07.04.1932
Neðri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

13. mál, vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Halldór Stefánsson:

Það er aðeins örstutt aths. út af samanburði hæstv. ráðh. á brú á Lagarfljót og brú við hliðina og þessum vegi og vegi við hliðina. Sagði hann, að engum hefði dottið í hug að heimta yfirlýsingu um það, að aldrei yrði beðið um brú við hliðina á Lagarfljótsbrúnni. Ég get vel trúað því, að það hafi engum dottið í hug að heimta slíka yfirlýsingu. Það hefði heldur engum dottið í hug að fyrra bragði að fara fram á slíka yfirlýsingu hér, ef héruðin hefðu ekki verið að biðja um annað samgöngutæki í sambandi við þennan veg. En það er sá munur á, að þegar Lagarfljótsbrúin var byggð, var enginn, sem var að biðja um brú við hliðina á henni. En hér er verið að gera kröfu um veg við hliðina á vegi. (BA: Ofan á veg). Já, næstum því, og svo um nýja og dýra samgöngubót þar á eftir.