01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

12. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Lárus Helgason:

Þetta mál er svo vax- ið, að varla getur talizt óeðlilegt, þótt ég segði nokkur orð um það. Ég skal þó ekki eyða miklum tíma frá þinginu.

Mér hefir virzt, að þetta, að brúargerðum og landvörnum hefir verið blandað saman, hafi frá byrjun tafið fyrir framgangi brúarmálanna. Er það líka eðlilegt, því að enginn getur enn sagt það með nokkrum líkum, hvað mikið muni kosta að koma vötnunum þarna í eitt svo varanlega, að fullt gagn verði að. Hið eina, sem ég trúi á, að takast megi í þessu máli, er sú leið, sem nú er ákveðin, að brúa vötnin og byrja þá á Hvera og Affalli. Ég hefi oftsinnis og á öllum árstímum farið yfir þessi vötn og þykist þeim því sæmilega kunnugur. Og ég veit það, að á veturna breyta þessi vötn sér svo, að erfitt mun að gera þá fyrirhleðslu, sem dugir til þess að ná valdi yfir heim. Hitt mun sönnu nær, að láta náttúrna ráða sem mestu, en búa svo um hnútana með þær brýr, sem settar verða, að þær komi að fullu gagni sem samgöngubót án tillits til þess, hvort vatnsmagnið rennur í Hverá, Markarfljót, Affall o. s. frv. En á því hefi ég litla trú, að það borgi sig að vernda einhverja landshluta, sem eru hverfandi lítils virði móts við það fé, sem slík framkvæmd mundi kosta, í öllu falli ekki í sambandi við samgöngubætur. Mér virðist Þverá vera búin að brjóta svo mikið, að hún muni vart geta náð miklu meira landi á næstu árum, eða jafnvel um langt skeið. Enginn einstaklingur, sem ætti þær jarðir, sem í hættu eru, mundi, hvað ríkur sem hann væri, vilja leggja fé sitt í það verk.

Þegar búið er að brúa Þverá og Affall, koma Álarnir næst. Ég hefi trú á því, að fyrir þá megi hlaða, svo að vatnið falli í Markarfljót. En á hitt trúi ég ekki, að hægt sé að stokkleggja öll vötnin svo vel, að varanlegt verði, nema þá með of fjár. Ég hefi þá trú, að þeim brúm, sem byggðar verða nú, verði haldið við um aldur og æfi og við þær aukið eftir þörfum, og við það látið sitja. Það er alveg rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að rétt væri að blanda ekki þessu tvennu saman, samgöngubótum og fyrirhleðslu til landvarna. Þegar byrjunin er hafin, þá verður fljótlega haldið áfram að brúa vötnin, ef fjárhagur verður ekki því erfiðari næstu ár. En að stokkleggja vötnin kostar svo mikið fé, að ég hefi enga trú á því, að það verði nokkurntíma gert.