11.05.1932
Efri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

7. mál, lax- og silungsveiði

Pétur Magnússon:

Ég þarf engu að svara hv. 2. landsk., þar sem við erum sammála í nálega öllum atriðum, en greinir aðeins á um það, hvaða afgreiðslu frv. eigi að fá. Hann telur, að frv. gangi of skammt, en af því að hann sér kosti á því, ætlar hann að greiða því atkv. eins og hv. 2. þm. Árn.

Ég sé ekki, hvernig þetta frv. á að koma til framkvæmda nema veiðimálastjórn sé skipuð strax, en það á hún ekki að verða eftir frv. Ýms ákvæði frv. eru bundin við það, að veiðimálastjóri taki þegar til starfa, og því er ófært að fresta því.

Mig greinir litið á við hv. 2. þm Árn. Hann talaði um sömu kosti frv. og ég í gær, veiðifélögin, ófriðun sels, klak, veiðimálastjórn o. þ. h. Þetta er allt til framfara, eins og ég hefi þegar tekið fram. Að vísu er heimilt að stofna félagsskap um veiði eftir laxveiðalögunum frá 1886, en hér eru nánari ákvæði, sem verða til að ýta undir, að stofnun slíks félagsskapar komist í framkvæmd. Hinsvegar legg ég lítið upp úr ákvæðinu um friðun í hyljum. Hv. 2. þm. Árn. sagði, að með því væri vitnað til drengskapar manna. Ég skal ekki bera brigður á þennan drengskap, en hv. þm. veit eins vel og ég, að freistingin er sterk fyrir veiðimenn að fara út fyrir settar reglur. Þar að auki myndi þetta ákvæði sjaldan koma til framkvæmda, því að í 18. gr. stendur, að því skuli ekki beitt nema þar, sem laxinum sé gereyðing búin að öðrum kosti. Ákvæði þessu yrði því óviða beitt og myndi því sjaldan verða til þess að auka laxveiðina í ánum.

Hv. þm. var að tala um, að ekki þýddi fyrir okkur að vera að spá um reynsluna af þessari löggjöf. Við höfum þegar reynsluna. Frv. gerir ekki aðra breyt. á tilhögun veiðinnar en að flytja veiðina til, að neðan og upp eftir. Því getum við sparað okkur alla spádóma.

Ég vil þessu næst drepa á nokkur atriði hjá hv. frsm. meiri hl. Hann kvað mig hafa viðurkennt, að allar breyt. frv. væru til bóta. Þetta er alveg óskiljanlegur misskilningur. Það er rétt, að sumt er til bóta, en sumt hreint og beint til skaða, eins og ákvæði 2. og 3. gr., og jafnframt sú höfuðbreyt. að flytja veiðina neðan að og upp eftir ánum. Takmörkun á ósaveiði er góð, ef hún verður til að auka veiði í ánum, en hitt er afturför, að banna laxveiði þar, sem laxinn er verðmestur, en leyfa hana þar, sem hann er verðlaus.

Það er alveg rétt hjá hv. 2. landsk., að smáárnar gefa bændunum mestan arð þannig, að þær séu leigðar til stangarveiði og aldrei komi net í þær.

Þá minntist hv. þm. á aðra gr., þar sem gert er að skyldu að láta veiði jarðar fylgja ábúð. En ef svo stendur á, að veiðin er miklu verðmætari eiganda en hún getur orðið ábúanda, hví á þá að taka samningsréttinn af mönnum“ Þannig getur staðið á, og hlýtur þetta ákvæði þá að verða til tjóns fyrir annanhvorn. Vel má hugsa sér, að á, sem leigujörð á land að, hafi verið leigð til stangarveiði um ákveðinn tíma. Svo rennur sá leigutími út og þá á eigandinn að vera skyldur til að leigja ábúanda ána. Nú vill eigandi leigja ána áfram til stangarveiði til að fjölga laxinum og hafa meira upp úr ánni. Leiguliði vill hinsvegar fá ána til að veiða í soðið. Eins og sumir hv. þm. vilja. Nú verður landeigandi annaðhvort að losa sig við leigjanda, eða að áin verður honum einskis virði, því að ekki er hægt að hækka afgjald jarðarinnar, svo að teljandi sé, þótt áin fylgi með, af því að veiðin verður leiguliða svo lítils virði.

Þá er 3. gr. Ég ætla ekki að deila við hv. frsm. um hana, en ég hefi ekki heyrt færð fram nein rök gegn því, sem ég hefi sagt. Hann taldi halda því fram, að ég hefði sagt, að það væru fleiri stjórnarskrárbrot í frv., og nefndi þar til takmarkanir á netalengd o. fl. En þetta er misskilningur. Ég ympraði aðeins á, að ákvæði 15. gr. gætu verið hæpin, þar sem bannaður er ádráttur í ósum í sjó og leirum við sjó. Þarna stendur svo á, að tekinn er af mörgum arðberandi veiðiréttur án þess að nokkuð komi í staðinn. Veiðieigendur missa með öllu veiði sína og arð af ánni. Þeir geta ekki hagnýtt sér veiðina nema á þennan ein. hátt, en hagsmunir annara heimta, að þeim sé bönnuð þessi eina veiðiaðferð, sem þeir geta notað. Ég er í vafa um, hvort hægt er að taka þennan veiðirétt af mönnum án endurgjalds. A. m. k. eiga hlutaðeigendur sanngirniskröfu til þess að fá bætur.

Ég hefi nú drepið á aðalatriðin, sem hv. frsm. meiri hl. gerði að umtalsefni, og læt því útrætt um málið.