08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

1. mál, fjárlög 1933

Guðbrandur Ísberg:

Á þskj. 360 á ég brtt. við brtt. fjvn. á þskj. 257, 13. tölul. Í fjárlagafrv. fyrir 1933 er gert ráð fyrir 100 þús. kr. skrifstofukostnaði sýslumanna og bæjarfógeta. Hefir hv. fjvn. lagt til, að þessi liður verði Iækkaður niður í 90 þús. kr. Ég vil ekki fullyrða, að eigi kunni að vera hægt að lækka þennan lið eitthvað, en mér finnst n. ganga alltof langt í þessu. hér verður að taka tillit til þess, að margskonar breytingar á löggjöfinni, sérstaklega með tilliti til innheimtu tolla og skatta, hefir aukið stórkostlega þau störf, er sýslumönnum og þó sérstaklega bæjarfógetum í kaupstöðum, er ætlað að inna af höndum, og hefir það óhjákvæmilega leitt til þess, að þeir hafa orðið að fjölga starfsfólki sínu. Í þessu sambandi má benda á, hversu gífurlega skrifstofukostnaður í stjórnarráðinu, hjá tollstjóra, logreglustjóra og lögmanni í Rvík hefir hækkað síðustu arin. Þessir embættismenn fá allir skrifstofufé greitt samkv. reikningi, og má því ætla, að reikningar þeirra sýni útgjöldin í réttu hlutfalli við aukningu starfanna, vegna vaxtar bæjarins og breyttrar löggjafar. En í hinum hraðvaxandi kaupstöðum utan Rvíkur hafa hlutaðeigandi embættismenn orðið að greiða hinn aukna embættiskostnað af aukatekjum sínum eða jafnvel launum, að mestu eða öllu leyti. Að því er snertir sýslumenn úti um land, í hreinum sveitahéruðum, kann það að vera, að ekki hafi aukizt til muna skrifstofukostnaður þeirra. T. d. vil ég geta þess, að fólki hefir fjölgað á Akureyri tvö síðustu árin sem svarar íbúatölu Akraneskauptúns, og vil ég sérstaklega beina þeim upplýsingum til hv. þm. Borgf. Má af því ráða, hvort ekki muni slík fólksfjölgun kaupstaðarins ein saman hafa aukin störf í för með sér fyrir bæjarfógetann, sem þó ekki hefir fengið neina hækkun skrifstofukostnaðarins í mörg ár. Get ég í þessu sambandi upplýst það, að á Akureyri hefir skrifstofufé bæjarfógeta aðeins numið 10 þús. kr. á ári. Hefir bæjarfógetinn orðið að hafa 4 menn á skrifstofunni síðustu árin, og borgað þeim 1400–1500 kr. á ári, auk þess sem hann hefir orðið að kaupa ýmsar nauðsynjar til skrifstofunnar. Hefir hann þannig af aukatekjum sínum orðið að borga yfir 5000 kr. á ári í beinan skrifstofukostnað. Nú hafa aukatekjur þessara embættismanna lækkað, og munu gera það enn meira síðar vegna yfirstandandi kreppu. T. d. má benda á, að nú gefa uppboð í kaupstöðum ekki tekjur lengur, en oft skaða. Bæjarfógetinn á Akureyri mun t. d. hafa haft undanfarið 1500–2000 kr. aukatekjur af uppboðum. Eru þessar tekjur nokkurnveginn vissar í sveitahéruðum, en í kaupstöðum eru þær orðnar mjög vafasamar og geta horfið með öllu, og enda orðið neikvæðar, þegar illa árar vegna greiðslugetuleysis fólks þess, sem kaupir á uppboðum og sumt freistast til að kaupa par, af því að það getur ekki keypt nauðsynjar sínar annarsstaðar. T. d. varð nýlega á Akureyri 700 kr. tap á uppboði, er það var gert upp, og leit út fyrir, að embættismaðurinn yrði að greiða það að mestu eða öllu leyti. Kemur þetta af því, hve öll innheimta er erfið nú á tímum, og þá ekki sízt þegar um dreifðar smáskuldir er að ræða.

Um aðrar aukatekjur bæjarfógeta í kaupstöðum er það að segja, að þær hljóta einnig að lækka mikið vegna innflutningshaftanna, án þess þó að hægt sé að gera ráð fyrir, að þeir geti þess vegna dregið úr skrifstofufólkshaldi. Að því er t. d. bæjarfógetann á Akureyri snertir, hefi ég áður bent á, að hann hefir orðið undanfarið að greiða ca. 5000 kr. af aukatekjum sínum í skrifstofukostnað. Nú má telja víst, að aukatekjurnar hrökkvi ekki til lengur, og verður hann þá að greiða það, sem á vantar, af sínum föstu launum. Og ef þar á ofan á að klípa af því skrifstofufé, sem hann nú fær greitt, sjá allir hvert stefnir.

Ég hefi hér sérstaklega bent á, hvernig viðhorfið er að því er bæjarfógetæmbættið á Akureyri snertir, af því að þar er ég kunnugur, en ég geng út frá því, að sama eða svipað megi segja um bæjarfógetaembætti í öðrum kaupstöðum utan Reykjavíkur. Og menn ættu að geta sagt sér sjálfir, að þeir embættismenn, sem svo lítið skrifstofufé fá, að þeir verða að launa starfsfólk sitt að einum þriðja af aukatekjum sínum, eða jafnvel föstu launum, muni ekki greiða hærri laun en þeir minnst komast af með, og geta því illa lækkað þau laun frá því sem nú er.

Ég hefi því gert brtt. um hað, að þessi liður verði hækkaður um 5000 kr. frá því, sem fjvn. leggur til, og er þá eftir till. minni 5000 kr. lækkun frá því, sem er í fjárl.frv. stj. Ég hefi ekki viljað ganga lengra en þetta, því að hugsanlegt er, að eitthvað megi klípa af skrifstofufé sýslumanna, sem litla eða jafnvel enga vinnu þurfa að kaupa til starfrækslu embættisins. Ég er þessu ekki nógu kunnugur, en mér virðist, að lækkunartillaga hv. fjvn. gefi tilefni til að ætla, að þetta kunni að vera hægt. En í kaupstöðum, þar sem fólkinu hefir fjölgað svo mjög síðustu arin og störfin farið sívaxandi ár frá ari, án þess að skrifstofuféð hafi verið hækkað, þar veit ég, að ekki er hægt að lækka skrifstofufé, án þess beinlínis að hrekja hlutaðeigandi embættismenn úr embætti. Ég vil biðja hv. fjvn. að athuga þetta. Ég ætla, að henni hafi ekki verið það ljóst, hvernig afstaða bæjarfógetanna er í þessu efni.