11.05.1932
Efri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

7. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Hv. 4. landsk. hélt því fram, að í raun og veru væri ekki ágreiningur um það, að á frv. væru alvarlegir ágallar. Ég verð að mótmæla því fyrir hönd meiri hl. n. Meiri hl. n. vill ekki kannast við það, að á frv. séu alvarlegir gallar, heldur aðeins nokkur smíðalýti, sem ég benti á, að væri á frv., t. d. í 82. gr. En hv. 4. landsk. hefir ekki talið það svo mikilvægt, að hann hafi minnzt á það. (PM: Það er nú bara aukaatriði). Já, hv. þm. segir eins og rétt er, að það sé bara aukaatriði. En þetta atriði, sem hann minntist á um ádráttarveiðina, getur orkað tvímælis. En þó hygg ég, að ákvæðin um hana séu tvímælalaust til bóta frá því, sem nú er. Og þá tel ég löggjöfina ekki stórgallaða þegar yfirleitt allir verða að viðurkenna, að hún er til stórbóta, þótt tvímælis orki um, hvort hún mætti vera enn betri.

Hv. þm. hélt hér langan fræðilestur um laxagöngur, og er ég honum þakklátur fyrir það, því að hann er fróður um þá hluti. Um það er ekki nema gott að segja, og vitanlega er það rétt, sem hann sagði, að tilgangur frv. ætti að vera fyrst og fremst að auka heildararð af laxveiði. Ég lít svo á, að ýms ákvæði þessa frumv. séu vel fallin til þess að auka heildararð af laxveiðinni, og þess vegna er ég með því, að frv. verði leitt í lög. Það voru líka nokkur atriði, sem mér fannst hann leggja höfuðáherzluna á, fyrst og fremst það, að ádráttarveiði væri ekki bönnuð. Það getur verið, að til þess væri nokkur ástæða, en tvímælalaust er gengið lengra í þá átt með þessu frv. en nú í gildandi l., því að fyrst og fremst er hún takmörkuð að því leyti, að ekki má draga öðruvísi en að 1/3 af breidd árinnar sé frjáls, og svo má ekki stunda aðdráttarveiði nema 3 daga í viku, í staðinn fyrir 6 daga eins og er í núgildandi l. Svo þetta virðist vera til bóta frá núgildandi l., jafnvel frá hans sjónarmiði. Ég taldi það dálítið varhugavert að gera svo mikla breyt. frá því, sem nú er, að banna alveg ádrátt, meðfram af því, að ár eru ekki svo rannsakaðar sem skyldi. Pálmi Hannesson, sem mest hefir kynnt sér þetta í ám á Suðurlandi, er þó alls ekki klár á því, hvar hrygningarstaðirnir eru helzt. Ég held því, að það sé of stórt spor stigið með því að gera þetta í einu vetfangi. En áhugi manna hefir mikið aukizt á seinni árum og menn munu því meir leggja sig eftir þessu, og ef framtíðin leiðir í ljós, að á þessu sé þörf, að þarna sé gengið lengra, þá efast ég ekki um, að þetta verði gert innan skamms tíma. Ég sé ekki annað en að ákvæði frv. í þessu aðalatriði hv. þm. séu til stórbóta frá núgildandi l., þó að ekki sé gengið eins langt og frsm. minni hl. vill. Hann segir, að hægt sé að sópa ána, þó að svo sé ákveðið, að 1/3 af breidd árinnar sé frjáls. Ég held, að varla sé hægt að hugsa sér það. Laxinn styggist og flýr í hann þriðja partinn, sem eftir er.

Þá hélt hann því fram, að ekki væru nógu ströng ákvæðin í 18. gr., að friða mætti árnar. En þó er þetta miklu meiri heimild til að friða ár og banna veiði heldur en nú. Í núgildandi l. er ekki nein heimild til að banna veiði í ám.

