01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

12. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Jón Auðunn Jónsson:

Ég vil minna hv. þm. Rang. á, að með frv. er gerð sú mikla breyt. frá því, sem er í gildandi l., að öll stærri mannvirki, sem þar um ræðir, skuli kostuð að 7/8 hlutum úr ríkissjóði í stað 3/4 hluta, eins og nú er ákveðið. Og loks höfum við í samgmn. gengið inn á, að ríkið kostaði viðhald og viðbætur á Seljalandsgarðinum að 7/8 hlutum, og finnst mér það svo langt gengið sem frekast er hægt. Hinsvegar fara brtt. hv. þm. Rang. fram á, að kostaðar séu úr ríkissjóði að öllu leyti flóðgáttir, sem gerðar eru til þess að fá vatn til áveitu, og fleiri slík mannvirki. Það finnst mér óvenjulangt gengið. Það er að vísu sagt í brtt., að atvmrh. geti, að fengnum till. sýslunefndar Rangárvallasýslu, jafnað niður allt að 1/8 kostnaðarins við þessi verk. En ég get búizt við, að sýslunefndin yrði treg á að leggja það til. Svo er ekkert getið um, á hverja á að jafna þessu niður; það mætti kannske jafna því niður á einhverja aðra en Rangæinga, eftir orðanna hljóðan.

Ég hygg, að hv. þm. Rang. geti vel unað við frv. eins og það er, hvað snertir ákvæði þess um framlog ríkissjóðs.