07.04.1932
Neðri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

13. mál, vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Jörundur Brynjólfsson:

Ég hefi til þessa, að þessu sinni, ekki tekið hátt í umr. og lítið lagt til þessa máls. En það þó ekki fyrir þá sök, að þetta mál snerti ekki mitt kjördæmi allmikið, heldur af því, að mér hefir sýnzt það eiga svo góðum viðtökum að fagna hér í hv. d., að það myndi fá svo tímanlega afgreiðslu héðan á þessu þingi, að hv. Ed. myndi vinnast nægur tími til að afgreiða það.

Það er erfitt að segja, hve mikil bót verður að þessari vegarlagningu fyrir samgöngurnar austur. En það er þó ljóst, að hún ræður mikla bót á þeim frá því, sem nú er. Samgöngurnar austur yfir fjall að vetrarlagi eru nú svo erfiðar, langtímum saman, að þær mega heita lítt kleifar, bæði sakir kostnaðar og yfirferðar. Nú er viðskiptum svo háttað milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur annarsvegar og Suðurlandsundirlendisins hinsvegar, að Það má kallast mjög aðkallandi nauðsyn, bæði vetur jafnt sem sumar, að vöruflutningar teppist ekki milli þessara staða. En það hefir sýnt sig, að þrátt fyrir það, að marga undanfarna vetur hefir verið með snjóléttasta móti, hefir það verið hlutaðeigandi héruðum litt bærilegt að annast flutninga yfir Hellisheiði, sakir kostnaðar. Mjólkurbúin þar eystra hafa tjáð mér, að á síðasta vetri hafi kostnaðurinn við mjólkurflutninga þeirra stundum komizt upp í 10–17 aura á lítra. Það má nú vera öllum ljóst, hver blóðtaka það er íbúum héraðanna, ef þeir eiga að annast flutninga frá Suðurlandsundirlendinu með slíkum kostnaði. Lega vegarins yfir Hellisheiði er svo, að það er ekki unnt að halda uppi ferðum um hann, ef nokkra snjóa leggur að ráði, öðruvísi en með ærnum kostnaði. Og ég get ekki hugsað annað en að menn breytist svo á heim flutningum, að þeir fyrr en varir leggi árar í bát, ef ekkert er að gert. En það væri Reykjavík og Hafnarfirði, ekki síður en héruðunum fyrir austan Hellisheiði, óbætanlegt tjón, ef þannig færi. Efast ég ekki um, að öllum hv. dm. sé það ljóst, hvert tjón af því hlytist.

Viðvíkjandi till. þeim, sem fyrir liggja, þá treysti ég mér ekki til að segja, hvort með þeim séu fullar bætur ráðnar á samgöngumálum héraðanna fyrir austan Hellisheiði. En að allmikil bót yrði að þeim, það efast ég ekkert um. Fyrst er nú það, að lega hins nýja vegar er ráðgerð á þeim stað, sem snjóléttara er en þar, sem gamli vegurinn liggur, og kunnugir telja, að verði veginum hleypt nokkuð upp þar, sem snjóþyngst er, þá muni hann lengstum verða fær. En ef mjög mikla snjóa leggur, mun það þó verða talsverðum annmörkum bundið að halda uppi ferðum eftir þessum nýja vegi. En hreinskilnislega sagt, þá sé ég ekki, eins og tímarnir eru nú og framundan, að nokkur önnur lausn á samgöngumáli Sunnlendinga fáist en þessi. Og þó það sýni sig fyrr eða síðar, að þessi umbót sé svo ófullkomin, að hún sé lítt við unandi, þá munu vafalaust þeir menn, sem við löggjafarmálin fást þá, ráða þar á þá bót, sem þá kann að þykja skynsamlegust og heppilegust.

Þetta mál er þannig vaxið, að það þolir ekki meiri drátt en á því er orðinn, því að hvert ár, sem líður án þess að nokkuð sé að gert, leiðir af sér óbætanlegt tjón fyrir héruðin eystra, hér í Rvík og í Hafnarfirði.

Svo vil ég aðeins segja það, að undir framkvæmd þessa máls — og þar verður maður að treysta því, að sú ríkisstj., sem verkið lætur framkvæma, og þeir menn, sem hún felur framkvæmd þess, geri sitt bezta — undir því, hve heppilega vegurinn er gerður og vel frá honum gengið, er það komið, hversu mikil samgöngubót hann verður.

Hinsvegar er málið þannig vaxið, að það þolir enga bið. Af drætti á framkvæmdum stafar mikið tjón, bæði fyrir íbúa héraðanna austanfjalls, og engu síður fyrir menn hér vestan við heiði, bæði í Reykjavík og Hafnarfirði.

Ég get svo Iátið að mestu útrætt um þetta mál; aðeins vildi ég taka það fram, að ég treysti því, að ríkisstj. muni, þegar til framkvæmda kemur, lata rækilega undirbúa málið og rannsaka sem bezt, hvar heppilegast sé að leggja fyrirhugaðan veg. Ég veit ekki, hversu ýtarleg eða áreiðanleg sú rannsókn er, sem gerð hefir verið á vegarstæðinu, en tel sjálfsagt, að í því efni verði leitast við að vanda undirbúninginn eins vel og föng eru á. — Ég vænti þess svo, að hv. þdm. leyfi þessu frv. að fá sömu afgreiðslu við þessa umr. sem hinar fyrri, og lofi því að ganga fram.

Út af brtt. hv. þm. V.-Sk. á þskj. 327 skal ég geta þess, að ég hafði óskað þess við hv. flm., að hann tæki brtt. aftur, og varð það að samkomulagi, því að við nánari athugun kom okkur saman um, að hún væri óþörf og skipti litlu máli, hvort hún verður samþ. eða ekki. Ákvæði frv. um þetta efni eru hin sömu og í vegalögunum, og í 4. gr. frv. er einmitt ákvæði um það atriði, sem brtt. fjallar um, og þess vegna ætla ég að hún sé óþörf, en þar sem hv. þm. V.-Sk. er ekki hér mættur, veit ég ekki, hvernig á að fara með brtt., en komi hún hinsvegar til atkv., þá óska ég, að hv. þd.m. felli hana. Ég læt svo máli mínu lokið, en vænti þess, að hv. d. taki frv. með velvild og samþ. Það við þessa síðustu umr.