Þriðja atriðið, sem hann minntist á viðvíkjandi veiðinni, var að heimilt væri að veiða of langt fram á haustið. Ég býst við, að það sé nokkuð til í því, en menn eru ákaflega viðkvæmir fyrir þessu, sérstaklega á Suðurlandi. á Norðurlandi er veiði ekki stunduð svo langt fram eftir haustinu. á Suðurlandi er það brennandi kappsmál fyrir mönnum, að þessu séu ekki of mikil takmörk sett. Eftir 1. má veiða í 3 mán., en það er lagt á vald sýslunefndar í hverju héraði, hvaða 3 man. Það eru. Þetta er þrátt fyrir allt ekki til spjalla frá núgildandi lögum.

Þá er það stjórnarskrárbrotið, sem hv. þm. hafði mest við að athuga. Hann telur 2 ákvæði í frv. stappa nærri því að vera stjórnarskrárbrot. Ólafur Lárusson ætlaði að láta mig hafa ýms „sítöt“ til þess að sýna fram á fordæmi. En ég er ekki búinn að fá þau enn. Ég verð að segja eins og hæstv. forsrh., að mér finnst, að okkur leikmönnum sé vorkunn, þó að við byggjum á því, sem prófessorar í lögum og hæstaréttardómarar telja tvímælalaust öruggt gegn stjórnarskrárbroti. Og þó að lögfræðingar heimti stundum, að við tökum mikið tillit til þeirra, þá finnst mér þó, að þeir geti skilið það, að að vissu leyti sé það almenningsþörf, sem krefst þess, að ganga laxins sé ekki heft meira en það, að ekki séu lögð net lengra en 1/3 úr í ána. (PM: Hver er að tala um stjórnarskrárbrot í þessu sambandi?). Það getur verið, að hv. þm. telji það ekki nú, en það hefir þó áreiðanlega borið á góma hjá honum.

Samkv. 3. gr. er það vitanlegt, að við litum yfirleitt svo á, að jörðum sé það fyrir beztu, að þær séu ekki rýrðar að þeim hlunnindum, sem þeim hafa fylgt frá fornu fari, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi. En nú getur það orðið álitamál í hverju tilfelli, og skal ég ekki segja, hvort þessu verður framfylgt, en þó finnst mér rétt, að svona ákvæði standi, ef þau koma ekki í bága við stjskr. Um það atriði finnst mér ástæða til að byggja á Ólaf Lárusson, sem hefir kynnt sér þetta sérstaklega.

Þá var það eitt atriði, sem hv. frsm. minni hl. taldi mjög athugunarvert, og það er um þetta, að veiði eigi að láta fylgja ábúð, þegar jörð er leigð samkv. 2. gr., og það bendir til þess, að menn hugsa sér þetta til þess að fá í soðið, en ekki sem atvinnuveg. Það er rétt, að jarðir halda þeim hlunnindum, sem þær hafa haft frá fornu fari. Hinsvegar er opnuð leið til þess samkv. 1., að menn geti stundað félagsveiði og veitt á heim stöðum, sem hagkvæmast er, ef menn leggja mikið upp úr því að stunda veiði til sölu. Þetta getur vel samrímzt l. Þá er trygging fyrir því, að menn upp með ánum geta notið veiðinnar, og ef menn telja arðvænlegra fyrir fiskihverfin að stunda veiði vegna sölu, þá geta þeir stundað veiði í félagsskap.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Arn. sagði, þá varð ég forviða á því, að hann skyldi halda því fram, að þessi lagabálkur væri ófullkominn. Mér finnst, að til hans hafi verið vandað meira en til margra annara 1. Hvað því viðvikur, sem hann talaði um 33. gr., þá svaraði hæstv. forsrh. því, að vitanlega væri ekki í 33. gr. átt við kvíslar á leirum, heldur fastar kvíslar í föstum farvegi, en ekki í breytilegum ám eða sandi.

Þá er um þetta að ræða, hvort ástæða er til að samþ. frv. Ég þykist hafa leitt rök að því, að á því eru svo miklir kostir, að mikils virði er að fá það samþ. Hinsvegar get ég ekki fallizt á, að á því séu neinir þeir gallar, sem geri það óumflýjanlegt að lagfæra frv. á þessu þingi. Nú er að okkar allra áliti liðið að þinglausnum, og því virðist ekki fært að hrekja málið milli d. fyrir ekki stærri hlut en þetta.