfundar frv. hafa ekki kynnzt atvinnuhlið þessa máls, og sá þeirra, sem mest áhrif mun hafa haft um samning frv., mun að kalla eingöngu hafa stundað haustveiðina, sem er miðuð við það að veiða til heimilisþarfa aðallega. Getur að vísu verið, að menn álíti þetta rétta meðferð á laxveiðunum, en það er á misskilningi byggt.

Hæstv. forsrh. gat þess, að laxveiðarnar hefðu gengið til þurrðar síðan á dögum Árna Magnússonar, og vildi hann með því rökstyðja nauðsynina á nýrri laxveiðalöggjöf. En það er enginn ágreiningur um það, að þörf sé að breyta núgildandi löggjöf í þessum efnum. Um það eru allir sammála. Hinsvegar vil ég leiða athygli að því, að ekki verður mikið upp úr því lagt, þó að laxveiði hafi sumstaðar verið talin mikil á dögum Árna Magnússonar, þar sem hún er lítil nú eða jafnvel þorrin með öllu. Á þeim tímum þekktu menn ekki þau veiðitæki, sem nú eru notuð, en munu eingöngu hafa veitt í ádrátt, en síðan farið var að veiða neðan til í ánum og meginið af laxinum tekið þar, er ekki nema eðlilegt, að laxinn hafi minnkað í smáánum, svo að þetta sannar það engan veginn, að laxinn hafi gengið til þurrðar frá því á dögum Árna Magnússonar. Og ég efast ekki um það, að laxveiðin hafi verið rekin af sama skilningsleysinu þá sem nú, og laxinn veiddur á hrygningarstöðvunum og aukningin því aldrei eins mikil og hún hefði getað orðið.

Þá gat hæstv. forsrh. þess, að í Nd. hefði verið barizt um ósaveiðina, en mín afstaða til þessa máls er önnur. Ég lít svo á, að réttmætt sé að takmarka ósaveiðina, en með því skilyrði þó, að laxamergðin í ánum sé aukin. Fæ ég ekki séð, að neinn siðferðislegur réttur sé til þess að banna mönnum að veiða laxinn við árósana, þar sem hann er mjög mikils virði, ef hann síðan er veiddur eftir tvo mánuði ofar í ánum og þá ekki nema mjög lítils virði. En hinsvegar álít ég réttmætt, eins og ég áður sagði, að takmarka ósaveiðina, ef svo er um búið, að það verður til að auka laxgengdina í ánum, því að slíkt kemur öllum jafnt að góðu og gefur meiri veiði. Ég þóttist hafa sýnt fram á það með rökum, að þessi löggjöf væri ekki líkleg til að auka veiðina, en hinsvegar miðar hún að því að jafna veiðina með því að takmarka veiðina við ósana, til þess að laxinn síðan sé veiddur í uppánum, þar sem hann er lítils virði, eins og veiðin er rekin enn þann dag í dag. Það gladdi mig þó að heyra, að hæstv. forsrh. er fús til samvinnu um að lagfæra frv., og nefndi hann þar sérstaklega til meiri takmörkun á ádráttarveiðinni, og virtist jafnvel tilleiðanlegur til að samþ. alfriðun á tilteknum hyljum í ánum. En það er því miður engin leið að lagfæra frv. nema með því að umsteypa því frá rótum, og slíkt verður ekki gert nema með miklum undirbúningi og mikilli vinnu, því að það verður að vinna á öðrum grundvelli en laxveiðan. gerði. Ég vil þó ekki með þessu segja, að ekki sé hægt að lagfæra frv. í einstökum atriðum, og ég er þakklátur hæstv. forsrh. fyrir það, að hann er fús til samvinnu um að bæta úr helztu ágöllunum, en að því er snertir takmörkun ádráttaveiðinnar og alfriðun einstakra hylja, þá hefi ég litla trú á, að slík lagaákvæði megi koma að gagni, vegna þess, hve erfitt verður að hafa eftirlit með því, að l. sé framfylgt. Þeir, sem þekkja til veiðiskapar, vita það, að í fáum efnum er erfiðara að fara ekki út fyrir settar reglur. Ef menn vita af veiðinni, freistast þeir til að taka hana, hvað sem l. segja, og ef menn á annað borð mega draga á, er ég hræddur um, að þeir muni ekki, hvaða drættir eru friðaðir og hvaða drætti þeir mega fara í.

Þá drap hæstv. ráðh. á ákvæði 3. gr. frv. Ekki gerði hann neina tilraun til að sýna fram á, að almenningsþörf krefðist, að veiði, sem skilizt hefði frá jörðu, væri sameinuð henni aftur. Hann sagðist aðeins ekki trúa því, að jafngóður lögfræðingur og Ólafur próf. Lárusson léti frá sér fara frv., er fæli í sér brot á stjskr., en annars væri það lögfræðinganna að dæma um, hvort svo væri. — Nú vil ég aðeins benda hæstv. ráðh. á það, að enga lögfræðiskunnáttu þarf til að skapa sér sjálfstæða skoðun á þessu atriði. Ráðh. á að vera eins fær um að leita eftir almenningsþörfinni í þessu efni eins og hvaða lögfræðingur sem er. Það þýðir honum því ekki að ætla að skjóta málinu frá sér á þennan hátt — þótt hann. sýnilega hafi ekki komið auka á „almenningsþörfina“. Hæstv. ráðh. sagði, að menn ættu ekki mikið á hættu, þó að ákvæði þetta væri lögfest, enda þótt það komi í bága við stjskr., því að þá væri ekki annað en leita dómstólanna. En ég hélt nú sannast að segja, að það væri ekki síður í verkahring forsrh. en annara, er sæti eiga á Alþingi, að gæta þess, að löggjöfin fari ekki út fyrir þær takmarkanir, er stjskr. setur. Og hverrar verndar, sem menn annars mega vænta frá dómstólunum gegn hinu alm. löggjafarvaldi, þá held ég, að heppilegast sé, að til hennar þurfi ekki að taka. Þinginu ber vissulega skylda til að gæta þess vandlega, að eigi séu sett lög, er reka sig á stjórnskipulög landsins.

Hv. 2. þm. Árn. sagði, að þó að hann væri mjög óánægður með frv., rá vildi hann gera tilraun með það. En ég vil segja honum, að það þarf enga tilraun að gera með slíka lagasetningu. Það er fyrirfram vitað, hvernig hún reynist. Niðurstaðan verður nákvæmlega hin sama og hingað til hefir verið. Árnar verða tæmdar af laxi eftir því sem föng standa til. Munurinn aðeins sá, að verðgildi hans verður minna. Hv. d. ætti því að geta sparað sér þá tilraun, sem hér er um að ræða.