08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

1. mál, fjárlög 1933

Frsm. fyrri kafla (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

Það er ekkert skemmtiverk að standa hér upp og tala á móti öllum brtt. einstakra hv. þdm., sem hér eru fram komnar, og vita þó, að mikil þörf er að baki sumra þeirra, t. d. eins og er um sjúkrastyrki til einstakra manna. Enga slíka styrki hefir n. tekið upp í sínar brtt., og þó hafa margar slíkar beiðnir legið fyrir n., og henni ljóst, að mikil þörf liggur á bak við sumar þeirra. En þá menn, sem hér er farið fram á að styrkja, virðist ekki nauðsynlegra að styrkja en svo marga aðra, sem sent hafa beiðnir til þingsins í sama skyni og n. kynnt sér eftir því, sem kostur er.

Það er þá I. brtt. á þskj. 352, sem þeir bera fram saman, hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. Mýra., um 1200 kr. sjúkrastyrk handa Gísla Andréssyni. N. hefir haft tækifæri til þess að kynna sér ástæður þessa manns og viðurkennir, að þær séu bagar, og ekki nema gott og æskilegt að geta hlaupið undir bagga hans og létt honum stríðið, eins og líka væri gaman að geta gert svo fjölda mörgum öðrum, og jafnvel sumum þeim, sem engar styrkbeiðnir hafa borizt frá. Það þekkja eflaust allir nokkra menn, sem svo eru á vegi staddir, að brýn þörf væri að styrkja þá og létta þeim lífsstríðið. Ég get t. d. nefnt sem dæmi, að í mínu kjördæmi er maður, sem varð fyrir því óláni að missa hægri hönd og fót. Hann er bláfátækur, á fyrir 6–7 ungum börnum að sjá, svo geta má nærri, hvort hann á ekki við erfiðleika að stríða. Í slíkum tilfellum er leiðinlegt að geta ekki hjálpað, svo að um munar. En n. hefir ekki treyst sér til að ganga inn á þessa braut, þótt hún hinsvegar viðurkenni þörfina. Að vísu má segja, að það skipti ekki miklu máli, hvort 1 eða 2 menn séu teknir upp í fjárl. í þessu skyni og að ríkissjóð muni ekkert um það. En þetta gæti leitt til þess, að margir kæmu á eftir, því að sú hefir orðið reyndin hér á Alþ., að margar styrkveitingar hafa hlaðið utan um sig og ýmsir styrkir, eins og t. d. eftirlaunastyrkirnir, eru að verða lengsta gr. fjárl. Fyrir hönd fjvn. verð ég því að lýsa yfir, að hún getur ekki mælt með þessari brtt.

Sama er að segja um II brtt. á þskj. 334, frá hv. þm. Rang., sem áður hefir verið minnzt á. N. getur ekki mælt með að samþ. hana. Þó er n. ekki einróma um það, og hafa því sumir nm. óbundin atkv. um till.

Um námsstyrkina er sama að segja og sjúkrastyrki. N. hefir ekki séð sér fært að taka neina slíka styrki upp í sínar brtt. hér liggja fyrir till. um 2 námsstyrki, sín á hvoru þskj., 352 og 360. Önnur er um 2000 kr. styrk handa Jóni Gauta Jónatanssyni, til að ljúka námi í rafmagnsfræði í Þýkalandi, en hin fer fram á 2000 kr. styrk, eða 1500 kr. til vara, til Guðmundar Karls Péturssonar læknis, til framhaldsnáms í handlækningum erlendis, og standa að þeirri till. þrír hv. þdm. Fyrir n. lágu margar slíkar umsóknir, en hún sá sér ekki fært, af sömu ástæðum og áður er tekið fram, að sinna neinni þeirra, og er því þarflaust að eyða fleiri orðum að því. Ef n. hefði ætlað sér að taka eitthvað af beiðnum þessum til greina, hefði hún að sjáfsögðu reynt að kynna sér til hlítar, hverjir væru maklegastir, því að venjan hefir verið sú, að það er algerlega happ, sem hlýtur, hverjir fá slíka styrki, og er sú aðferð óheppileg. N. getur því ekki mælt með slík um fjárveitingum og er einhuga um að standa á móti þessum btt., að undanteknum hv. þm. Dal., sem er meðflm. að síðari brtt.

