01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

12. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Út af ummælum hv. 1. þm. Rang. skal ég lýsa því yfir, að meðan ég er atvmrh. skal ekki ráðizt í neinar framkvæmdir þarna austur frá að Rangæingum nauðugum. Það skal ekki lagt út í svo stórkostlegar framkvæmdir, að þær verði til þess að flæma bændur af jörðum sínum, þó að ríkið kosti þær að 7/8 hlutum, en bændum sé aðeins ætlað að leggja fram 1/8 hluta.

Ég vil benda á, að brtt. hv. þm. Rang. gera ekki aðeins breyt. á 4. málsgr. 2. gr., heldur fella þær einnig niður a. málsgr., sem er ákvæði í samræmi við gildandi lög um aðrar framkvæmdir en þær, sem taldar eru í 4. málsgr., fyrirhleðslur og flóðgáttir til áveitu, skuli kostaðar af sömu aðilum að 3/4 og 1/4 hluta. Með brtt. væri því málið fært að nokkru leyti inn á nýjan vettvang.