05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

13. mál, vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Það hefir nú um langt skeið verið viðfangsefni, á hvern hátt eigi að bæta samgöngur milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur, þannig að örugg leið fáist til flutninga alla tíma árs. Það hafa verið lagðar til ýmsar leiðir, en aldrei komið fram nein ákveðin lausn, fullkomlega áætluð, fyrr en með þessu frv., sem kallast mætti ákveðin lausn til bráðabirgða. Hv. þm. er kunnugt um, hvernig sú leið er hugsuð, sem frv. fer fram á að tekin verði í þessu máli, sem sé að lögð verði vetrarbraut til bráðabirgða á öðrum stað en vegurinn nú er yfir heiðina, þar sem snjóléttara er talið. Og það má telja víst, eftir því sem kunnugir álíta og sérfræðingur hefir rannsakað, að þar mun vera miklu betra vegarstæði, sérstaklega vegna snjólaga, og ef vegurinn er lagður sem vetrarbraut, verður hann að vera upphleyptur meira en vegurinn, sem nú liggur yfir Hellisheiði. En hinsvegar vil ég segja það, að ég tel með þessu frv. hvergi nærri bent á fullnægjandi leið til þess að leysa þetta mál, sem ég álit stærsta og mesta fjárhagsmálið fyrir Suðurland mi á næstunni, ekki einungis fyrir sveitirnar austanfjalls, heldur líka fyrir Reykjavíkurbæ og Hafnarfjörð. Það er alveg víst, að ef ekki tekst að gera þær samgöngur til hafnarinnar og á markaðsstaðina í Reykjavík nokkurnveginn öruggar allan hluta árs, þá mun verða mjög erfitt um alla framleiðslu í þessum sveitum. Ég er sannfærður um það, að Reykjavíkurbær mun hafa þar mikilla hagsmuna að gæta, og rætur dýrtíðarinnar hér í bænum mun að nokkru leyti að rekja þangað, hversu erfitt er fyrir Reykjavík að hafa stöðugt samband við sveitirnar og ná framleiðslu þeirra í nægilega stórum stíl og jafnóðum.

Ég hefi skrifað undir álit samgmn. um það að ráða d. til að samþ. frv. eins og ráð liggur fyrir, ekki þó vegna þess að ég álíti, að hér sé um framtíðarlausn málsins að ræða, ekki vegna þess, að ég sé að öllu ánægður með það, heldur vegna þess, að ég álít að hér sé um þá leið að ræða, sem er framkvæmanlegust í bili, eins og nú standa sakir, og vegna þess að ég vil ekki hrinda frá mér neinni hönd, sem er framrétt til þess að bæta þá miklu erfiðleika, sem nú eru um samgöngur austur yfir fjallið.

það er tvennt í þessu frv., sem ég tel nokkuð varhugavert og þyrfti betri athugunar við. Ég tel það varhugavert að áætla veginn ekki nema 3 m., þar sem kunnugt er, að vegurinn yfir Hellisheiði, sem er miklu breiðari, er oft lítt fær fyrir hálku að vetri til. Annað atriði teldi ég, að þyrfti einnig að aðgæta betur. Það er, hversu miklu dýrara það yrði að leggja veginn með það fyrir augum, að þar kæmi síðar járnbraut, því ég efast ekki um, að í framtíðinni verður járnbrautin eina lausnin, sem talin verður fullnægjandi, hvort sem það verður langt eða skammt að bíða eftir því. En þetta hefir ekki verið athugað af vegamálastjóra, þegar hann gerði áætlanir um þennan veg. En ég tel, að með þessu frv. sé allmikil bót frá því sem nú er. Erfiðleikarnir eru svo miklir um samgöngur sem stendur, að sjálfsagt er að taka þakksamlega hverri hjálp, sem býðst til að bæta úr brýnustu þörfinni.