20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

13. mál, vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Magnús Torfason:

Mér kom ekkert á óvart, þótt hv. þm. Snæf. léti sér ekki annt um þennan veg. Hann á heima þarna vestur á Nesinu, og mun því sjaldan þurfa að fara um þennan veg eða hafa nokkrar nytjar af honum. Ég get þó ekki neitað því, að mér komu á óvart þær ástæður, sem hv. þm. færði fyrir máli sínu. Þessar ástæður bera það með sér, að hv. þm. er ekki svo kunnugur þessu máli sem skyldi, og legg ég honum það ekki til lasts. Hann fann sérstaklega að því, að það ætti að halda við gamla veginum yfir Hellisheiði. Í upphaflega frv. var gert ráð fyrir því, að þessi vegur yrði lagður niður, en samkv. brtt. frá mér á vetrarþinginu í fyrra var það tekið upp að halda gamla veginum við, og spara með því stórfé á þeim nýja. Í upphaflega frv. var gert ráð fyrir, að sá vegur yrði malbikaður og hefði sú malbikun kostað einar 3 millj. kr., og átti ekki að leggja eldri veginn niður fyrr en sú malbikun væri um garð gengin. Fyrir mitt leyti leit ég svo a, að þessi nýi vegur ætti fyrst og fremst að verða vetrarvegur, aðeins notaður 1/4 hluta ársins, og á þeim tíma er stórum minni flutningur en endranær. Þessi nýi vegur á að verða 13 km. lengri en sá, sem nú er. En það hefir yfirleitt verið lögmál, að stytta vegi, en ekki lengja þá. Og með tilliti til þess, að mér fannst, að langt myndi líða þar til búið væri að malbika veginn, fannst mér réttara að sleppa því og halda heldur gamla veginum við. Þessi breyt. hefir því í för með sér 2 millj. kr. sparnað fyrir ríkissjóð, og er því frv. í sinni núv. mynd hreinasta sparnaðartillaga. Mér kemur því mjög á óvart, að amazt sé við því, að gamla veginum yfir Hellisheiði skuli haldið við.

Ég var í fyrra í samgmn. ásamt hv. þm. Snæf., og ég man eftir því, að þessi hv. þm. vildi koma heilmörgum brúm inn í brúalögin, og ég veit ekki betur en að hann hafi samþ. þau lög með mestu ánægju. Það stendur líkt á með þau lög eins og þetta frv., hvorttveggja er framtíðarmál. Og við næsta mál á undan þessu, sem var um vega- og brúargerð í Rangarvallasýslu, hreyfði hv. þm. engum mótmælum, og er þó líkt ástatt með það og þetta. Andstaða hans kemur því ókunnuglega fyrir.

Þá kem ég að þeirri mótbáru hv. þm., sem helzt er þess verð, að á hana sé lítið. Það var sú staðhæfing, að engin ástæða væri til þess að flýta þessum lögum, af því að ekkert fé væri til framkvæmda. Við því er það að segja, að verði frv. gert að lögum nú, verður ekkert kapp lagt á það, að halda við þeim vegarspottum, sem leggja á niður. Auk þess eru kaflar á þessum nýja vegi, sem ég býst við, að nú þegar verði lagt í á næsta sumri, af þeirri sjálfsögðu ástæðu að Þegar fer að nálgast Reykjavík, er vegurinn að austan sumstaðar illfær, og verður að laga það eins fljótt og unnt er.

Mér fannst hv. þm. ekki leggja svo mikið kapp á þessa mótstöðu sína, að ég vona, að hann beiti sér ekki mjög á móti því, að frv. verði nú gert að lögum á þessu þingi.