Þá var ég búinn að minnast lítilsháttar á I. brtt. á þskj. 334, um 1 þús. kr. styrk til Lúðvíks Nordals læknis, til þess að sinna læknisstörfum í Árnessýslu. N. hefir óbundin atkv. um till., en meiri hl. telur ekki ástæðu til að verða við þessari beiðni, af þeim ástæðum, sem ég hefi áður nefnt.

Þá eru það till. um fjárveitingar til vega. Ég hefi áður minnzt á starfsaðferð fjvn., að n. hafi farið eftir till. hæstv. stj. um fjárhag ríkisins en eftir till. vegamálastjóra um skiptingu vegafjárjns. N. getur ekki breytt um skoðun á því, hvernig eigi að verja þessu fé. Þó er hún fús til þess að taka nánar til athugunar till. þessar fyrir 3 umr., ef samkomulag fæst um það að taka till. aftur að þessu sinni. Hv. flm. verða að skýra nokkuð nánar nauðsynina á öllum slíkum fjárveitingum, og ekki nema sanngjarnt, að n. fái tíma til að leita álits vegamálastjóra um þessi mál. Að því fengnu, má vel vera, að n. geti eitthvað vikið frá sínum till. Þó skal ég geta þess, að ég býst við, að n. gæti fallizt á að fella niður fjárveitingu til Vatnsskarðsvegar að þessu sinni vegna aðkallandi þarfa ýmissa héraða í þessum efnum. Af því að farið er að höggva í þessa upphæð, sýnist það geta beðið eitt árið enn, að byrjað sé á vegi þessum.

Ég býst við, að skoðanamunur verði um það, hvort fært muni vera að lækka fjárframlagið til Holtavörðuheiðar eða ekki. Hitt gæti komið til mála, sem ég býst þó ekki við, að fái góðan byr í n., að athuga, hvort gerlegt væri að auka enn við fjárveitingu í þessu skyni. Það gæti komið til mála einhver tilfærsla, þannig að lítilsháttar upphæð væri tekin af framlaginu til hvers vegar, til þess að hægt væri að taka upp einhverja af þeim vegum, sem hér hefir verið lagt til, að teknir yrðu upp.

Hv. þm. Borgf. hefir misskilið þau orð, sem ég mælti um borðfé konungs, ef hann hefir haldið, að ég væri þar að skýra frá áliti n. Ég skýrði aðeins frá gangi málsins til þessa, og hverja afstöðu stj. hefði haft um þessa greiðslu, og lýsti því yfir sem minni skoðun, að erfitt væri að breyta til, þar sem búið væri um langan tíma að greiða þessa upphæð í dönskum krónum.

Ég geri auðvitað ráð fyrir, að stj. skoði sig skylduga til að gera vilja þingsins, þar sem mögulegt er, en það getur verið ómögulegt að framfylgja því, sem þingið ætlast til, og verði að fara þar aðra leið og eyða meiru fé en ætlazt var til. Ég hygg, hvert sem álit n. er í þessu máli, að þá séu þó margir menn í n., sem líta svo á eftir nánari íhugun, að ómögulegt sé að færa þennan lið niður, svo að vanzalaust sé fyrir þjóðina.

Hv. þm. Ak. talaði nokkuð fyrir þeirri brtt., sem hann flytur við brtt. n. um styrk til skrifstofuhalds sýslumanna og bæjarfógeta. Hann talaði fyrir till. á þeim grundvelli, að kostnaður við skrifstofuhald bæjarfógetans á Akureyri væri svo mikill, að þar þyrfti fremur að hækka en lækka framlagið.

