01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

12. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Það er rétt hjá hv. þm. V.-Sk., að Skaftfellingar mega vel við þetta frv. una. Ég lýst við, að hann hafi haft þá í huga, þegar hann sagði, að „við“ mættum vel við una. ef vötnin væru brúuð. Það e ekki ætlazt til, að neinu sé jafnað niður á Skaftfellinga. Öðru máli gegnir um Rangæinga. Á þá á að leggja kostnað, sem leiðir af samgöngubótum, er gerðar eru m. a.-fyrir Skaftfellinga jafnt og jafnvel almennara en þá sjálfa.

Mér virtist gæta nokkurs misskilnings hjá hæstv. forsrh., þegar hann talaði um, að ekki mætti blanda saman fyrirhleðslunum og samgöngubótunum. Allir sjá, að j frv. er gert ráð fyrir fyrirhleðslum til þess að hægt sé að koma samgöngubótunum á.

Það er óhugsandi, eins og þessi vötn haga sér, að koma á samgöngunum austur, nema hafa um leið áhrif á, hvar vötnin renna. Það er ekki rétt hjá hv. þm. V.-Sk., að ekki sé hægt að hafa vald á, hvar þau renna. Væri það ekki hægt, væri heldur ekki hægt að koma á samgöngubótunum austur yfir þau. Að leysa þetta mál sem samgöngumál er óhugsandi nema í sambandi við fyrirhleðslur, enda er beinlínis gert ráð fyrir í frv. sjálfu, að reynt skuli að ná vatninu austur á bóginn. Það mætti e. t. v. halda, fljótt á Iitið, að í frv. sé aðeins átt við fyrirhleðslu við sjálfar brýrnar. En tökum t.d. fyrirhleðslurnar, sem talað er um í 4. lið 1. gr. Þegar búið er að gera garð til þess að veita Álum og Markarfljóti að brúaropinu, þarf einnig að gera garð undir Eyjafjöllum, til að vernda land frá eyðileggingu. Annars verður þar stórkostlegur skaði, sem stafar beinlínis af fyrirhleðslunni, sem gerð er vegna samgöngubótanna. Er hægt að segja, að sá garður eða þær varnir komi ekki samgöngubótunum við?

Hv. samþm. minn minntist réttilega nokkuð á Seljalandsgarðinn, svo að ég þarf litlu þar við að bæta. Hv. þm. V.Sk. vildi halda fram, að hann væri kominn í svo gott lag, að hann mundi standast vatnsmagnið að mestu leyti, svo að í sambandi við hann yrði vart um mikinn kostnað að ræða. Ég man ekki betur en þessi garður sé nú um 800 metrar, en gert er ráð fyrir, ef auknu vatnsmagni er veitt þarna fram, að það þurfi að lengja hann upp í 1200 metra og styrkja hann jafnframt að mun. þegar hafa tvívegis komið skörð í hann, svo að endurbóta hefir þurft við. Það mun því ekki vera lítill kostnaður, sem leggja þarf í ef fyrirbyggja á, að vatnið flæði austur með Eyjafjöllum og eyðileggi engjarnar og gróið land þar.

Þá hélt hv. þm. V.-Sk. því fram, að vart gæti verið um meiri skemmdir að ræða af völdum Þverár en orðnar eru. En ég get sagt hv. þm., að ég talaði nýverið austur, og mér var sagt, að áin hefði aldrei verið stórvirkari en einmitt þessa dagana. Á einum bænum brýtur hún fleiri faðma af grónu túni á degi hverjum, og það er ekki annað fyrirsjáanlegt en að hún geti í náinni framtíð tekið öll túnin í Innhlíðinni. Ég veit ekki, hvað er raunalegra en að sjá þannig rifna niður eina fegurstu sveit landsins án þess nokkuð sé að gert. Of ef ekki er þegar tekið í taumana með einurð og dugnaði, þá munu ekki líða mörg ár þangað til þessi sveit er ekki lengur byggð, þangað til einnig eiga þar við orð skáldsins: „Þar sem að áður akrar huldu völl, ólgandi Þverá veltur yfir sanda“ — að þar verði ekkert nema sandar og auðnir einar eftir.

Þá taldi hæstv. forsrh. það koma í bága við gildandi lög, ef felld væri niður síðasta málsgr. 2. gr. í frv. Ég býst við, að hæstv. ráðh. eigi við l. frá 1917 um fyrirhleðslu fyrir Þverá og Markarfljót. En í síðustu gr. frv. er einmitt tekið fram, að þessi l. skuli falla úr gildi, svo að brtt. okkar geta ekki valdið neinum árekstri við þau.

Hv. þm. N-Ísf. var að tala um, að ekki væri rétt að kosta flóðgáttir að öllu leyti af ríkissjóði. Eftir till. okkar gildir líka sama um þær og fyrirhleðslurnar, og jafna má niður á sýslubúa eftir hagnaði af þeim 1/8 hluta kostnaðarins. Ég tel sjálfsagt að gera flóðgáttir til áveitu niður í Landeyjar og nota heimildina um niðurjöfnun að því er þann kostnað snertir; er ég sannfærður um, að sýslunefnd Rangárvallasýslu mundi ekkert hafa á móti því. Annars mun þar ekki vera um neinn verulegan kostnað að ræða; það mun vera gert ráð fyrir einum tveimur flóðgáttum, eiga svo.

Hv. þm. N.-Ísf. talaði um, að ekkert væri tekið fram um það, á hverja ætti að jafna niður þeim hluta kostnaðarins, sem sýslan á að leggja fram samkv. brtt. okkar. En þetta er misskilningur. 3. gr. frv. á ekki að falla niður, og hún ræðir um, hvernig þessi niðurjöfnun á að vera.

Ég hygg, að það sé svo ekki fleira, sem ég þarf að benda á til þess að sýna, hvað órjúfanlega eru tengdar þær framkvæmdir, sem gera þarf til að bæta samgöngurnar yfir vötnin og til að vernda landið fyrir ágangi og eyðileggingu af þeirra völdum.