01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

12. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Jón Ólafsson:

Mér heyrist hljóðið í þeim hv. þm., sem talað hafa, vera svo, að þeir muni vera tregir til að samþ. brtt. okkar þm. Rang. En í 6. og 7. lið 1. gr. er gert ráð fyrir miklum mannvirkjum, sem ætlazt er til, að héraðsbúar kosti að 1/8 hluta. Þeim, sem ráða fyrir slíku verki, er því fengið vald til að framkvæma stórvirki og láta jafna 1/8 af kostnaðinum niður á héraðsbúa, jafnt máske þá, sem engan hag hafa af framkvæmdunum. Í brtt. okkar þm. Rang. er ekki farið fram á það, að tillag héraðsins sé gefið eftir, heldur aðeins að héraðsbúum sé tryggður réttur um að taka málið til athugunar, áður en í mannvirki er ráðizt. Þetta vildi ég, að hv. þm. skildist.

Það er rangt hjá hv. þm. N.-Ísf., að við viljum ekki, að Rangæingar leggi neitt fram. Við viljum aðeins, að framlög þeirra séu gerð að yfirlögðu ráði og með vilja þeirra sjálfra um að ráðizt sé í framkvæmdina. Ef brtt. verður samþ., þá er það trygging fyrir því, að héraðsbúar eða sýslunefnd þeirra verður um það spurð, hvort Rangæingar séu tilbúnir að leggja fé í slík mannvirki. Ef þarna verður gert stórvirki, þá yrði ríkissjóður hvort sem er að leggja fram féð í byrjun, og til framhalds þar til verki er lokið. Gæti svo farið þá, sem annarsstaðar hefir átt sér stað, þar sem ríkissjóður hefir lagt allt féð fram, að þeir, sem áttu að endurgreiða, gátu það ekki, svo að ríkissjóður hefir orðið að greiða það allt án þess að eiga von á endurgreiðslu.

Hv. þm. N.-Ísf. taldi 3. og 4. gr. óþarfar, ef breytingar okkar væru samþ. En hann kom ekki með neitt sem benti á, að svo væri. Hér er ekki farið fram á að gefa bændunum eftir neitt af því, sem réttmætt er að leggja á þá og þeir geta borið. En þar fyrir er enginn óþarfi að hafa ákvæði um, á hvern hátt ætti að leggja það á, sem eftir ýtarlega athugun yrði jafnað niður.

Ég verð að segja það um Seljalandsgarðinn, að það er ranglátt að láta viðkomandi bændur kosta þær endurbætur á honum, sem gera þarf vegna þess að vatnsmagnið eykst í Markarfljóti við þær fyrirhleðslur, sem samgöngurnar krefjast, að gerðar séu. þegar hlaðið hefir verið fyrir Þverá og máske nokkuð af Álunum, til þess að veita vatnsmagninu undir eina brú og þar af verði Seljalandsgarðurinn ónógur, þá er það skylda ríkisins að kosta endurbætur á honum. Eftir frv. eiga bændur að bera 1/8 af heim kostnaði, en það eru hin mestu rangindi að mínu áliti.

Hæstv. atvmrh. var að kvíða því, að frv. yrði fellt vegna brtt. okkar. En ég held nú, að hann hafi nóg lið til að fella þær, svo að ekki þurfi að verða vandræði úr. En ef hv. þm. fást ekki til að fallast á að koma málinu í það horf, sem það hlýtur að komast í, verða Rangængar að fá að segja til um, hvaða mannvirki eru gerð á þeirra kostnað. Þeir hljóta að fá því ráðið, að ekki séu lagðar á þá þær drápsklyfjar, sem þeir ekki geta risið undir.

Það má vera, að fyrirhleðslurnar fyrir Þverá séu, eins og hv. þm. V.-Skaft. hélt fram, óframkvæmanlegar eða óviðráðanlegar vegna kostnaðar. Og ef þó verður í þær ráðizt, hygg ég, að sá hluti, sem bændunum er ætlað að greiða, sé þeim ofvaxinn, og að binda þeim slíka bagga sé helzta ráðið til að flæma þá af jörðum sínum.