08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

1. mál, fjárlög 1933

Guðbrandur Ísberg:

ég hefi ekki ástæðu til að þakka hv. frsm. fyrir undirtektir hans undir brtt. mína á þskj. 360.

Ég vil benda hv. frsm. á það, að á síðustu árum hefir skrifstofufé lögreglustjórans í Reykjavík, lögmanns, skattstjóra og tollstjóra hækkað stórkostlega, enda greitt eftir reikningi, og skrifstofufé stjórnarráðsins hækkaði á sama tíma um tugi þúsunda. Orsök þessarar hækkunar eru vafalaust aukin störf, og hin sama orsök kemur að sjálfsögðu til greina að því er snertir hina hraðvaxandi kaupstaði utan Reykjavíkur, þó skrifstofufé hlutaðeigandi embættismanna þar hafi ekki verið aukið síðustu árin, a. m. k. ekki svo hægt sé að telja.

Það getur varla talizt sanngjarnt, að um leið og skrifstofufé embættismanna er hækkað um tugi þúsunda hér í Reykjavík, þá sé verið að lækka skrifstofufé annara samskonar embættismanna, þrátt fyrir aukningu á störfum þeirra, svo að þeir verða sjálfir að láta svo og svo mikinn hluta tekna sinna ganga í skrifstofukostnað.