07.04.1932
Neðri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

13. mál, vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Halldór Stefánsson:

Það eru aðeins örfá orð. Það hefir komið fram í umr. um þetta mál, einkum af hendi hv. frsm. n., að það væri gengið út frá þessu máli sem bráðabirgðalausn á samgöngubótum fyrir héruðin austanfjalls. Ég hafði skilið það svo, að upphaflega hefði þetta verið hugsað sem endanleg lausn á þessu máli og hætti bæði viðunandi og helzta tiltækilega samgöngubótin fyrir þessi héruð. En ég verð að segja það, að ef þetta á að skoðast aðeins sem bráðabirgðalausn, þá er hér ekki um nokkurn skynsamlegan grundvöll að ræða. Við höfum veg þarna austur, sem ekki er verri heldur en almennt gerist um vegi hér hjá okkur, og ef svo á að fara að kosta milljónum til að leggja annan veg við hliðina, og það svo aðeins er bráðabirgðalausn, þá verð ég að segja það, að það er svo hörmuleg afgreiðsla sem verið getur á einu máli. Ef það vakir fyrir mönnum, að þessi nýi vegur verði aðeins bráðabirgðalausn á þessu máli, þá skil ég ekki hugsanagang þeirra, því að það má þó vera ljóst, að það, að fyrst á að leggja milljónaveg til bráðabirgðaúrlausnar, muni þó ekki flýta fyrir því, að ráðizt verði í að leggja milljónir í járnbraut á eftir. Ég skil ekki — nema ég hafi misskilið tilgang hæstv. stj. —, hvernig hæstv. atvmrh. getur farið að taka athugasemdalaust við ummælum hv. frsm. n. Nema það sé hreinlega viðurkennt, að þessi lausn sé hugsuð sem endanleg lausn á samgöngunum austur, mun ég greiða atkv. á móti þessu máli.