05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

13. mál, vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 2. þm. Skagf. virðist vera orðinn hinn eini sanni og ómengaði járnbrautarmaður. Viðvíkjandi Titan þetta: Það getur vel verið rétt, að hann eigi eitthvert bréf geymt í púltinu hjá sér um þetta. En ég vil lýsa því yfir, að til mín sem ráðh. hefir aldrei neitt bréf komið, er sýndi nokkrar minnstu líkur fyrir því, að Titanfélagið ætti yfir fé að ráða til þessara framkvæmda.

Hv. þm. talar um tvískinnung hjá öðrum í þessu máli. En sjálfur hefir hann lýst yfir því, að hann muni ekki greiða atkv. um það. Ég veit nú ekki, hvað tvískinnungur er, ef það er einmitt ekki þessi afstaða hv. þm.