Ég skal játa hað, að ég er ekki vel kunnugur þeim kostnaði, er fylgir því skrifstofuhaldi, en eftir þeim upplýsingum, sem hv. þm. gaf, þá er hann um 13500 kr., en þessi fógeti hefir fengið 10 þús. kr. í skrifstofufé. Ég geri ráð fyrir, að ýms þau störf, sem meiri háttar aukatekjur byggjast á, séu einmitt unnin af þessu skrifstofufólki, svo að það sýnist ekki óeðlilegt, að tekið sé tillit til þess. Ég held, að hér sé eingöngu um skrifstofufé að ræða, því að húsaleigustyrkur til skrifstofuhalds kemur á öðrum stað. Og þar sem það er gegnumgangandi, að nú verði launalækkun hjá opinberum starfsmönnum og fjölda mörgum öðrum, þá er ekki nema eðlilegt, að einnig lækki laun þessara manna frá því, sem verið hefir, og þó að lækkunin nemi 10%, þá er það minni lækkun heldur en orðið hefir sumstaðar annarsstaðar. Ef þessi kenning er rétt, að ekki megi lækka neitt laun þessara manna, þá liggur nærri að segja, að það megi ekki lækka dýrtíðaruppbótina eins og hún er samkv. útreikningi hagstofunnar.

Ég veit, að sumt af þessum störfum eru ábyrgðarmikil og vandasöm störf, en sumt hygg ég ekki vera meira en venjuleg skrifstofustörf, og ég veit, að þau eru fyllilega eins vel launuð og önnur skrifstofustörf á þessum stað.

Þá hélt hv. þm. því fram, að þessi embættismaður hefði tapað mjög miklu í sumum efnum, t. d. á uppboðum. En ég vil þá leyfa mér að benda á það, að verði hann fyrir töpum vegna uppboða, þá er ekkert annað fyrir hann en að taka upp þá reglu, sem nú hefir verið komið á hér í Reykjavík, að láta greiða allt við hamarshögg.

Þá benti hv. þm. á það sínu máli til stuðnings, að fólksfjölgun á Akureyri hefði verið svo mikil, að það samsvaraði öllu fólkinu á Akranesi. Þetta geta nú ekki talizt mikil rök í hans máli, því að ég veit ekki til, að Akranes fái nokkurt fé til slíkrar innheimtustarfsemi, eins og bæjarfógetinn á Akureyri hefir. Ef ætti að taka eitthvert mark á þessu dæmi, þá væri það frekar á móti hans mástað en með, því að ef ætti að setja Akureyri við sama borð og Akranes, þá ætti fógetinn á Akureyri ekki að fá neitt fyrir þessa innheimtustarfsemi.

Hæstv. fjmrh. talaði um það í ræðu sinni í dag, að honum þætti n. hafa gengið fulllangt í niðurfærslu á tekjuáætlunum. Það mætti gera ráð fyrir, að árið 1933 yrði svipað og 1931. Eins og ég hefi áður tekið fram, er þetta allt að meira og minna leyti í lausu lofti hjá n. N. hafði ekkert við að styðjast nema tekjuhalla þessa árs, sem hefir gefið miklu minni tekjur en fjárlagafrv. geriði ráð fyrir, og hún hafði einnig þá vissu frá árinu 1931, að þótt greiðslujöfnuður ríkisins virtist hagstæður á pappírunum, þá var hann óhagstæður samkv. útreikningi hagstofunnar, svo að munaði 3 milljónum. En þegar allt kemur til alls, þá er áreiðanlegt, að greiðslujöfnuðurinn verður okkur miklu óhagstæðari en hagstofan hefir fengið út, og líklegt, að munurinn verði a. m. k. 5 millj. kr. Það er því áreiðanlegt, að árið 1933 verður að halda áfram í svipuðu kreppuástandi með innflutning, þar sem ekki er hægt að sjá, að nokkur verðhækkun verði á framleiðslu landsmanna. Og meðan innlendar vörur geta ekki hækkað í verði og útlitið er þannig, að atvinnureksturinn verður að takmarka sig enn meira en verið hefir, og framleiðslan þar af leiðandi minnkar, þá er ekki hægt að fá hagstæðan greiðslujöfnuð, nema þá helzt með því að takmarka eins og unnt er innflutning til landsins. Og þó að leyst yrðu öll viðskiptabönd, sem nú hvíla á, þá hljóta bankarnir af brýnni nauðsyn að takmarka þetta meira og minna, og ennfremur hlýtur ástand verzlunarfyrirtækjanna eftir síðasta ár og það ár, sem nú fer í hönd, að vera svo erfitt, að þau geta ekki flutt meira inn en það, sem brýn nauðsyn krefur.

