20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

12. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Hv. 3. landsk. kvaðst líta svo á, að með þessu frv. væri ákveðið að ráðast í mjög fjárfrekar og stórkostlegar framkvæmdir, ég er það að vissu leyti rétt. En ráð verður líka að líta á, hvernig frv. mælir fyrir um, að þessar framkvæmdir verði af hendi leystar. Í sambandi við það vil ég upplýsa, að þær tvær brýr, sem frv. gerir ráð fyrir, að fyrst verði byggðar og sem lánsheimild 10. gr. nær til, eiga samkv. áætlun vegamálastjóra að kosta 100 þús. kr. Það, sem svo næst getur komið til mála að leggja í eftir brtt. samgmn. er brú á Markarfljót og nauðsynlegar fyrirhleðslur til þess að hún komi að notum. Samkv. sömu áætlun á það verk að kosta 130 þús. kr., og vegur austan Markarfljóts 10 þús. kr. Þetta eru þær upphæðir, sem samgmn. ætlast til, að stj. sé heimilað að taka að láni til framkvæmdanna. Og með brtt. sinni vill n. opna leið til þess, að ef Rangæingar sjá sér fært að sýna eins mikinn áhuga á að fá brú á Markarfljót eins og þeir hafa þegar sýnt á því að fá hvera og Affall brúuð, þá geti ríkið mætt þeim áhuga og tekið það fé að láni, sem þeir safna og bjóða fram til þess að flýta verkinu. Það er alls ekki meiningin, að lánsheimildin sé notuð á annan hátt, og eftir að ráð hefir komið greinilega fram við umr., skil ég ekki í því að hún verði öðruvísi skilin. það eru því 240 þús. kr., sem til mála gæti komið, að lagðar yrðu í þessar framkvæmdir samkv. frv. og brtt. okkar, á þann hátt, að ríkissjóður tæki þær að láni hjá héraðsbúum sjálfum. Ég mun ekki gera það að neinu persónulegu kappsmáli, að brtt. okkar verði samþ., enda hefi ég enga ástæðu til þess. En mér finnst rétt, að þingið mæti þeim mikla áhuga, sem Rangæingar hafa sýnt í verkinu á því að leysa þetta mikilsverða mál, með því að hafa umrædda heimild til.

Viðvíkjandi fyrirspurn hv. 4. landsk. skal ég gefa þær upplýsingar, sem ég get. Það er rétt, að gert er ráð fyrir, að brýrnar á Þverá og Affall séu byggðar sem bráðabirgðabrýr. Þær eiga þannig ekki að vera úr steinsteypu. Það byggist á því, að þó að sú lausn á samgöngumáli Rangæinga sé valin, sem hér er gert ráð fyrir, þá er vatnamálið í heild ekki fullleyst, eftir er að beizla þessi stóru vötn, svo að þau geri ekki eins mikinn usla og þau hafa gert og halda áfram að gera, ef þau eru látin sjálfráð. Það mál er nokkuð annars eðlis en það, sem hér er verið að leysa. Ég hygg, að þær framkvæmdir allar muni kosta um 2 millj. kr., eftir því sem vegamálastjóri kemst næst. En þótt sú áætlun verði fyrirsjáanlega ekki framkvæmd til fulls á næstu árum, virðist ekki rétt að láta undir höfuð leggjast að gera tilraun til þess að leysa samgöngumálið út af fyrir sig, þar sem vegamálastjóri álítur þá lausn þess, sem hér er um að ræða, fullnægjandi um nokkurt áraskeið, og að vötnin muni ekki breyta sér meira en það, að fyrstu framkvæmdirnar muni koma að fullum notum, þangað til mannshöndin hefir náð yfirráðum yfir vötnunum og beint þeim í einn farveg, farveg Markarfljóts.

Brúna á Markarfljót er gert ráð fyrir að byggja svo öfluga í upphafi, að hún nægi einnig þegar búið er að leysa vatnamálið, veita öllum vötnunum í Markarfljót. En þá verða brýrnar á Þverá og Affalli ekki lengur nauðsynlegar; önnur þeirra verður alveg óþörf og hin a. m. k. óþarflega löng. Þess vegna á að byggja þær sem bráðabirgðabrýr.

Ég verð að biðja hv. þdm. velvirðingar á hví, að eins og ég tók fram í upphafi, tala ég ekki um þetta mál af persónulegum kunnugleika, heldur byggi ég á upplýsingum vegamálastjóra og annara kunnugra manna, því að ég hefi aldrei komið þarna austur. — ég veit ekki, hvort þessar skýringar mínar nægja hv. 4. landsk. Ef þær gera það ekki, vil ég leyfa mér, að vísa til Alþt. frá vetrarþinginu í fyrra. Þar eru áætlanir og álit vegamálastjóra um þetta efni prentað sem fskj. með frv.