20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

12. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Út af orðum hæstv. forsrh. vil ég taka það fram fyrir n. hönd, að þar sem við berum fram brtt. um, að lánsheimildin nái til framkvæmda 3. og 4. liðar, þá er það aðeins með tilliti til samgöngubótanna. Lánsheimildina ber því ekki að skilja þannig, að hún nái til hinna almennu fyrirhleðslna fyrir þessi vötn. N. er ljóst, að þar er að ræða um mjög stórvægilegt mál, sem er nokkuð annars eðlis en það, sem frv. ræðir fyrst og fremst um, og sem þess vegna verður að leysast á öðrum grundvelli.