Að öllu þessu athuguðu sýnist mér útlitið með okkar innflutning og útflutning ekki vera svo gott, að hægt sé að byggja þar á að neinu verulegu leyti. Ég vona auðvitað, að þetta ár verði ekki verra en árið 1931, enda þarf það að verða svo, ef áætlanir n. eiga að reynast réttar. Það verður líka að taka það með, að til þess að það geti orðið, þá verður að framlengja verðtollinn og gengisviðaukann, eða þá samþ. aðra skatta í þeirra stað, því að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að þessir tollar verði í gildi næsta ar. Verði það ekki, þá lækka tekjurnar stórkostlega, eins og allir geta séð á því, hverjar tekjur eru áætlaðar af þessum tveimur tollum.

Hæstv. fjmrh. gat þess, að Kristneshælið hefði ekki verið talið ríkisstofnun af því, að heimild hefði vantað fyrir að gera svo. Þetta mun vera rétt, en hinsvegar hefir n. fengið þær upplýsingar, að ekki muni verða undan því skorazt að líta svo á, að þetta sé ríkisstofnun eins og allir aðrir slíkir spítalar landsins og ríkið verði því að taka við starfrækslu þessa sjúkrahúss.

Hv. 1. þm. Árn. mótmælti mjög eindregið þeim ummælum mínum að taka tillit til till. vegamálastjóra í vegamálum. Það má náttúrlega segja svona lagað, en eins og ég tók áður fram, þá verða einhver rök að vera fyrir því. Það, sem vegamálastjóri hefir gert, er það, að hann hefir sent fjvn. till. sínar um vegamál, og voru þær betur undirbúnar heldur en frá flestum öðrum starfsmönnum ríkisins. Það er auðséð á öllu, sem komið hefir fyrir n. frá hans hendi, að þar er maður, sem hefir mikinn áhuga fyrir sínu starfi, enda allra manna fróðastur á sínu starfssviði og með brennandi áhuga fyrir því, að það verði unnið, sem hann telur mest áriðandi. Hinsvegar dettur mér ekki í hug að halda því fram, að hann sé óskeikull frekar en aðrir menn. En ef bornar eru á hann sakir um hlutdrægni, þá verður að benda á einhver dæmi því til sönnunar, sem ekki er létt að hrekja.

Ég hefi áður talað um þær tvær stefnur, sem eru uppi um þessi mál, hagsmunir einstakra héraða og heildarvegakerfið. En svo vaknar auðvitað „interesse“ einstakra manna fyrir hagsmunum síns héraðs, og er það verkefni þingsins að líta á málin frá báðum þessum sjónarmiðum. Það getur verið, að vegamálastjóri líti of einhliða á þessi mál og hugsi of mikið um heildarkerfið, en það má ekki heldur líta á málið eingöngu frá sjónarmiði einstaklinganna. Það verður hér eins og annarsstaðar að líta á málið frá öllum hliðum. Ég vona, að það geti orðið að samkomulagi um brtt. um framlög til vega, að þær verði teknar aftur til 3. umr., svo að unnt væri að fá samræmi í þetta með samstarfi við vegamálastjóra. Ég get ekki séð, að ráð mundi á neinn hátt verða til að spilla fyrir málum þeirra, sem þessar till. flytja, heldur miklu fremur til að greiða fyrir þeim, a. m. k. ættu þeir að vera fúsir til slíks, sem hafa trú á réttmæli till. sinna.