20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

13. mál, vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er fram komið sem tilraun til lausnar á vetrarsamgöngum milli Rvíkur og austurhéraðanna. Eins og menn vita, hefir þetta mál verið mikið rætt, bæði meðal þjóðarinnar og á Alþingi, og þótt þessi lausn, sem nú kemur fram, sé sú yngsta, get ég sagt fyrir mig, að eftir þeim litlu möguleikum, sem ég hefi haft til að kynna mér þetta mál, tel ég hana tiltækilegasta. Hér er ætlazt til þess, að nýr vegur verði lagður milli austurhéraðanna og Rvíkur, og á hann eingöngu að vera vetrarvegur til að byrja með. N. kvaddi vegamálastj. á fund sinn út af þessu máli, og telur hann, að sú lausn á þessu máli, sem kemur fram í frv., sé mjög aðgengileg. N. hefi engin betri gögn að fara eftir en skýrslur hans og áætlanir um þetta mál, því að allir nm. eru þessu svæði litt kunnir, auk þess sem enginn þeirra hefir sérþekkingu á þessum málum. Og fyrir þá, sem ekki hafa sérþekkingu á þessum málum, hlýtur álit vegamálastjóra að vera bezta leiðarstjarnan. Hann er þessari leið þaulkunnugur, og hefir þar að auki fullkomna menntun til þess að geta dæmt um faglega hlið þessara mála. Auk þess lætur hann sér sérstaklega annt um þetta mál.

Það er ekki á mínu færi að fara út í einstakar hliðar þessa máls, enda sé ég ekki ástæðu til þess, en vil að lokum aðeins lýsa yfir því fyrir hönd meiri hl. n., að hann leggur til, að þetta frv. verði samþ.