05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

13. mál, vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

það virðist svo sem hv. 2. þm. Skagf. sé þetta mál mjög hugleikið. Að vísu er ekkert á móti því, að málið sé rætt, því að eflaust má skoða það, eins og flest önnur mál, frá fleiri en einni hlið. Hv. þm. gat þess, að ég væri ekki neitt vitrari maður en fyrirrennarar mínir í þingsalnum hefðu verið úr mínu héraði í þessu máli. Ég ætla ekkert að deila við hann um það og álit slíkt atriði vera utan þessa vettvangs. En ég kallaði Titanmálið hégómamál, og ég held, að reynslan hafi synt, að sá dómur er á viti byggður. Ég hefi álitið, að það hefði verið til trafala og tafar fyrir bættri úrlausn samgöngumálsins. Ég hélt nú, að sá draugur væri niður kveðinn, svo að hann tefði ekki lengur fyrir, en nú virðist sem hv. 2. þm. Skagf. sé að reyna að blasa í hann nýju lifi, í þeirri von, að hann geti tafið fyrir enn og eyðilagt þá umbót, sem hér er um að ræða. Eins og ég hefi þegar sagt, þá tel ég ekki þetta fullkomna né endanlega lausn á málinu, en ég veit, að héraðsbúar þar eystra álíta almennt, að þessi úrlausn sé þó svo mikils virði, að sjálfsagt sé að taka við henni. Og ég fyrir mitt leyti er alveg á sama máli í því efni.