05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

13. mál, vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Hv. 2. þm. Skagf. sagði, að ég líti á þetta sem undirbúning undir járnbraut. En ég tók það einmitt fram, að það væri galli, að ekki hefði verið rannsakað, hve dýrt væri að byggja þennan veg á þann hátt, að hann gæti verið undirstaða að járnbraut. Ég hefði viljað, að rannsakað væri, hve mikið þetta kostar. Hv. þm. sagði, að ef hann væri þm. fyrir þetta hérað, þá væri hann á móti þessu, af því að það gæfi ekki fulla lausn á samgöngumálinu. En ég sem þm. í þessu héraði álít einmitt ábyrgðarhluta að vera á móti því, sem getur horft til hagsbóta fyrir samgöngumál þessa héraðs. Ég er heldur ekki á sama máli og hv. 2. þm. Skagf., að þessi vegur tefji fyrir járnbraut eða eyðileggi vonina um hana. Sá vegur, sem nú er, sýnir atakanlega, að þörf er fyrir betri veg austur og ýtir undir, að hann sé lagður. Ef sá vegur kemur og verður sæmilegur, þá vex flutningamagnið og herðir á fullkomnari lausn samgöngumálsins. Hin sterkustu og eiginlega hin einu rök Björns Kristjánssonar gegn járnbrautarmálinu hér fyrrum voru þau, að flutningaþörfin væri svo lítil, að járnbraut gæti ekki borið sig. Ég held að hann telji aðeins 12–15 tonn, sem flytja þurfi yfir Hellisheiði að vetrinum. En það var eðlilegt, að lítið væri flutt, meðan engir möguleikar voru til að flytja. En við bætta flutningamöguleika vex framleiðsla og krefst enn betri samgangna. Hver bót í þessu efni knýr aðra fram, unz fullkomin lausn er fengin, — eða svo lít ég á þessi mál. Ég er því af þessum ástæðum með hverri þeirri verulegri samgöngubót, sem fáanleg er. — Ég vil ekki draga inn í þessar umr. slíkt hégómamál sem Titan-sérleyfið var. Ég er viss um að það mál var til stórrar bölvunar, því að það dró á langinn, að hafizt yrði handa um viðráðanlegar framkvæmdir á þeim tíma. Ég er sammála um, að ekki sé vert að draga járnbrautarmálið inn í þetta mál. En ég tel mér skylt að geta þess, að þótt ég fyrir héraðsins hönd taki þakklátlega á móti þeirri samgöngubót, sem felst í þessu frv., þá tel ég ráð þó ekki fulla lausn á samgöngumálum Suðurlandsundirlendisins. Það mál tel ég ekki tryggt fyrr en komin er járnbraut, sem gengur óhindruð alla tíma árs, hvernig sem viðrar.